Mathús Garðabæjar er nú eina veitingahúsið í Garðabæ, að IKEA og nokkrum skyndibitastöðum undanskildum, eftir að veitingahúsið Sjáland við Arnarnesvog og veitingahúsið 212 bar og bistró (sem var opnað í Urriðaholtinu í febrúar á þessu ári) lögðu upp laupana á dögunum vegna rekstrarörðugleika.
Umræða um veitingastaði í Garðabæ hefur oft sprottið upp. Lengi vel var IKEA eini staðurinn í bænum þar sem Garðbæingar gátu keypt sér mat, bjór og léttvín og þótti mörgum miður að úrvalið væri ekki fjölskrúðugra.
Hysja upp um sig brækur
Forsvarsmenn Mathússins sem ViðskiptaMogginn ræddi við segja að til að veitingastaðir þrífist í bænum verði Garðbæingar að „hysja upp um sig brækurnar“ og fara að stunda matstaði í sinni heimabyggð svo rekstrargundvöllur skapist.
Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hefur rekstur Mathússins verið tryggður, a.m.k. í bili, það er ef Garðbæingar styðji sína heimabyggð, en veitingahúsið var upphaflega opnað árið 2016 við Garðatorg 4b.
Í byrjun stóðu veitingamennirnir Stefán Magnússon og Þorkell Garðarsson ásamt framreiðslumanninum Róberti Rafni Óðinssyni að Mathúsinu en í dag eru aðstandendur tíu og koma þeir flestir úr atvinnulífinu og/eða veitingageiranum. Allir eiga þeir jafnan hlut, eða 10% hver.
Heimildir ViðskiptaMoggans herma að hópnum sé umhugað um að áfram verði rekið gott veitingahús í bænum. Það sé meginhvatinn á bak við aðkomu þeirra.
Kvittur á kreik
Þegar Sjáland varð gjaldþrota á dögunum komst sá kvittur á kreik að Mathúsið væri tengt því en enginn fótur var fyrir því enda aðrir eigendur þar á bak við sem keyptu rekstur þess í nýju félagi í október 2022.
Samkvæmt heimildum blaðsins hyggst Mathúsið halda sínu striki og vera fjölskylduvænn staður.