Mist Þ. Grönvold
mist@mbl.is
Íslenski rithöfundurinn Rán Flygenring hlaut í gær barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndabókina Eldgos sem gefin var út á síðasta ári.
Barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 2013 og er Rán annar Íslendingurinn til þess að hljóta þau. Árið 2016 hlaut rithöfundurinn Arnar Már Arngrímsson sömu verðlaun fyrir skáldsöguna Sölvasaga unglings.
Fjörug og sprenghlægileg saga
Það kom í hlut norska rithöfundarins Maju Lunda að afhenda Rán verðlaunin við hátíðlega athöfn í óperu- og balletthúsinu í Ósló í gærkvöldi. Hlaut Rán bæði verðlaunagripinn Norðurljós og þrjú hundruð þúsund danskar krónur, eða tæpar sex milljónir íslenskra króna.
Í tilkynningu sem Norðurlandaráð sendi frá sér í gærkvöld er greint frá rökstuðningi dómnefndarinnar. Þar segir að Rán hafi tekist að skapa myndabók fulla af sjónrænum sprengikrafti um þau áhrif sem villt og óhamin náttúra hafi á fólk. Jafnframt fléttist mynd og texti listilega saman í fjöruga og sprenghlægilega sögu sundurleits hóps ferðamanna við gosstöðvar. Þá dragi Rán fram hvernig mótasagnakenndar tilfiningar vakni þegar jörð klofnar, hraun flæðir, ný fjöll verða til og þegar við stöndum frammi fyrir ýmiss konar hversdagsógnum. Þannig sé frásögnin þrungin spennu sem sprottin sé úr samspilinu sem eigi sér stað á milli hins ægistóra og hins agnarsmáa.
Átta íslenskar tilnefningar
Í rökstuðningi dómnefndarinnar er Rán einnig hrósað í hástert fyrir myndirnar sem bókin hefur að geyma. „Myndirnar í bókinni eru sneisafullar af forvitnilegum og fyndnum smáatriðum sem hrífa hinn unga lesanda með sér.“
Þá sé mikilvæg áminning fólgin í myndskreytingum Ránar. „Við hliðina á þessu marglita sjónarspili verða fölar manneskjurnar eins og áminning um að við erum öll, rétt eins og túristarnir, bara hér í heimsókn.“
Alls voru 54 verk, verkefni og listamenn tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs í ár. Þar af voru íslenskar tilnefningar til verðlaunanna átta talsins, en verðlaun eru veitt fyrir framlög til umhverfismála, bókmennta, barna- og unglingabókmennta, kvikmynda og tónlistar.
Ásamt myndabók Ránar var barnabókin Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur einnig tilnefnd til sömu verðlauna. Þá hlutu bækurnar Ljósgildran eftir Guðna Elísson og Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Í flokki kvikmynda hlaut íslenska kvikmyndin Á ferð með mömmu tilnefningu og í flokki tónlistar hlutu bæði Sigur Rós og Elfa Rún Kristinsdóttir tilnefningar. Loks var Rauði krossinn á Íslandi tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.