Þetta kemur fram í máli Vilhjálms Birgissonar sem er gestur í nýjasta þætti Dagmála ásamt Herði Ægissyni, ritstjóra Innherja. Vilhjálmur hlaut nýverið endurnýjað umboð sem formaður Starfsgreinasambandsins, stærsta aðildarsambands ASÍ. Á þingi þess var samþykkt ályktun þess efnis að Landsbankanum skyldi breytt í samfélagsbanka sem hefði það að leiðarljósi að bæta lánakjör almennings í landinu.
Í samtalinu andmælir Hörður þessari hugmynd harðlega og segir að þarna sé á ferðinni ávísun á svipaðan óskapnað og spratt upp af starfsemi Íbúðalánasjóðs með tilheyrandi tjóni fyrir íslenskt þjóðfélag.
„Ef ríkið ætlar að samþykkja það að bankinn sé rekinn á miklu lægra arðsemismarkmiði en önnur fyrirtæki sem hann er í beinni samkeppni við […] þá er ljóst að þessir bankar myndu reka mál á hendur ríkinu, þetta væri ígildi ríkisaðstoðar og ríkinu yrði refsað fyrir það af eftirlitsstofnun EFTA,“ segir Hörður.
Vilhjálmur gefur lítið fyrir þessi viðvörunarorð Harðar og hvetur bankana einfaldlega til þess að fara í mál gegn stofnun sem muni tryggja landsmönnum betri lánakjör að hans sögn. Hann segir þó að vandi bankanna sé m.a. fólginn í regluverkinu sem þeir séu bundnir af. Það þrýsti upp arðsemiskröfum þeirra og þar með hagnaði.
„Það ræðst dálítið mikið af því að eigið fé bankanna er alltof hátt […] sem kallar á að þessi arðsemismarkmið verða hærri fyrir vikið og þessar tölur sem liggja að baki þeim verða miklu, miklu stærri.“
Þegar Vilhjálmur er spurður að því hver arðsemismarkmið bankanna skuli vera er hann ragur við að nefna ákveðnar tölur í því sambandi. Hann segir þó að hægt sé að draga verulega úr þeim og að eins þurfi að auka samkeppni milli bankanna svo um muni.
„Það er engin samkeppni á fjármálamarkaði. Það kemur fram í skýrslunni sem var að koma út. Þeir hækka algjörlega í takt og eru með gjöldin sín og vexti á alveg sambærilegum stað […].“
Hörður bendir á, þegar talið berst að vaxtamun hér á landi, í samanburði við banka erlendis, að skýrsluhöfundar hafi í raun ekki borið saman sambærilegar stofnanir. Horft hafi verið til smærri banka erlendis, sem ekki teljist kerfislega mikilvægir. Þeir beri ekki sömu byrðar og kerfislega mikilvægir bankar líkt og hinir íslensku teljast vera. Þannig hafi þær kvaðir sem settar eru á bankana hér á landi, auk sértækrar skattheimtu, haft sitt að segja um það hvernig þeir hafi þurft að haga rekstri sínum.