Miklar endurbætur standa nú yfir á þakhæð Sögu við Hagatorg í Reykjavík, sem menntavísindasvið Háskóla Íslands fær til afnota á næsta ári. Skjólhýsi hefur verið byggt yfir Grillið svonefnda á efstu hæðinni, en burðarvirki þess og klæðningar reyndust verr farin en ætlað var í fyrstu. Ætlunin er að í Grillinu verði í framtíðinni móttökusalur HÍ, en áður var þarna einn flottasti veitingastaður borgarinnar sem nú verður færður í sem upprunalegast horf.
Endurbótum á Sögu miðar vel og á næstu vikum lýkur viðgerðum á ytra byrði byggingarinnar. Eftir er þá að innrétta, bæta og breyta mörgu innanhúss í suðurbyggingu hússins, sem menntavísindasviðið fær til afnota að stærstum hluta. Á efstu hæðum verða skrifstofur starfsmanna og upplýsingatæknisvið og svo Grillið á toppnum. sbs@mbl.is