Glæpasaga Gamlir tímar kallast, að sögn rýnis, á við líðandi stund í nýrri glæpasögu Arnaldar Indriðasonar.
Glæpasaga Gamlir tímar kallast, að sögn rýnis, á við líðandi stund í nýrri glæpasögu Arnaldar Indriðasonar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasaga Sæluríkið ★★★★½ Eftir Arnald Indriðason. Vaka-Helgafell 2023. Innb. 286 bls.

Bækur

Steinþór Guðbjartsson

Hefur nokkuð breyst? er lykilspurning í Sæluríkinu, nýjustu glæpasögu sagn-
fræðingsins og spennusagnahöfundarins Arnaldar Indriða-
sonar, þar sem hann tengir kalda
stríðið við illræði á Íslandi. Hand-
boltamenn, rússneskar Lödur,
íslensk sendinefnd, kjarnorkuvopnaáætlun Sovétríkjanna, íslenskir kommúnistar og athafnamenn koma meðal annars við sögu í bókinni, en frásögnin er margslungin og þræðirnir liggja víða.

Sæluríkið er sjötta sagan um Konráð lögreglumann. Hún gerist að mestu vorið 2019, en teygir anga sína mörg ár til baka. Tveir líkfundir á svipuðum tíma ýta við honum og þegar hann skynjar langsótta tengingu við óupplýst mannshvarf fær hann ekkert hamið. Hann grípur í hálmstráið, veltir við hverjum steini, en á sama tíma er honum einnig umhugað um að leysa mál sem tengist honum persónulega.

Konráð, sem er hálfáttræður og kominn á eftirlaun, hefur aldrei æft í líkamsræktarstöð og borðar ekki grænmetisrétti. Hann er í aðalhlutverki í Sæluríkinu, sífellt grúskandi í gömlum óleystum málum og ann sér ekki hvíldar fyrr en öll kurl eru komin til grafar.

Uppbygging sögunnar er úthugsuð. Konráð og Leó, fyrrverandi félagi hans í lögreglunni, hafa ýmislegt á samviskunni. Þeir hafa óhreint mjöl í pokahorninu og líður illa vegna alvarlegra brota sinna í starfi, en takast á við vandann með misjöfnum hætti. Konráð hefur bætt ráð sitt og fer sínu fram með sannleikann að leiðarljósi, leitar til dæmis logandi ljósi að ljósmyndum sem staðfesta fyrri glæpi, en Leó sér enga leið út úr vanda lyginnar og sogast hratt og örugglega niður í hyldýpið. Konráð skammast sín fyrir framkomu sína á árum áður, saknar góðu daganna og yljar sér við ljósmyndir frá fjölskylduferðum þeirra Leós frá þeim tíma þegar allt lék í lyndi, en Leó getur ekki horfst í augu við sannleikann, samviskan nagar hann engu að síður inn að beini og hann sér enga undankomuleið. Hróp hans um hjálp liðast samt í gegnum frásögnina, en hann vill enga aðstoð þegar á reynir.

Inn í raunir þeirra blandast vandamál eins og umferðaröngþveiti í Reykjavík og fjársvelti bráðamóttöku Landspítalans, spillingarverkefni stjórnmálamanna, eiturlyfjasala og peningaþvætti, nauðganir, barnaníð og önnur misnotkun, hótanir og kúgun, svik og prettir, yfirgangur og frekja, mannrán, morð og hefnd. En líka fyrirgefning og ást.

Sannleikurinn vefst svolítið fyrir mönnum og sumum er gjarnt að leita til lyginnar, sem er þó skammgóður vermir. Leó gerir upp mál við frændur sína og svolítil hraðsuða er á skiptum þeirra, en slíku er ekki fyrir að fara hjá Konráði, sem fer sér að engu óðslega. Hann bendir Mörtu á að James Bond komi ekki við sögu, en því er við að bæta að á stundum kemur Peter Falk í hlutverki Columbos upp í hugann.

Sem fyrr er textinn vel skrifaður og sumar mannlýsingarnar hreint afbragð. Lögreglumaður er „vambsíður með langa og loðna handleggi“ og fyrrverandi handboltamaður hefur skemmt líkamann með brölti sínu, er skakkur og skældur. Þeir hverfa ekki auðveldlega úr minni.

Töluvert hefur verið skrifað um íslenska kommúnista og tengsl þeirra við Sovétríkin og angi þeirra samskipta er ljóslifandi við lesturinn. Marta, einn yfirmaður í rannsóknarlögreglunni, á ekki von á að Rússar játi á sig glæpi á árum áður en Konráð vill halda öllu opnu í því efni og ályktar sem svo að kannski hafi eitthvað breyst eftir að kalda stríðinu lauk. Er því lokið? spyr Marta, en fær ekki svar.

Vakin er athygli á ógnarstjórninni í austri, sem fólk hefur búið við kynslóð eftir kynslóð, og ástæðan sögð vera afskiptaleysi eða rolugangur þegnanna. Að sama skapi er sagt frá uppgangi Íslendinga, sem hafa meðal annars efnast á viðskiptum með eiturlyf og ráðskast með yfirvöld. Ofbeldið á sér engin takmörk en „það er komið nóg“ eru lokaorð áhrifamanns í þessari glæpasögu, þar sem gamlir tímar kallast á við líðandi stund. Hefur eitthvað breyst?