Anna Dagrún Pálmarsdóttir fæddist í Hafnarfirði 13. desember 1968. Hún lést 14. október 2023 eftir langvinn og erfið veikindi.

Foreldrar hennar eru Erla Rannveig Gunnlaugsdóttir blómaskreytir, f. 9.8. 1949, og Pálmar Gunnlaugsson byggingameistari, f. 10.8. 1946.

Systir Önnu Dagrúnar er Ólafía, f. 27.8. 1966, innanhússarkitekt, búsett á Grikklandi. Eiginmaður hennar er Stamatis Fousekis byggingafræðingur, f. 26.2. 1964. Dætur þeirra eru María Rannveig, f. 8.1. 1998, og Anna, f. 13.10. 2000. Bróðir Önnu Dagrúnar er Guðmundur jógaþjálfari, f. 21.1. 1976, kvæntur Talyu Jane Freeman jógaþjálfara, f. 6.11. 1972, þau eiga dæturnar Ólafíu Grace, f. 17.7. 2004, og Evie Rós, f. 12.1. 2010.

Anna Dagrún giftist 1.6. 2002 Jónasi Þór Þorvaldssyni, verkfræðingi og framkvæmdarstjóra, f. 10.4. 1967. Foreldrar hans eru Margrét Ármannsdóttir kennari, f. 27.6. 1942, og Þorvaldur Jónasson kennari, f. 10.4. 1942.

Börn Önnu Dagrúnar og Jónasar Þórs eru: 1) Þór Jarl, f. 5.4. 1994, íþróttafræðingur. Unnusta hans er Guðrún Kristín Vilhjálmsdóttir, f. 8.3. 1994, grafískur miðlari. 2) Ægir Jarl, f. 8.3. 1998, nemi í ferðamálafræði við HÍ. Unnusta hans er Hanna Lára Ívarsdóttir hárgreiðslunemi, f. 14.6. 2000. Dóttir þeirra er Mía Björk, f. 29.11. 2021. 3) Saga Rún, f. 16.9. 2004, nemi í viðskiptafræði við HR. Unnusti hennar er Egill Sverrir Egilsson, f. 16.2. 2004, nemi í bifvélavirkjun við Borgarholtsskóla.

Anna Dagrún lauk stúdentsprófi frá MS 1988. Nokkru áður kynntust þau Jónas Þór. Saman störfuðu þau um tíma hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Jafnframt stunduðu þau nám við HÍ. Árið 1992 héldu þau til háskólanáms til San Francisco og numu við California College of the Arts and Crafts (CCAC) og þaðan lauk Anna Dagrún námi í ljósmyndun.

Heim komin kláraði Anna Dagrún nám til kennsluréttinda við Listaháskóla Íslands. Hún hóf síðan kennslu við grunn- og leikskóla í Grafarvogi og um árabil naut Anna Dagrún kennslu í leirlist og sýndi þar ríka hæfileika, þar til veikindin fóru að segja til sín.

Útför Önnu Dagrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 30. október 2023, klukkan 13.

Ég minnist Önnu Dagrúnar vinkonu minnar með miklu þakklæti fyrir allt sem hún gaf mér á þeim 22 árum sem við vorum vinkonur. Ég vann svo sannarlega í vinkonulottóinu þegar leiðir okkar lágu saman í kennslu- og uppeldisfræði í LHÍ. Við smullum strax saman og ekki varð aftur snúið. Höfum brallað margt í gegnum árin og það var ómetanlegt fyrir mig sveitastúlkuna að eignast vinkonu sem var fædd og uppalin í borginni og kynnti mig sífellt fyrir nýjum stöðum og borgarhlutum í göngutúrum okkar og hjólaferðum. Hún var náttúrubarn og elskaði allan gróður og ræktun. Við gengum því oftar en ekki meðfram ströndinni eða í útjaðri borgarinnar þar sem hún sýndi mér hvar hún hafði gróðursett tré á sínum unglingsárum. Mín fyrsta ferð á Úlfarsfell var með Önnu. Hún róleg og yfirveguð hvatti mig áfram og passaði að ég dytti ekki. Alltaf svo umhyggjusöm gagnvart mér og minni heilsu. Við áttum það sameiginlegt að elska vatn og fyrir tólf árum stofnuðum við tveggja manna sundklúbb. Við hittumst á föstudögum í Grafarvogslaug og fengum oft og iðulega þá spurningu hvort við værum systur, það þótti mér vænt um. Þessar sundferðir stóðu oft yfir allan morguninn og nærðu bæði líkama og sál. Ég mun sakna þess að fá skilaboðin „sund á morgun?“ á fimmtudögum. Anna var mikil listakona og fagurkeri og hafði gott auga fyrir allri hönnun. Hún sótti ýmis námskeið til að fá útrás fyrir sína sköpunarþrá. Ég fór með henni á tvö leirrennslunámskeið í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hún var snillingur í rennslunni. Þetta varð eiginlega að lífsstíl hjá henni og gaf henni mikið að vera í leirnum ár eftir ár. Ég ylja mér núna við góðar minningar með bolla í hönd úr hennar smiðju. Hún var líka minn helsti stuðningsmaður í mínu listabrölti og fyrir það er ég þakklát. Þegar börnin okkar voru lítil fórum við með þau árlega í Húsdýragarðinn. Þegar þau stækkuðu breyttist þetta í lista- og menningarferðir á söfn og sýningar. Við reyndum að skipuleggja þessar ferðir þegar Lóa systir Önnu var á landinu. Það var aukabónus að hafa hana með okkur enda var hún Önnu svo dýrmæt og elskuð. Undanfarin sjö ár höfum við verið saman í Agora, alþjóðlegum samtökum kvenna. Innan þess hóps upplifðum við margt saman. Við fórum í ferðir út á land og gistum undantekningarlaust saman í herbergi, kynntumst fjölbreytileika samfélagsins sem við búum í með það fyrir augum að auka víðsýni okkar og umburðarlyndi. Stórt skarð er nú höggvið í þann góða hóp. Hún Anna var svo margt, en umfram allt yndisleg persóna og góð vinkona sem auðvelt var að elska. Ég mun sakna hennar mikið. Hún var mikil fjölskyldumanneskja sem elskaði hópinn sinn og var svo stolt af honum. Hún ljómaði öll þegar hún talaði um litlu ömmustelpuna sína, enda mikil barnakerling sem helgaði líf sitt því að umgangast börn og kenna þeim. Ég sendi fjölskyldu elsku Önnu Dagrúnar mínar dýpstu samúðarkveðjur. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni á þessum erfiðu tímum. Minningin um yndislega, umhyggjusama og gefandi manneskju mun lifa í hjörtum okkar sem hana þekktum.

Hildigunnur Smáradóttir.

Elsku mamma, þú sem gafst okkur allt og vildir ekkert í staðinn. Þú kenndir okkur svo margt, kenndir okkur að sýna fólki hlýju og vinskap, að fyrirgefa og sýna ró. Þú kenndir okkur að vera í núinu, tengjast náttúrunni og fólkinu í kring. Umfram allt kenndir þú okkur ást og umhyggju. Þú skildir okkur svo vel og jafnvel betur en við sjálf. Við munum sakna stundanna með þér og samræðnanna, sakna þess að hjálpa þér og gera hluti með þér, sakna þess að fara í ferðalög með þér og í bústaðinn. Þú varst svo mikið náttúrubarn og leið svo vel úti í náttúrunni, þér leið svo vel í sveitinni þar sem bústaðurinn hjá ömmu og afa er. Margar af okkar bestu stundum með þér voru í bústaðnum á Guðrúnarstöðum. Einnig fórum við oft til Grikklands til systur þinnar þar sem þér fannst alltaf gaman. Þú varst mjög listræn og hafðir mikla hæfileika í að skapa og búa til, eins og að leira, þú gafst okkur innblástur og hvatningu til að gera meira af því. Þú hafðir sterka tengingu við tónlist sem við fundum ávallt fyrir. Þú tókst öllum vinum okkar opnum örmum og lést þeim líða vel og sýndir þeim áhuga. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og alla í kringum þig. Við erum stolt að hafa átt þig sem mömmu. Þú lifir áfram innra með okkur.

Elsku fallega mamma mín

með þér var best að vera.

Við munum alltaf sakna þín

og minninguna bera.

Ástarkveðjur!

Strákarnir þínir,

Þór Jarl og Ægir Jarl.

Það var vor í lofti, þegar Jónas Þór sonur okkar kom með Önnu Dagrúnu í kynnisferð í Vesturbergið í fyrsta sinn. Greinilegt var að ástarguðinn Amor var með í för og ástin farin að skjóta rótum. Strax var ljóst að unga stúlkan bar með sér góðan þokka – var suðræn í útliti, dökk á brún og brá og með fjörlegan glampa í augum, fasprúð og léttstíg.

Nálægt lokum framhaldsskólans kynntust Anna Dagrún og Jónas Þór. Þau unnu fljótlega saman við sumarstörf hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Það var hollur skóli og gefandi, sem lagði grunn að garðyrkju- og skógræktaráhuga þeirra síðar, bæði fyrir austan við Guðrúnarstaði í Laugardal, og heima í eigin ranni. Okkur var öllum ljóst að hér var samstilltur hugur á ferð, enda mikið jafnræði með þeim alla tíð.

Eftir nám heima og erlendis stofnuðu þau heimili í Grafarvogi. Starfsárin framundan með húsbyggingum og tilheyrandi vafstri. Framúrskarandi vinnusemi og dugnaður. Og ungu hjónin bjuggu við mikið barnalán. Elstur er Þór Jarl, þá Ægir Jarl og yngst er Saga Rún. Öll foreldrum sínum gleðigjafar og ekki síður ömmum og öfum.

Anna Dagrún hóf fljótlega störf sem myndmenntakennari við grunn- og leikskóla í Grafarvogi, síðast við leikskólann Klettaborg, uns hún þurfti að hætta vegna veikindanna. Það var líkt henni að velja að starfa með yngstu og viðkvæmustu aldurshópunum. Á þessum vettvangi nutu listrænir hæfileikar hennar sín vel – og alúðin og væntumþykjan.

Og svo kom haustlægðin og gerði sig heimakomna. Feykti og svipti veikasta gróðrinum að moldu. Í lífi okkar allra skiptast á skin og skúrir. Það verður ekki umflúið og á það vorum við minnt. Einstaklega samhentar fjölskyldur hafa snúið bökum saman á erfiðum dögum og slegið skjaldborg um þau sem mest hafa misst. Trúin og kærleikurinn hafa veitt okkur uppörvun og styrk. Við felum Guði forsjá Önnu Dagrúnar til birtu og ljóss.

Blessuð sé minning elskulegrar tengdadóttur.

Margrét og Þorvaldur.

Það var fyrir rúmum 37 árum sem Anna Dagrún kom inn í líf okkar systkina og það var glæsileg innkoma. Anna var með eindæmum fögur og tignarleg, grannvaxin með fallegt, svart sítt hár og sérstaklega yfirvegaða framkomu. Okkur fannst hún líkust gyðju þegar Jonni bróðir okkar kynnti hana fyrir fjölskyldunni í Vesturbergi. Kynni þeirra hófust á skemmtistaðnum Hollywood, en Jonni var þá að fagna vel heppnuðu stúdentsprófi sínu. Fátt kætti Önnu meira en að rifja upp þegar Jonni reyndi að vinna hug hennar með því að sýna henni námsverðlaunin sem honum hafði hlotnast við útskriftina frá FB.

Anna var frábærlega listræn og skapandi. Hún var ljósmyndari að mennt og einstaklega fallegar myndir hennar af flestum börnum okkar systkina prýða veggi mömmu og pabba í Vesturberginu. Þá málaði Anna talsvert og sótti mörg keramiknámskeið.

Jonni og Anna voru einstaklega samrýmd frá fyrstu tíð og mörgum vinum Jonna reyndist það afar erfitt að toga hann út úr húsi eftir að samband þeirra hófst. Þau reistu sér heimili á ýmsum stöðum í gegnum tíðina og öll eigum við góðar minningar frá heimsóknum á Baldursgötuna, Kvisthagann, í Vættaborgir og á Bakkastaði, þar sem við nutum frábærrar gestrisni og umhyggju Önnu.

Þau bjuggu um tíma í San Francisco þar sem þau stunduðu bæði nám. Það var mikið ævintýri að taka hús á þeim í Kaliforníu og mjög eftirminnilegt. Það var líkt og maður hefði farið aftur í tímann til áttunda áratugarins. Anna og Jonni klæddust á þessum tíma eingöngu fötum frá því tímabili og keyrðu um á gömlum, skærgrænum Ford Pinto, sem var ógleymanlegur.

Þau hafa síðan eignast yndisleg börn, Þór Jarl, Ægi Jarl og Sögu Rún, og fjölskyldan hefur verið einstaklega samheldin. Það var mikill hamingjuáfangi þegar Mía Ægisdóttir kom í heiminn fyrir tveimur árum og Anna og Jonni urðu amma og afi. Það er mikill missir fyrir Míu að hafa ekki fengið lengri tíma með ömmu sinni, sem þótti svo vænt um hana.

Samkomur okkar systkina hafa verið reglubundnar og átti Anna oftar en ekki frumkvæði að því að boða til matarboðs okkar og makanna. Urðu þessi boð ætíð hin fjörugustu. Undantekningarlítið enduðu boðin á dansi bræðranna þriggja, sem allir dönsuðu með sínum sérstaka stíl á meðan aðrir gestir grétu af hlátri.

Nú eru minningarnar það eina sem við eigum eftir af elsku Önnu okkar. Það var ömurlegt að horfa upp á skelfilegan sjúkdóm buga líkama hennar og sál, þar til hún missti trúna á að hún gæti átt hamingjuríka framtíð með fjölskyldu sinni, sem hún elskaði svo mikið. Að hún hafi verið hrifsuð af okkur í blóma lífsins er sorgleg sönnun þess að lífið er ekki alltaf sanngjarnt.

Hugur okkar er hjá Pálmari og Rannveigu, sem misst hafa ljúfa dóttur; Lóu og Gumma sem misst hafa yndislega systur; elsku Jonna bróður, sem misst hefur ástríka eiginkonu; og Þór Jarli, Ægi og Sögu Rún, sem misst hafa bestu mömmu í heimi.

Betri mágkonu hefðum við ekki getað hugsað okkur og við munum aldrei gleyma henni.

Ingibjörg Elín, Böðvar, Ármann og fjölskyldur.

Nú kveð ég þig litla kæra vina.

Kristur Jesú blessi þig

og yfir þér vaki alla tíma

englar Drottins leiði þig.

Þessi vísa eftir langömmu Önnu á vel við í dag, þegar við kveðjum okkar yndislegu frænku. Upp í hugann koma minningabrot frá dýrmætum samverustundum við leik og störf.

Anna var góðum gáfum gædd, einstaklega hæfileikarík, listræn, falleg og góð. Hún var fjörugt barn, uppátækjasöm og skemmtileg. Systkinin voru samrýnd og þær systur Anna og Lóa oftar en ekki nefndar í sömu andránni. Anna var liðug og flink í fimleikum, gekk oft meira á höndum en fótum. Hún vakti aðdáun þeirra sem á horfðu þegar hún, lítil stelpa, fór alls kyns stökk á tvíslá og dýnu og gerði æfingar af þvílíkri list að eftir var tekið. Hún vakti alltaf eftirtekt, svo falleg sem hún var, tíguleg í fasi og framkomu, skarpleit, dökk á brún og brá, með tindrandi augnaráð, hnyttin og skemmtileg í tilsvörum. Hún hafði gaman af öllu glensi og gríni og var oft hrókur alls fagnaðar. Hún var samt ekki fyrir að trana sér fram og sýndi samferðamönnum sínum alltaf kærleika og væntumþykju. Anna var mjög listræn, hugmyndarík og handlagin. Hún lærði ljósmyndun og eftir hana liggja mörg falleg verk á því sviði.

Það má segja að kynni okkar Önnu hafi tekið á sig aðra mynd fyrir einu og hálfu ári, þegar hún og Ingunn voru báðar að glíma við eftirköst af covid. Þær kölluðu sig svimasystur og reyndu alls kyns aðferðir til að hrista þetta af sér. Anna jafnaði sig því miður ekki, en þrátt fyrir mikla vanlíðan fylgdist hún með fólkinu sínu og hvatti það áfram. Hún lýsti líka fallegu sambandi sínu við Jonna, klettinn í lífi sínu. Hann og börnin studdu þétt við bakið á henni í þessum erfiðu veikindum og hún var svo þakklát þeim.

Anna var mikil fjölskyldumanneskja og ættrækin. Hún fylgdist ávallt náið með okkar fjölskyldu, gleði og sorg í okkar lífi og veitti hlýju, hvatningu og stuðning. Það fylgdi henni ákveðinn sólargeisli sem erfitt er að lýsa í orðum, en hún sendi oft hlýjar kveðjur og vildi vita hvernig allir hefðu það. Síðustu samskipti hennar við okkur voru í lok september, þar sem hún var svo glöð að Ingunn og Reynir væru í brúðkaupsferð sinni að heimsækja Lóu til Grikklands og voru með Pálmari og Rannveigu. Hennar hinsta kveðja til okkar var með þessum orðum: „Ást og friður og gangi ykkur allt til sólar.“ Það er einmitt það sem einkenndi hana, sólin.

Farin er fallega rósin

til frænda á öðrum stað.

Upp bera englar ljósin

er kemur hún þar í hlað.

Hún er farin til himneskra heima

og hleypur þar sjálfsagt við fót.

Minningar gimsteina geyma

um góða og fallega snót.

Sem var líka mikil móðir

og mild við dýr og menn.

En sjálf þurfti að þræða slóðir

sem þjaka og kvelja í senn.

Hún var regnbogans listræni litur

og lýsti sem stjörnurnar.

Í sorgmæddum hjörtum situr

sólin sem björtust var.

(Hari)

Við sendum fjölskyldu og vinum Önnu Dagrúnar Pálmarsdóttur okkar innilegustu samúðarkveðju.

Bergljót (Bella),
Haraldur (Hari),
Vilhjálmur (Villi), Svava, Ingunn Björk, Reynir og fjölskyldur.

Mér var brugðið og sorg fyllti hjarta mitt þegar mamma hringdi í mig og sagði mér að Anna Dagrún frænka mín væri látin.

Anna var á allan hátt stórglæsileg kona, skarpleit enda sótti hún fegurðina ekki í sjöunda lið. Anna var alltaf jafn góð og falleg að innan sem utan og mátti ekkert aumt sjá.

Hún Anna mín var mikill fagurkeri. Ömmur okkar áttu bústað hlið við hlið er ég var ungur drengur og var mikið sport að fá að fara yfir til Lóu ömmusystur og hitta þar frændfólk mitt. Það var glatt á hjalla í kringum Önnu, fíflagangur og sprell. Hún sótti mig líka stundum í sund eftir skóla eða niður í Stöð til afa og ömmu og það var mikið sport að fá hana til að passa sig. Hún var ein af þessum frænkum sem eru líka lúmskir töffarar í sér.

Anna frænka var ættrækin og var yndislegt að hitta hana á jólaböllum Böðmóðsstaðaættarinnar.

Hún gaf hjarta, hún eignaðist hjörtu. Hún eignaðist Jonna sinn og þau áttu þrjú börn saman, sem gaman var að sjá vaxa úr grasi, og þau voru búin að eignast barnabarn.

Skarðið sem Anna skilur eftir sig er stórt og er erfitt að trúa því að hún sé látin. Eitt er víst, að hún er komin til ömmu Lóu og Guðmundar afa og þeirra Böðmóðsstaðasystkina sem gengin voru á undan, já líklega syngjandi „Fyrr var oft í koti kátt“.

Elsku Jonni minn, Pálmar, Rannveig, Inga, Bjarni, Lóa, Gummi og stórfjölskylda. Missir ykkar er mikill.

Við þekkjum falleg góð og göfug verk

sem gjöful hún til þægðar öðrum vann

í lífsins róti stóð hún djörf og sterk

uns stundarklukka hennar úti rann.

Okkur virðist hart að þola það

sem þó er létt á móti byrðum hans

er forðum einn á krossi bænir bað

um blessun guðs og náð til sérhvers manns.

(Haraldur Haraldsson (Hari))

Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls elsku bestu Önnu frænku.

Ykkar

Vilhjálmur Karl
Haraldsson
(Villi Kalli).

Ein af gæfum lífsins er að eiga góða vinkonu. Í gegnum barnæskuna og fram á fullorðinsár var Anna sú vinkona. Mín besta vinkona. Minningarnar eru margar. Sessunautar í Breiðholtsskóla, skólakórinn, skólaleikrit og danssýningar. Síðar komu unglingsárin, göt í eyrun, eyeliner, háfjallasól og ljósabekkir. Hlustað á Duran Duran, Loverboy og Prince. Rætt um sætu strákana, fyrsta kossinn. Lítill bjórsopi, dansað við 80's-tónlist á D14. Unglingalandsmót, sumarbústaðaferðir, utanlandsferðir. Mikið spjallað, talað hratt og endalaust hlegið.

Á háskólaárunum skildi leiðir og sambandið smám saman rofnaði. Allt að einu var Anna alltaf Anna vinkona. Vissu allir til hverrar var vísað þegar nafn hennar bar á góma.

Ég er heppin að hafa átt Önnu að. Á þeim mótandi árum sem barnæskan og unglingsárin eru átti ég vináttu hennar að. Fyrir það hef ég alltaf verið forsjánni þakklát.

Jonna, Þór, Ægi, Sögu, Pálmari, Rannveigu, Lóu, Gumma og öðrum ástvinum votta ég mína dýpstu samúð. Elsku Önnu vinkonu þakka ég fyrir hverja stund.

Bryndís Kristjánsdóttir.

Minningarnar eru allt um kring. Anna okkar hefur yfirgefið okkur eftir 38 ára vinskap sem aldrei bar skugga á. Við vinahjónin höfum fylgst að í gegnum lífið, byggt upp fjölskyldur og eignuðumst börn á sömu árunum. Góðir og glaðir æskuvinir, dans- og ferðafélagar. En lífið er lottó og þú fórst skyndilega að kljást við hræðileg veikindi sem lögðu þig að lokum. Mikið verður allt breytt og mikið munum við sakna þín elsku Anna okkar. Þú ert farin með brosið bjarta, umhyggjuna og ástina fyrir öllu sem í kringum þig var. Hugur okkar og hjarta er hjá ykkur elsku fjölskylda.

Farðu í friði elsku vinkona, fallegar minningar sitja eftir hjá okkur.

Jóhann og Fríða Björk.

Elsku ljúfa og lítilláta Anna, glettna og hláturmilda.

Stundirnar með þér eru mér dýrmætar.

Það er ekki öllum gefið að geta setið saman í þögn en með þér var þögnin hvorki þrúgandi, erfið né vandræðaleg, heldur falleg og gefandi.

Elsku besta og umhyggjusama Anna sem ávallt spurðir um mína hagi og sýndir mér og mínum áhuga. Ekki að þú vildir hampa þér og þínum en við ræddum hve sátt og sæl þú værir með stórfjölskyldu þína; foreldra og systkini, og hreykin af börnunum þínum þremur. Þegar við kynntumst ungar að árum varstu þá þegar helmingur af einingunni „Anna og Jonni“ og ykkar gjarnan getið í sömu andránni. Virðing og væntumþykja skein í gegn í hvert sinn sem þú nefndir Jonna á nafn enda með eindæmum samrýnd hjón og vinskapur ykkar einstakur.

Elsu listræna fágaða Anna. Smekkvísi þín var mikil. Þú varst mesta og besta listaverkið en vissir það auðvitað ekki sjálf. Í senn viðkvæmt blóm og sterk kona. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Líka að fá að sjá þig með græna fingur í grænmetisræktuninni í garðinum eða sitja með þér og fylgjast með krumma koma ungviði á legg.

Elsku Anna, ég gerði mér von í brjósti að þú myndir ná fullri heilsu og við gætum látið verða af því að fara saman til Grikklands að heimsækja Lóu systur þína en nú ert þú farin í síðasta ferðalag þessarar jarðvistar. Góða ferð elsku Anna. Ég kveð þig með þínum eigin orðum sem þú sagðir í hvert sinn sem við áttum samskipti, sama hvort það var í raunheimum eða á veraldarvefnum: „Takk mín kæra.“

Kæra fjölskylda; Jonni, Þór Jarl, Ægir Jarl, Saga Rún, foreldrar, systkini og aðrir aðstandendur, mér er orða vant. Missir ykkar er mikill og ég samhryggist ykkur innilega. Megi minning Önnu lifa.

Áslaug Maack
Pétursdóttir.

Með mikilli sorg í hjarta kveðjum við kæra vinkonu, Önnu Dagrúnu Pálmarsdóttur. Það var okkur mikil gæfa þegar Anna Dagrún gekk í klúbbinn okkar. Kærleikur, umhyggja fyrir mannfólki, umhverfi og náttúru var mikil. Til hennar var gott að leita með hvaða málefni sem var. Glettin augu og breitt bros umvefjandi kærleik. Það er því stórt skarð höggvið í okkar hóp en við sem eftir erum yljum okkur við ljúfar minningarnar. Minningar af kjarngóðum samræðum, gleði, hlátri, ferðum um landið okkar, göngum og góðum fundum. Alltaf var Anna Dagrún góður þátttakandi í klúbbstarfinu, útsjónarsöm og hugmyndarík hvað varðar efnistök á fundum. Við þökkum fyrir það. Anna Dagrún gaf okkur mikið.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibj. Sig.)

Kæra fjölskylda, við Agora 3-klúbbkonur vottum ykkur okkar innilegustu samúð. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Svava Halldóra
Friðgeirsdóttir,
formaður.

Anna kom inn í vinahóp okkar strákanna þegar hún byrjaði að hitta Jonna. Glæsileg ung kona sem strax sýndi að hún kippti sér ekkert upp við einhvern gauragang eða þegar bíóstefnumót með nýja kærastanum urðu fjölmennari en hún hafði ætlað. Jonni var fyrstur af okkur vinunum til að fá bílpróf og ferðum í bíó vildum við ekki missa af. Anna hafði gaman af því að ferðast og hafði hún planað ferð til Mallorka þetta fyrsta sumar með systur sinni og vinkonu, en auðvitað vildi hún fá Jonna til að koma með og ekkert tiltökumál var þó fleiri bættust í hópinn. Varð úr ferð ungra og óreyndra ferðafélaga með mörgum skemmtilegum uppákomum sem oft hafa verið rifjaðar upp og hlegið að. Sumarið eftir var það svo Malta, en fáum hafði dottið í hug að fara þangað á þessum tíma, en það fannst Önnu tilvalið.

Svo líða árin og við vinirnir kynnumst okkar konum og stofnum fjölskyldur. Áfram helst vináttan og margt er brallað. Matarklúbburinn Joðin varð fastur punktur í tilverunni og farið saman í ferðir bæði innan- og utanlands. Margir fínir veitingastaðir voru heimsóttir en okkur hjónum er samt minnisstæðast þegar við fórum í frábæra ferð fyrir fáum árum um Suður- og Austurland með Jonna og Önnu. Höfðu þau tekið að sér að skipuleggja ferðina og þegar áð var í stórbrotinni náttúrunni dró Anna alla daga fram dýrindis veitingar með öllu tilheyrandi. Hefur matur og vín aldrei bragðast jafn dásamlega. Ógleymanlegar eru allar veiðiferðirnar okkar saman þar sem sýndi sig að Anna var mikil veiðikló og naut sín við ána. Anna var jafnframt gædd miklum listrænum hæfileikum sem komu berlega í ljós á leirnámskeiðunum sem við vinkonurnar sóttum. Hlutirnir hennar allir svo fallegir og vandaðir.

Veturinn 2022 ákvað Anna að slá til og koma með okkur í skíðaferð án þess að kunna nokkuð á skíði. Lét hún það ekki stoppa sig, en komst að því að gönguskíði hentuðu betur en svigskíði og jafnslétta betur en brekkur. Þá tókst okkur líka að draga hana í golf stuttu seinna á Tene, enda alltaf til og lítið mál þó svo spilið gengi ekki allt eftir áætlun. Voru upp stór áform um gönguskíða- og golfæfingar. Það var því mikið áfall þegar veikindi drógu úr henni mátt og komu á endanum í veg fyrir að hún gæti ferðast og tekið almennilega þátt í daglegu lífi. Var það sár missir fyrir hana og okkur hin, sem notið höfðum samverunnar og þeirrar hlýju og væntumþykju sem í henni bjó.

Elsku hjartans fallega Anna okkar, það er svo sárt að kveðja þig. Við þökkum þér vináttuna og allar skemmtilegu stundirnar okkar saman. Minningin um góða og hjartahlýja vinkonu mun lifa.

Jóhannes og Hrafnhildur.

Elsku besta Anna Dagrún.

Sporin sem fólk skilur eftir sig eru misdjúp. Sporin sem Anna skilur eftir sig eru bæði djúp og einlæg. Anna var djúpþenkjandi, úrræðagóð og hafsjór af fróðleik sem hún miðlaði af visku og nærgætni.

Það var gott að vinna með Önnu, hún var skipulögð og réttsýn. Anna lét verkin tala.

Við unnum lengi saman og þurftum ekki að tala til að láta hlutina ganga enda var nærvera Önnu alltaf mjög þægileg, líka í þögn. Hver/hvar var skipulagsblað sem Anna setti upp á deildinni og breytti leiknum. Anna var svolítið í því að breyta leikjum. T.d. þegar hún innleiddi bakað grænkál á kaffistofuna. Nokkuð sem ekki hafði sést áður innan um sætabrauð og bakkelsi. Þarna var hún að stækka heiminn. Eftir þetta fjölgaði skiptunum þar sem grænmeti sást á föstudagskaffiborðum.

Anna hafði óbilandi áhuga á innanhússhönnun og skipulagi og leitaði ég oft til hennar í mínum húsbyggingum. Hún var mér mikill innblástur og hvatning. Hún taldi það ekki eftir sér að fara með mig í heimsóknir til ættingja sinna til að sýna mér einhverja hönnunarsnilldina, allt frá gluggatjöldum til burðarveggja.

Áhugi hennar var smitandi. Heimili hennar og fjölskyldunnar bar merki um smekkvísi og var ávallt óaðfinnanlegt. Þvílíkur fagurkeri.

Hún kenndi mér að meta gufusoðinn fisk. Hún var talsmaður þess að vera í núinu, iðka hreyfingu, borða hollt og njóta. Hlúa að fjölskyldunni og heilsunni fram yfir allt annað. Hlutir sem virðast hversdagslegir kalla núna fram góðar minningar um eina þægilegustu konu sem ég hef kynnst.

Anna hafði mikil áhrif á mig, bæði sem kennara og manneskju.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Takk fyrir allt og allt.

Ég sendi fjölskyldu Önnu Dagrúnar innilegar samúðarkveðjur og bið allt gott að umvefja þau í þessari miklu sorg.

Arna Þrándardóttir.

Regnbogi glitrar um himin

þvílíkt undur sem það nú er.

Líkt og vinátta sem maður öðlast og varðveitir

um alla eilífð í hjarta sér.

Á enda hvers regnboga er gullið góða

maður finnur það ef vel er að gáð.

Maður getur fundið slíka gersemi í vináttu

sérstaklega ef vel í byrjun er sáð.

Þó er sú staðreynd að regnbogar dofna

og eftir verður minningin ein.

Um þá liti, það undur og þá fegurð

sem virtist vera svo hrein.

Vinátta getur því sannarlega dofnað

sérstaklega ef vinur í burtu fer.

Minningar verða því einungis eftir

fyrir þann sem eftir er

Þegar ég fékk símtal frá góðum vini um að vinkona mín væri farin frá okkur þyrmdi yfir mig, það varð dimmt, líkaminn þungur og sorgin helltist yfir mig. Elsku fallega, hláturmilda, góðhjartaða, hugmyndaríka og listræna vinkona mín er farin frá okkur. Síðan þá hafa samtölin og minningarnar um Önnu við sameiginlega vini verið dýrmæt og minna á að lífið getur tekið stefnu sem við búumst ekki alltaf við.

Samferð okkar Önnu Dagrúnar um lífið lá saman á mörgum stöðum. Helst ber að nefna að dætur okkar voru jafn gamlar og skólasystur, hún kenndi öllum dætrum mínum í skóla og/eða leikskóla, við unnum saman, vorum nágrannar, gengum saman, drukkum ófáa kaffibollana í eldhúsi hvor annarrar, auk þess sem við sóttum heilmörg námskeið saman. Ferðirnar okkar vestur í bæ í myndlistarskólann kölluðu á margar frásagnir, samræður, hlátur, grát og allt þar á milli, yndislegur tími.

Kæru Jonni, Saga Rún, Þór Jarl, Ægir Jarl, fjölskylda og vinir, mínar dýpstu samúðarkveðjur á þessum erfiða tíma þar sem við minnumst Önnu Dagrúnar, en um leið skulum við gleðjast yfir lífi hennar og muna allt það góða og skemmtilega.

Um hlátrasköllin góðu

þau skemmtilegu spjallkvöld.

Tryggðin, trúin og traustið

og hvað gleðin tók oft öll völd.

Þó gerist oft það undur

að regnbogi birtist á ný

og vinir aftur hittast

líkt og ekkert hafi farið fyrir bí.

Því ef vonleysið mann ei gleypir

heldur ætíð í þá trú

að regnbogi muni aftur birtast

og sá regnbogi gæti verið þú.

Það skiptir því ekki svo miklu

hvar á jarðarkringlunni maður er

því ætíð mun maður sjá aftur

regnbogann birtast sér.

Alltaf mun ég því halda

mínum kæra vin nær.

Allavegana í mínu hjarta

öruggan stað þar hann fær.

(Katrín Ruth Þ.)

Dagný.