Ingólfur Arnar Guðjónsson fæddist 23. febrúar 1946. Hann lést 8. ágúst 2023. Útför hans fór fram 25. október 2023.

Við viljum með nokkrum orðum að minnast góðs vinar Ingólfs Guðjónssonar sem lést í heimaborg sinni Sheffield í Englandi 8. ágúst síðastliðinn eftir erfið veikindi.

Kynni okkar hófust fyrir rúmlega 50 árum á námsárum okkar í Liverpool, þar sem Ingó stundaði framhaldsnám í sálfræði eftir útskrift frá Manchester-háskóla. Það var ómetanlegt fyrir saklausa sveitamenn frá Vestmannaeyjum að kynnast þeim Ingó og Susan og njóta leiðsagnar þeirra og vináttu, sem haldist hefur alla tíð síðan, þrátt fyrir búsetu sitt í hvoru landinu lengst af.

Þessa sömu ræktarsemi og vináttu sýndu þau Erni syni okkar þegar hann var við nám í Sheffield rúmlega 30 árum seinna, þar sem sagan endurtók sig.

Ógleymanlegar eru allar heimsóknir okkar til þeirra á námsárunum eftir að þau fluttu aftur til Manchester, leikir á Old Trafford, ótal tónleikar ásamt ferðalögum um England. Þar er sérstaklega eftirminnileg vikudvöl í hjólhýsi í St Ives í Cornwall 1974.

Áhugi Ingós og þekking á alls konar tónlist var einstök og kom hann manni í kynni við ýmislegt sem annars hefði farið forgörðum, en erfitt gat verið að fylgja honum eftir í þessum fræðum. Stuðningur hans og Susan við Manchester United var ósvikinn, en við vonum að þau hafi fyrir löngu fyrirgefið okkur að svíkja lit og leita á náðir erkióvinanna í Liverpool.

Við erum þakklát fyrir að hafa hitt þau reglulega undanfarin ár bæði á Íslandi, Englandi og Kanarí. Óneitanlega var erfitt að sjá hvað sjúkdómurinn hafði smám saman áhrif á Ingó og dró úr honum kraft, en alltaf skein þetta einstaka Ingó-bros í gegn. Fyrir tveimur árum kom hann í síðasta sinn til Íslands með allri fjölskyldunni, börnum, barnabörnum og tengdabörnum, þar sem við eyddum góðum degi á okkar uppáhaldsstað, Vestmannaeyjum, með lundapysjusleppingum og tilheyrandi. Gengum ekki á Heimaklett í þetta sinn eins og við gerðum eftirminnilega með Ingó og Susan sumarið 1972, nokkrum mánuðum fyrir gos.

Takk Ingó fyrir að vera góður og gegnheill vinur og skemmtilegur félagi allan þennan tíma. Við vottum Susan, Stefáni, Claudiu, Söru, Dave og börnum þeirra okkar dýpstu samúð.

Gunnar og Erna.

Elsku vinur minn Ingólfur Guðjónsson er látinn.

Við Ingó kynntumst á Kleppsspítala haustið 1975, nýkomin heim frá námi í útlöndum. Við áttum svo margt sameiginlegt en ekki síst nýja starfið og hugmyndir um hvernig sálfræðin mætti nýtast á Íslandi. Við urðum fljótt mjög góðir vinir og sú vinátta hefur haldist síðan eða í 48 ár.

Við höfðum fengið þjálfun í atferlisfræði og notuðum hana í meðferð einstaklinga og í samskiptaþjálfun. Þetta fræðasvið var nýtt hér á landi og við þurftum að þýða hugtök og orð yfir á íslensku. Eitt nýju orðanna var ákveðni. Ingó hafði einstakt lag á tungumálinu og var gæddur góðum málskilningi. Við hófumst handa við að kynna aðferðir sem miðuðust við þarfir skjólstæðinga okkar og hönnuðum námskeið í ákveðniþjálfun fyrir starfsfólk. Slík námskeið voru nýlunda og urðu fljótt vinsæl. Við héldum síðar námskeið á öðrum vinnustöðum með fleira fagfólki. Við gerðum svo rannsókn á því hvort námskeiðin hefðu áhrif á hæfni í samskiptum og kynntum stolt niðurstöðurnar á sálfræðingaþingi í Kaupmannahöfn 1980. Þá var eiginkona Ingós, Susan, komin í teymið okkar með sérþekkingu á tölfræði.

Við Ingó stunduðum gagnkvæma handleiðslu í starfi og tókum þátt í að kynna erlenda strauma og stefnur í sálfræði. Þetta voru frjó og skemmtileg ár og mér fannst ómetanlegt að eiga Ingó að vini og félaga í starfi. Ingó var jafnlyndur og mikill húmanisti. Hann hafði kímnigáfu sem var sérstök og græskulaus. Hann kom oft á óvart með því að lýsa kjarna máls. Það var fjarri honum að gera grín að öðrum og beita hæðni, ég heyrði hann aldrei gera lítið úr öðrum. Hann var næmur og hafði djúpan skilning á fólki og hann gat bæði hlustað en líka miðlað þessum skilningi. Ekki síst þess vegna var hann svo eftirminnilegur persónuleiki og ég er enn í dag spurð um hann rúmum 40 árum eftir að hann flutti alfarinn frá Íslandi.

Þegar Ingó og Súsa fluttu til Bretlands um 1980 höfðu þau eignast Stefán John og Söru Ásdísi. Þau bjuggu sér fallegt og hlýlegt heimili í Sheffield þar sem gaman var að heimsækja þau. Lengst af var Ingó sálfræðingur á geðsjúkrahúsi í Manchester. Súsa og Ingó komu oft til Íslands en þau ferðuðust einnig um heiminn, meðal annars til Kína og Ástralíu. Við skiptumst á póstkortum og ferðasögum. Eftir að við eignuðumst barnabörn hafa jólakort verið send með myndum af þeim. Síðast hittumst við í Wales 2018 boðin í glæsilegt brúðkaup Söru og Dave. Þar var öll fjölskyldan samankomin, börn, tengdabörn og barnabörnin. Ingó var orðinn merktur af veikindum sínum en var samt glaður og hamingjusamur. Á þeim fimm árum sem liðin eru síðan hrakaði heilsu hans þó stöðugt þar sem Levy Body-taugasjúkdómur tók við af krabbameinsveikindum. Allan tímann hefur Súsa verið sú sem vék vart frá hlið hans. Sá styrkur sem hún hefur sýnt í veikindum Ingós er einstakur. Þau voru nánir sálufélagar alla tíð.

Við Vilhjálmur sendum Súsu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ingólfs Guðjónssonar.

Álfheiður Steinþórsdóttir.