Hveragerði Færsla Suðurlandsvegar, valkostir A-D ásamt núverandi legu vegarins. Framkvæmdum hefur verið frestað til ársins 2027.
Hveragerði Færsla Suðurlandsvegar, valkostir A-D ásamt núverandi legu vegarins. Framkvæmdum hefur verið frestað til ársins 2027. — Aðalskipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029
Óvissa um framkvæmdir sem snúa að tilfærslu á þjóðveginum getur að mati bæjarráðs Hveragerðisbæjar haft hamlandi áhrif á byggðarþróun í Hveragerði, og jafnvel leitt til lóðaskorts í ófyrirsjáanlegan tíma

Óvissa um framkvæmdir sem snúa að tilfærslu á þjóðveginum getur að mati bæjarráðs Hveragerðisbæjar haft hamlandi áhrif á byggðarþróun í Hveragerði, og jafnvel leitt til lóðaskorts í ófyrirsjáanlegan tíma. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs, sem var lögð fram í sumar og ítrekuð nú á dögunum. Umræddum framkvæmdum, sem snúa að tilfærslu þjóðvegar 1 við Hveragerði úr núverandi vegstæði (vegkaflinn „Varmá – Kambar“), hefur aftur verið seinkað og nú um þrjú ár.

Eyþór H. Ólafsson, bæjarfulltrúi í Hveragerði, segir í samtali við Morgunblaðið að framtíðarskipulag Hveragerðis miði við þessar framkvæmdir.

„Þessi færsla er búin að liggja fyrir í aðalskipulagi Hveragerðisbæjar síðan árið 2005, að beiðni Vegagerðarinnar sjálfrar. Allt skipulag í Hveragerði miðast við þessa færslu. Þetta er farið að þrengja verulega að Hveragerði þar sem bæjarfélagið er að þróast á þessu svæði, og sá þrýstingur er snýr að leyfisveitingum fyrir byggð á þessu svæði eykst einungis,“ segir Eyþór.

G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar og ritari framkvæmdastjórnar hjá Vegagerðinni, segir fjárveitingar og forgangsröðun þeirra vera merg málsins. „Yfirstandandi framkvæmdir eru í forgangi, en verklengd þeirra fylgir því fjármagni sem við fáum,“ segir G. Pétur.