Hópurinn Kátir hljóðfæraleikarar og söngvarar. Fremri röð frá vinstri: Halldóra Jóhannsdóttir, Unnur Guttormsdóttir, Hulda Emilsdóttir og Elíveig Kristinsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Hilda Kolbrún Guðjónsdóttir, Eygló Karlsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir og Ársæll Þórðarson.
Hópurinn Kátir hljóðfæraleikarar og söngvarar. Fremri röð frá vinstri: Halldóra Jóhannsdóttir, Unnur Guttormsdóttir, Hulda Emilsdóttir og Elíveig Kristinsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Hilda Kolbrún Guðjónsdóttir, Eygló Karlsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir og Ársæll Þórðarson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjálfsagt stunda ekki margir kennslu á tíræðisaldri en aldurinn vefst ekki fyrir Huldu Emilsdóttur. Hún varð 93 ára í ágúst síðastliðnum, hefur sungið og spilað sig í gegnum lífið og kennir öldruðum íbúum í Reykjavík á úkúlele í félagsstarfi eldri borgara á Aflagranda 40 á fimmtudagsmorgnum

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sjálfsagt stunda ekki margir kennslu á tíræðisaldri en aldurinn vefst ekki fyrir Huldu Emilsdóttur. Hún varð 93 ára í ágúst síðastliðnum, hefur sungið og spilað sig í gegnum lífið og kennir öldruðum íbúum í Reykjavík á úkúlele í félagsstarfi eldri borgara á Aflagranda 40 á fimmtudagsmorgnum. „Ég þarf svo sem ekki mikið að kenna, við komum nokkur saman, yfirleitt sex til átta, og spilum, en ég er til taks og leiðbeini, þegar á þarf að halda, fyrst og fremst nýliðum,“ segir hún.

Eins og gjarnan hefur komið fram í viðtölum við Huldu hefur hún sungið frá því hún var þriggja ára, byrjaði að læra á gítar þegar hún var 12 ára og skemmti víða á verslunarskólaárunum. „Við Teddý, Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir, vinkona mín, vorum eins og samlokur og sungum úti um allt land auk þess sem ég spilaði undir á gítar,“ áréttar hún.

Óperukór Þjóðleikhússins naut krafta Huldu, hún söng í revíum Haraldar Á. Sigurðssonar og inn á plötu með Sigurði Ólafssyni, en hlusta má á söng hennar á Spotify. Eftir að hún flutti með fyrsta eiginmanni sínum af þremur til Bandaríkjanna hélt hún uppteknum hætti í Vesturheimi, þar sem hún bjó í 54 ár, frá 1962 til 2016. „Ég var í tveimur óperukórum vestra og vann alltaf fyrir mér með söng og gítarspili í Ameríku.“

Allt og alt

Hulda þekkti fólk sem spilaði á úkúlele í Bandaríkjunum og ákvað að læra á hljóðfærið. „Úkúlele er miklu minna og meðfærilegra hljóðfæri en venjulegur gítar og ég þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að læra á það. Það eru bara fjórir strengir á úkúlele en sex á gítarnum.“

Skömmu eftir að hún flutti á Aflagrandann fór hún að kenna íbúum hússins á úkúlele og gerir enn. Hún segir að þau skiptist á að velja tíu til tólf lög, sem þau spili og syngi hverju sinni. „Ég var í þremur óperukórum og mér finnst klassísk músík skemmtilegust en ég syng allt – hafði svo góða altrödd. Það er svo gaman að syngja og ég held að það sé mjög hollt.“ Hún var í kór á Aflagranda en er hætt í honum. „Ég söng oft í miklum reyk og hann eyðilagði röddina. Drap mig samt ekki sem betur fer.“

Hulda styðst við göngugrind en er annars hress og fer í þjónustubíl til að kaupa í matinn. Oftast í Kringluna. „Ég get skoðað í búðum í Kringlunni ef ég þarf að bíða eftir bílnum,“ segir hún og bætir við að annars fari hún orðið ekki mikið annað. „Við spilum og syngjum í klukkutíma á fimmtudögum. Ég er einkennnilega hraust, borða rétt og anda rétt. Ég elda alltaf á hverju kvöldi fyrir mig nema mér sé boðið í mat og fæ mér lítið staup af bourbon-viskíi eða rommi á meðan ég elda. Ég held þessu áfram með söng og spili á meðan ég er á lífi.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson