Veronika Steinunn Magnúsdóttir
veronika@mbl.is
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að rétt hefði verið að styðja ályktun Jórdaníu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um mannúðarhlé á Gasaströndinni. „Við í ríkisstjórninni vorum sammála um að við myndum leggja áherslu á vopnahlé af mannúðarástæðum strax,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið.
Enginn ágreiningur sé innan ríkisstjórnar um mikilvægi þess að virða alþjóða- og mannúðarlög. Fastanefnd Íslands í New York starfar í umboði utanríkisráðuneytisins og segir Katrín að ekki sé hefð fyrir því að haft sé samráð við forsætisráðherra við atkvæðagreiðslu.
„Við lögðum áherslu á að leitað yrði allra leiða til að stöðva átökin og finna friðsamlegar lausnir, en líka að halda til haga árásinni sem Hamas gerði á Ísrael fyrr í október. Um það snerist breytingartillaga Kanada, sem hlaut meirihluta atkvæða á þinginu,“ segir Katrín en tillagan hefði þurft aukinn meirihluta til þess að ná fram að ganga. Því hefði niðurstaðan verið sú að sitja hjá þegar greidd voru atkvæði um ályktun Jórdaníu, sem tók ekki tillit til árásar Hamas í októberbyrjun.
„Ég og minn þingflokkur töldum að það hefði verið rétt að styðja tillöguna þrátt fyrir það, í ljósi þess að neyðin er mikil á svæðinu. Það er gríðarlegt mannfall óbreyttra borgara. Og það er því gríðarlega mikilvægt að stöðva þessi átök strax,“ segir Katrín og bendir á að Noregur og fleiri ESB-ríki hafi valið þá leið. Katrín segir sorglegt að engin samstaða hafi náðst um heildartillögu en Ísland hafi látið sína afstöðu skýrt í ljós. » 2, 13