Guðrún Bjarnadóttir fæddist 17. júní 1936. Hún lést 16. október 2023. Útför fór fram 25. október 2023.
Elsku yndis amma, þetta er enn svo óraunverulegt enda gerðist þetta allt svo skjótt. Þegar maður lygnir aftur augunum finnum við enn hlýjuna þína, augun sem alltaf geisluðu af ást, brosið og faðmlögin góðu. Amma var einstaklega rík af afkomendum en þessi netta og glæsilega kona var með risastórt hjarta, ótrúlegt að það hafi komist fyrir í svona fíngerðri konu, og enginn fann annað en að hún elskaði okkur hvert og eitt meir en hugsast gat. Í hennar huga var enginn hafinn yfir annan og alltaf pláss til að elska stækkandi langömmubarnaflokkinn af sama einlæga krafti.
Við tökum það með frá ömmu áfram í lífið að elska og vilja öðrum það besta og það mun draga fram það besta.
Takk fyrir alla ástina, elsku amma!
Unnur María, Hjalti Páll, Tómas Þorri, makar og börn.
Það er sárt að hugsa til þess að Guðrún frænka sé búin að kveðja.
Guðrún var fljót að fá titilinn uppáhaldsfrænkan. Hún var alltaf svo hlý og góð. Ég man hvað það var gaman að koma á Unnarbrautina til Guðrúnar og Einars, þar var allt svo fallegt og ekki skemmdi fyrir að þau fylltu vasana hjá manni af nammi.
Eftir að ég varð eldri urðu samskipti okkar Guðrúnar meiri og á Guðrún stóran stað í hjarta mínu. Þegar ég eignaðist eldri son minn kom hún stundum til mín og sat hjá mér á vökudeildinni og dáðist að hjartagullinu eins og hún kallaði hann. Við Guðrún áttum margar yndislegar stundir saman, hvort sem það var í klippingu, heimsóknum, veislum eða í góðum partíum. Við gátum talað um allt milli himins og jarðar, því Guðrún var alltaf til í að hlusta.
Ég er svo þakklát fyrir það hversu innilega við kvöddumst síðast þegar við hittumst. Hún faðmaði mig og þakkaði mér fyrir að vera alltaf svo góð við sig og ég svaraði á móti að hún væri nú einu sinni uppáhaldsfrænkan.
Ekki vissi ég þá að þetta væri síðasta faðmlagið.
Elsku Einar, Margrét, Guðrún, Ransý, Kolla, Tommi og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Nanna frænka.
Guðrún Bjarnadóttir var einstök manneskja. Ein af þeim sem gera veröldina að betri stað fyrir alla sem voru henni samferða. Fyrir mig voru það forréttindi að fá að vera henni samferða og kynnast henni. Fyrir það verð ég alltaf þakklátur.
Ég kynntist Guðrúnu og tengdist fjölskylduböndum fyrir nær 50 árum síðan. Alltaf mætti hún mér með opnum faðmi og brosinu sínu fallega. Sem gleymist mér aldrei. Hún var ekkert nema hlýja, einlægni og geislandi af væntumþykju. Hún var sterk, auðmjúk og æðrulaus. Hún var full af ástúð og bar virðingu fyrir öllum. Var alltaf heil. Það var útilokað annað en að þykja mikið vænt um hana.
Kveð ég þig nú elsku Guðrún með miklum þökkum fyrir samferðina.
Farðu vel fallega manneskja.
Helgi Skúlason.
Í dag, þegar ég kveð mágkonu mína sem ég hef þekkt í 58 ár, þá koma margar minningar upp í hugann. Þar sem ég hef, allan minn búskap, búið á Njálsgötunni, þar sem Guðrún ólst upp, þá voru samverustundirnar margar hjá tengdaforeldrum mínum og eins voru börn okkar á svipuðum aldri. Eftir andlát tengdamóður minnar, árið 2001, hófum við mágkonurnar, Guðrún og Helga, ásamt svilkonu minni, Sigurlaugu, að fara reglubundið saman út að borða og enda síðan á Njálsgötunni. Gaman var að hlusta á þær systur rifja upp æskuminningarnar. Helga lést árið 2017. Mánuður er svo síðan við þrjár fórum saman, hressar og kátar og verður sú minning ávallt í brjósti okkar Laugu. Blessuð sé minning þín, elsku Guðrún, þín verður sárt saknað. Einari og fjölskyldu votta ég innilega samúð.
Angrið sækir okkur tíðum heim
sem erum fávís börn í þessum heim
við skynjum fátt, en skilja viljum þó
að skaparinn oss eilíft líf til bjó,
að upprisan er öllum sálum vís
og endurfundir vina í paradís.
(Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti)
Ása P. Guðjónsdóttir.
Jarðvist á enda,
lífsgöngu lokið,
ljósið þitt slokknað,
fölnuð brá.
Hljóðnuð er röddin,
hæglátur blærinn,
helguð þín brottför
drottins náð.
Syrgjendur kveðja,
söknuðinn finna,
sárasta harminn,
tregans tár.
Faðmi þig ljósið,
friðarins engill
fylgi þér nú
á æðra stig.
(Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)
Með þessum orðum langar okkur að minnast Gunnu vinkonu okkar.
Þegar vinkona er kvödd eftir 67 ára vináttu er margs að minnast.
Við kynntumst 1956 þegar við vorum að byrja nám í hjúkrun.
Sameiginlegt nám og dvöl í heimavist í þrjú ár varð til þess að „hollið“ okkar myndaði órjúfanleg vinabönd, sem ekki hefur borið skugga á.
Gunna var smávaxin, falleg, dökkhærð stúlka. Lífsglöð, félagslynd, alltaf í góðu skapi og hafði góða nærveru. Þegar líða tók á námstímann hitti Gunna hann Einar sinn, og af þeirra kynnum fæddist Margrét, Spútnik 2 eins og við stelpurnar kölluðum „kúluna“ þegar Gunna gekk með hana. Á þessum tíma voru Rússar að senda gervihnöttinn Spútnik um jörðina. Gunna var svo heppin að foreldrar hennar gættu Margrétar svo hún gæti lokið hjúkrunarnáminu.
Við „hollsysturnar“ höfum verið í saumaklúbb öll þessi ár, farið árlega í bústað sem Einar og Gunna eiga í Vaðnesi. Haldið árlega fagnað með mökum okkar, með matarveislum gleði og söng. Hún var myndarleg húsfreyja og þau Einar áttu fallegt heimili. Þau áttu einnig miklu barnaláni að fagna.
Við erum þakklátar fyrir vináttu hennar og tryggð, og sendum Einari og ástvinum öllum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd „hollsystranna“,
Helga Guðjónsdóttir.