Vaktin Margt í daglegum verkefnum hér fer í reynslubankann, segir Ágústa Hjördís Kristinsdóttir hér í viðtalinu.
Vaktin Margt í daglegum verkefnum hér fer í reynslubankann, segir Ágústa Hjördís Kristinsdóttir hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hún situr á bekk í biðstofunni og ber hönd að enni. Unglingur með hönd í fatla kemur með móður sinni í afgreiðsluna og leitar ásjár. Hrufl á hendi og haltur fótur. Öryggisvörður situr við borð. Inni á göngum er fólk í sjúkrarúmum og aðstandendur sitja hjá

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hún situr á bekk í biðstofunni og ber hönd að enni. Unglingur með hönd í fatla kemur með móður sinni í afgreiðsluna og leitar ásjár. Hrufl á hendi og haltur fótur. Öryggisvörður situr við borð. Inni á göngum er fólk í sjúkrarúmum og aðstandendur sitja hjá. Starfsfólk er á þönum. Læknir í hvítum slopp er á fartinni. Sjúkraflutningamaður segir hughreystandi orð við skjólstæðing. Á stórum skjá sést hver staðan er á deildinni. Sögusviðið – að breyttu breytanda – er bráðamóttaka Landspítalans á eftirmiðdegi í október.

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir hefur síðasta árið verið deildarstjóri bráðadeildar í Fossvogi en tók formlega við starfinu í september síðastliðnum. Hér er Hjördís flestu kunnug; hún kom fyrst til starfa á deildinni árið 2003 þá 3. árs háskólanemi í hjúkrunarfræði. Í ýmsum hlutverkum hefur hún hefur verið viðloða deildina síðan, meðal annars eftir að hafa vestur í Bandaríkjunum numið bráðahjúkrun sem sérgrein.

Brotinn putti og pestir

„Erillinn hér getur verið mikill og verkefnin krefjandi. Margir, til dæmis ungir hjúkrunarfræðingar, vilja gjarnan prófa bráðamóttökuna og hvort þetta sé eitthvað fyrir sig. Og yfirleitt finnur fólk mjög fljótt hvort þetta hentar sér eða ekki,“ segir Hjördís alvön að stíga ölduna í þessu umhverfi.

Á tímabilinu janúar til og með ágúst á þessu ári voru komur á bráðamóttökuna 43.753 borið saman við 40.977 á sömu mánuðum í fyrra. Fjölgunin er um 7% og í ár hafa komur á deildina gjarnan verið um 200 á dag. Annríkið er því oft mikið. Sú var einmitt raunin síðasta fimmtudag þegar gefin var út tilkynning þar sem fólk var hvatt til að leita annað eftir þjónustu væri þess kostur. Nú í októberlok eru haustpestirnar farnar að tikka inn eins og starfsfólk á bráðamóttöku finnur vel fyrir. Og kóvidið kraumar af krafti. Á sjúkrahús kemur líka fólk með kviðverki, lungnabólgu, hjartasjúkdóma og blæðingar. Deyjandi fólk og einn með brotinn putta. Allt milli himins og jarðar.

„Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið efld á síðustu árum og er dugleg að taka til sín tilvik og erindi sem vel má leysa þar. Minniháttar áverkum og hrufli, veikindum og þjónustu við þau sem eru með króníska sjúkdóma er vel sinnt á heilsugæslunni,“ segir Hjördís og heldur áfram:

„Bráðadeildin er staður sem fólk er vant að sækja og treystir, sem auðvitað eru meðmæli. En mörgum erindum verður betur sinnt annars staðar og þá bara tekur sinn tíma að fólk venjist slíku. Þetta tengist að hluta fráflæðisvandanum sem áberandi hefur verið á Landspítala síðustu árin. Fólk sem fengið hefur viðeigandi meðferð á sjúkrahúsinu er stundum stopp hér, því ekki er í önnur hús að vernda í flóknu og stóru heilbrigðiskerfi. Uppbygging þjónustu hefur ekki fylgt fólksfjölgun og öðru í þróun samfélagsins.“

Sérþekking á fjölmennum vinnustað

Alls vinna um 300 manns á bráðamóttökunni í Fossvogi. Verkefnin eru fjölbreytt og svo allt gangi upp þarf fjölbreyttan hóp starfsfólks, svo sem hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, aðstoðarfólk, sérfræði- og sérnámslækna, móttökuritara, félagsráðgjafa og fleiri.

„Okkar áherslumál hér er að efla sérþekkingu fyrir fjölbreytt verkefni. Þjálfun og fræðsla er stór og mikilvægur þáttur í starfseminni hér, enda er bráðahjúkrun í örri þróun. Hópslysaæfingar til dæmis eru teknar reglulega og eru þýðingarmiklar. Nýtt í dag er til dæmis þegar fólk á rafskútum dettur og slasast,“ segir Hjördís og heldur áfram:

„Í daglegum verkefnum hér lærist síðan ansi margt sem fer í reynslubanka hvers og eins og eykur klíníska starfsfærni. En við leggjum líka mikið upp úr því til að starfsliðið hér sé ein heild og að fólk hafi stuðning hvað af öðru. Ungt fólki í námi hefur oft tilfinningu fyrir hvernig bæta má vinnubrögð og gera hlutina öðruvísi. Slíkt er alveg frábært rétt eins og reynsluboltar hafa hér miklu að miðla. Þá leggjum við líka mikið upp úr því að halda vel utan um hvern og einn starfsmann. Veitum stuðning því störf hér krefjast mikils af starfsfólki. Lífsreynslan kemur líka sterk inn í þetta; sjálf finnst mér ég búa að því í þessu starfi að vera úr sveit og að hafa farið aðeins sextán ára í heimavistarskóla og þurft þar að standa á eigin fótum.“

Á undanförnum árum hefur Hjördís nokkrum sinnum farið til útlanda og sinnt þar verkefnum á vegum Rauða krossins. Þetta gerði hún eftir að hafa farið fyrst á sendifulltrúanámskeið sem haldið var hér heima og síðar í þjálfun í neyðarhjálp sem Rauði krossinn í Noregi stóð fyrir.

Starfið er alltaf eins í eðli sínu

„Ég hef frá æsku fylgst af aðdáun með hjálparstarfi Rauða krossins. Slíkt átti efalítið þátt í því að ég lagði fyrir mig bráðahjúkrun. Árið 2015 fór ég til starfa í Nepal eftir jarðskjálfta þar. Var þar með Norðmönnum í stóru tjaldsjúkrahúsi þar sem var bráðamóttaka, skurðstofa, fæðingardeild og fleira. Var svo í Bangladess þegar þangað flykktust róhingjar; flóttamenn frá Mjanmar. Þetta var stíft úthald rétt eins og vakt í Haítí árið 2021 eftir jarðskjálfta. En hvort sem vaktin er staðin í fjarlægu landi eða hér í Fossvogi er hjúkrunarstarfið alltaf eins í eðli sínu; það að mæta fólki í aðstæðum sínum og veita því hjálp með bestu þekkingu og alúð. Hjálpa því að geta tekist aftur á við lífið, brosað framan í veröldina sem skiptir svo óendanlega miklu máli.“

Hver er hún?

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir er Rangæingur að uppruna, fædd árið 1979. Hún er með framhaldsnám í bráða- og gjörgæsluhjúkrun frá Bandaríkjunum og hefur lengstan hluta starfsferlis síns sinnt verkefnum í krafti þeirrar menntunar.

Hefur haft umsjón með diplómanámi á meistarastigi í bráðahjúkrun auk þess að vinna ötullega að hæfniviðmiðum hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni í Fossvogi. Hún hefur jafnframt víðtæka reynslu af verkefnavinnu og innleiðingu verkferla á Landspítalanum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson