Á lista Skruddu yfir nýjar bækur leynast ljóðabækur, skáldverk og ýmis rit almenns efnis.
Í bókinni Fornbátar á Íslandi eftir Helga Mána Sigurðsson er skipa- og bátaarfi þjóðarinnar gerð skil á „mjög áhugaverðan og læsilegan hátt“, að sögn útgefanda. Fjallað er um 54 fleytur sem varðveist hafa og er þar aðeins um úrval að ræða. Gunnar Skarphéðinsson sendir frá sér sýnisbókina Dróttkvæði. „Ekkert safnrit með úrvali úr þessum kveðskap hefur verið til um býsna langt skeið þar sem almennum lesendum er greið leið að þeim fjársjóði máls og orðkynngi sem við vissulega eigum fólginn í þessum 12.000 ljóðlínum sem kvæðin spanna,“ segir útgefandi.
Á ekrum spekinnar nefnist ný bók eftir Stefán Snævarr. „Ég er bara óbreyttur verkamaður á ekrum spekinnar. Eða garðyrkjumaður í víngarði viskugyðjunnar, nema hvort tveggja sé. Samt reyni ég af veikum mætti að marka eigin heimspekistefnu en hana kynnti ég í bók minni The Poetic of Reason. Introducing Rational Poetic Experimentalism,“ segir höfundur í kynningartexta.
Guðmundur Pétursson sendir frá sér bókina Öll nema fjórtán – Sögur úr Vesturbænum og víðar. Þar leynast sögur úr æsku í Vesturbænum og í Mosfellssveit, um lífið í Meló, Hagó, Versló, sögur af fjölskyldunni á fullorðinsárum, frá vinnu á sjó og landi, sögur um pílu og golf, ferðalög og ævintýr, en fyrst um fremst um fótboltann, um KR, KSÍ og landsliðið.
Í spor Sigurðar Gunnarsson eftir Hjörleif Guttormsson er að stofni til ævisaga séra Sigurðar Gunnarssonar (1812-1878). Auk less að vera prestur, prófastur og jafnframt bóndi var Sigurður afar náttúrufróður, mikill ferðagarpur, frábær kennari, sjálfmenntaður læknir, ágætur smiður, rithöfundur og fréttaritari, sem oft skrifaði í samtímablöð.
Löngu horfin spor – Njósnari nasista á Íslandi? nefnist skáldsaga Guðjóns Jenssonar. Þar er fjallað um örlög ungs Þjóðverja, Carls Reichsteins, sem kom hingað til lands árið 1937 til að kenna Íslendingum svifflug. „Sagan byggist á umfangsmikum rannsóknum á lífi hans á Íslandi en hann lést á dularfullan hátt tæpu ári eftir komu sína til landsins.“ Ævintýri fyrir fullvaxna eftir Ingimund Gíslason er smásagnasagn með tuttugu stuttum sögum af ýmsu tagi. „Sumar sverja sig í ætt við ævintýri en aðrar má líta á sem minningabrot úr lífi höfundar.“ Finnur Torfi Hjörleifsson, íslenskufræðingur og lögfræðingur, ritar ljóðabókina Einræður. Bókin skiptist í þrjá hluta: Einræður við Guð, einræður við mýrar og menn og einræður um ellina. Í ljóðabókinni Limrur birtist safn limra eftir Þorstein Valdimarsson skáld (1918-1977) og hafa fæstar þeirra komið áður fyrir almenningssjónir.
Tvær þýðingar eru væntanlegar, Pons frændi og Kötturinn Keli eftir Honoré de Balzac í þýðingu Sigurjóns Björnssonar og Sherlock Holmes: Tákn fjórmenninganna eftir Arthur Conan Doyle sem er ætluð ungum lesendum. Steingrímur Steinþórsson þýðir.
ragnheidurb@mbl.is