Afrein Umferð um afreinina hefur aukist mikið. Fólk passar sig illa á því að líta til beggja hliða. Lítið pláss er til staðar ef eitthvað skyldi koma upp á.
Afrein Umferð um afreinina hefur aukist mikið. Fólk passar sig illa á því að líta til beggja hliða. Lítið pláss er til staðar ef eitthvað skyldi koma upp á. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erlendur S. Þorsteinsson hjólareiðaaðgerðasinni vekur athygli á því að skortur á frágangi vegar að nýju húsnæði Garðheima skapi talsverða hættu á hjólastígnum sem lagður hefur verið meðfram Álfabakka

Sviðsljós

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Erlendur S. Þorsteinsson hjólareiðaaðgerðasinni vekur athygli á því að skortur á frágangi vegar að nýju húsnæði Garðheima skapi talsverða hættu á hjólastígnum sem lagður hefur verið meðfram Álfabakka.

Erlendur segir ekkert í umhverfinu, svo sem skilti eða yfirborðsmerkingar, vera til staðar til að gera bílstjórum ljóst að þarna sé hjólastígur. Þetta skapi hættu neðst í götunni. Þar segir Erlendur að nýlega hafi næstum verið keyrt á sig.

Þar sem gatan endar beygja bílar yfir á hjólreiðastíginn til að komast inn á bílastæðið við Garðheima. Ökumönnum er ekki gerð nægileg grein fyrir því að þarna þurfi að passa sig. „Það er ekkert sem grípur athygli þeirra, enginn kantur, hraðahindrun, yfirborðsmerking eða skilti. Ef þú kemur þarna er næstum eins og þetta sé sveigja í götunni að bílastæðinu,“ segir hjólreiðaaðgerðasinninn.

Álfabakkinn verri en Borgartúnið

Nýlega var fjallað um í Morgunblaðinu að frágangi vegar að nýju húsnæði Garðheima væri ábótavant. Álfabakki var nýlega framlengdur til suðurs. Framkvæmdastjóri Garðheima lýsti þar yfir áhyggjum af því að þetta skapaði hættu fyrir þá sem ættu leið um götuna.

Þrátt fyrir að hafa beðið lengi eftir því að stígurinn verði tilbúinn segist Erlendur hafa áhyggjur af gerð slíkra stíga. Hann nefnir Borgartúnið máli sínu til stuðnings. Hann viti til þess að slys hafi orðið á hjólreiðastígum þar. Hann segist vona að borgin hafi lært af því. Í augnablikinu segir hann þó Álfabakkann vera verri en Borgartúnið. „Eins og þetta er er þetta hættulegt,“ segir Erlendur. En gatan og stígurinn voru opnuð áður en lokið var við framkvæmdir á svæðinu.

Í svari Reykjavíkurborgar við spurningum Morgunblaðsins um málið segir að búið sé að panta merkingar og málun á Álfabakka. Beðið sé eftir þurru veðri til að ráðast í verkið og ætti það að vinnast á næstu dögum.

Afrein af Reykjanesbraut

Erlendur gagnrýnir, líkt og forsvarsmenn Garðheima, afreinina sem liggur frá Reykjanesbraut yfir á Álfabakka. Hann segir mikla umferð vera þar um eftir að ný verslun fyrirtækisins var opnuð. Að hans sögn ríkir þar glundroði.

Áður var lítil umferð og einstefna á götunni. Nú er tvístefna og mikill umgangur að sögn Erlends. Hann segir marga bílstjóra sem koma af afreininni vera fasta í gömlum vana, þrátt fyrir að nú hafi verið sett þarna biðskylda. Fólk beygi eins og það er vant og passi sig ekki að líta til beggja hliða. Þá sé lítið pláss komi eitthvað upp á.

Erlendur segir ekkert vernda hjólastíginn ef árekstur yrði við afreinina og Álfabakka. Engin hindrun eða vegrið sé til staðar. „Bílar myndu fljúga yfir á hann,“ segir Erlendur.

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að borgin vinni að lausn í samstarfi við Vegagerðina. Borgin hefur lagt til að afreinin við Álfabakka verði lögð niður. Það sé talið best út frá öryggisþáttum. Niðurstaða liggur þó ekki enn fyrir um málið.

Erlendur nefnir einnig að göngustígur á svæðinu sé ekki tilbúinn nema að hluta til. Hann segir að mögulega sé ekki hægt að klára hann vegna malarhrúgu sem nú er við Árskóga. „Þetta er allt einhver kaos á svæðinu.“

Höf.: Ragnhildur Helgadóttir