Hið ljúfa líf
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Ég er afskaplega hrifinn af öllu sem er japanskt, enda virðist sama hvað Japanir taka sér fyrir hendur, þeir ná að leysa öll verk af hendi af meiri metnaði, ástríðu og vandvirkni en nokkur önnur þjóð.
Að því sögðu er rétt að ég játi að það tók mig tíma að átta mig á japanskri hugsun, japanskri skynsemi og japanskri fagurfræði. Það blasir ekki alltaf við hvers vegna Japanir gera hlutina með sínum hætti og kallar oft á að lesa sér til um japanska sögu og menningu, og helst mæta á staðinn og upplifa gangverk japansks þjóðfélags frá fyrstu hendi. Þegar loksins kviknar á perunni verður ekki aftur snúið.
Fyrr á árinu var Michelsen gert að einkasöluaðila Seiko á Íslandi og hef ég það fyrir satt að úrin frá Seiko njóti núna meiri vinsælda hjá landanum en nokkru sinni fyrr. Er því ekki úr vegi að nota tækifærið til að fræða lesendur um þennan merkilega japanska framleiðanda og sérstöðu japanskrar úrsmíði.
Íslenskum neytendum hættir nefnilega til að einblína á svissnesku merkin og láta sig dreyma um að eignast eins og einn veglegan Rolex eða Tag Heuer. Bestu japönsku úrin eru þó engu síðri en fyrir óinnvígða getur kannski virkað svolítið snúið að skilja hvað úrin frá Seiko ganga út á, og enn erfiðara að skilja hvernig eitt og sama fyrirtækið selur úr sem kosta allt frá nokkrum tugum þúsunda króna upp í marga tugi milljóna.
Fyrir hanastél og köfunarferðir
Fyrst af öllu er rétt að minna á að Seiko á sér langa sögu, en rætur fyrirtækisins ná allt aftur til ársins 1881 þegar ungur frumkvöðull, Kintaro Hattori, opnaði lítið úrsmíðaverkstæði og verslun í miðborg Tókýó. Er Seiko því eldra fyrirtæki en t.d. Breitling, Oris, Rado og meira að segja Rolex. Fyrsta klukkan frá Seiko kom á markað árið 1892, fyrsta vasaúrið 1895 og fyrsta armbandsúr fyrirtækisins árið 1913, og var það um leið fyrsta armbandsúrið sem framleitt var í Japan.
Í dag skiptast úrin frá Seiko í sex flokka, en því til viðbótar er merkið Grand Seiko sem framleiðir fimm ólíkar línur af úrum.
Í lægsta verðflokki lenda Conceptual-úrin, sem stundum eru kölluð Seiko Classic. Þessi úr þykja stílhrein og vönduð, kosta á Íslandi á bilinu 35.000-50.000 kr. og þykja hin bestu hversdagsúr. Þar fyrir ofan er Seiko 5-línan, en nafnið kemur til af fimm eiginleikum sem þessi úr hafa alla jafna til að bera: Þau eru sjálftrekkt, sterkbyggð, sýna mánaðar- og vikudag, hafa krónu sem er felld inn í úrið, og eru vatnsheld – jafnan niður að 100 m dýpi.
Þá kemur Presage, sem státar af flóknara gangverki og fleiri smáatriðum í hönnun, og þykja vera í sparilegri kantinum. Má þar benda sérstaklega á „Cocktail Time“-línuna sem sækir innblástur til næturlífsins í Tókýó þar sem barþjónar galdra fram hanastél af mikilli fimi. Prospex-úrin lenda á svipuðum stað og Presage, en eru svokölluð „fagmannaúr“, þ.e. sportleg og hönnuð með tiltekið notagildi í huga s.s. tímatökur og köfun. Seiko kynnti einmitt á dögunum tvö ný kafaraúr helguð Silfru á Þingvöllum, og tilheyra þau Prospex-línunni.
Nákvæmni með aðstoð gervihnatta
Þegar hér er komið sögu byrjar sérstaða Seiko á tæknisviðinu að koma betur í ljós, og ágætt að minna lesendur á að það var jú Seiko sem kynnti til sögunnar fyrsta kvarts-úrið, Astron, árið 1969. Kvarts-tæknin hristi rækilega upp í úrageiranum og fól í sér allt aðra nálgun við nákvæmni og endingu.
Astron-línan lifir enn góðu lífi, og einkennist af frumlegum tæknilegum lausnum. Nýjasta kynslóðin kom á markað árið 2012 og var fyrsta GPS-tengda úrið með sólarrafhlöðu. GPS-tengingin er þó ekki notuð til að fylgjast með ferðum eigandans eða veita honum aðhald í skokkinu, heldur tengist úrið tvisvar á dag við gervihnetti á braut um jörðu til að ganga úr skugga um að vísarnir sýni alltaf hárréttan tíma.
Málin flækjast örlítið þegar komið er í efsta flokk Seiko-úra en þar höfum við annars vegar King Seiko og hins vegar Grand Seiko.
Sagan segir að á 7. áratugnum hafi stjórnendum Seiko þótt tímabært að velgja svissnesku lúxusúrunum rækilega undir uggunum. Fyrirtækið fór þá leið að setja á laggirnar tvær deildir – King og Grand – og etja þeim saman. King Seiko-úrin eru ekkert slor, þykja stílhrein hágæðaúr og skarta ákaflega góðu gangverki, en það var Grand Seiko sem hafði vinninginn og er í dag rekið sem sjálfstætt merki, aðskilið frá öðrum Seiko-úrum, aðeins til sölu hjá völdum sérverslunum – og í allt öðrum verðflokki.
Grand Seiko fæst því miður ekki á Íslandi enn sem komið er, en vandaðri og fallegri úr eru vandfundin og blandar þetta merki saman framúrskarandi handverki og vísindalegri nálgun. Verður að benda sérstaklega á 9R-gangverkið sem er einstakt í heiminum og tvinnar saman kvarts-tækni og hefðbundna gangverkshönnun. Útkoman er ekki bara mikil nákvæmni heldur einstaklega mjúk hreyfing vísanna, svo að sekúnduvísirinn líður áfram í stað þess að tikka.