Nikulás Friðrik Magnússon fæddist í Reykjavík 13. október 1945. Hann lést á líknardeild Landspítalans Landakoti 19. október 2023.

Foreldrar hans voru Magnús Bergmann Pálsson, f. 19.11. 1912, d. 7.8. 1990, og Ragnheiður Þyri Nikulásdóttir, f. 4.8. 1917, d. 17.4. 2004. Systkini Nikulásar eru: Ragna Þyri, f. 1938, Svanhildur, f. 1941, d. 1975, Guðný Edda, f. 1943, eiginmaður hennar er Sigurður Rósant Pétursson, f. 1944, Anna Stefanía, f. 1960, eignmaður hennar er Björn Heimir Björnsson, f. 1954, og Stefán, f. 1963, d. 1989.

Eftirlifandi eiginkona Nikulásar er Svandís Hauksdóttir, f. 12.5. 1951. Börn þeirra eru: 1) Friðrik, f. 1974. Eiginkona hans er Steinunn Anna Í. Tómasdóttir, f. 1974. Börn þeirra eru Bjarki Freyr, f. 2000, Tinna Karen, f. 2003, og Stella Rut, f. 2007. 2) Dröfn, f. 1978. Barn hennar er Lúkas Elí Harðarson, f. 2001. Drífa, f. 1974, móðir hennar er Ragnheiður Skúladóttir, f. 1948. Eiginmaður Drífu er Ólafur Sigurgrímsson, f. 1962. Börn þeirra eru Gabríel Snær, f. 2004, Heiðar Magni, f. 2006, og Elísabet Mjöll, f. 2012. Fyrir átti Drífa soninn Ívar Birkisson, f. 1997. Eiginkona Ívars er Svala Guðmundsdóttir, f. 1994. Börn þeirra eru Birkir Hrafn, f. 2017, Fanney Ösp, f. 2018, og Una Mjöll, f. 2022.

Nikulás ólst upp á Bergþórugötu 14 fram til níu ára aldurs er hann flutti ásamt foreldrum sínum og systkinum í Skipholt 9. Þar bjó hann þangað til hann hóf sinn eigin búskap á Flókagötu ásamt Svandísi. Seinna fluttu þau á Háteigsveg þar sem þau bjuggu í 10 ár. Nikulás og Svandís reistu sér svo hús í Baughúsum 7 og bjuggu þar frá 1991 og voru meðal frumbyggja hverfisins.

Nikulás lauk sveinsprófi í glerslípun og speglagerð og síðar tækniteiknun frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann starfaði lengi hjá fyrirtæki föður síns við glerslípun og speglagerð og tók við rekstri þess um tíma. Síðar starfaði hann lengst af hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Á starfsævinni vann Nikulás oft sjálfstætt og tók að sér ýmis verkefni sem einkum tengdust hans hugðarefnum, hann starfaði meðal annars fyrir Landvernd og Skógræktarfélag Íslands.

Nikulási var mjög annt um náttúruna, var hann meðal annars virkur félagi í Landvernd og stundaði skógrækt og endurvinnslu langt á undan sínum samferðamönnum. Nikulás var listrænn, var í hljómsveit á yngri árum, málaði myndir, stundaði ljósmyndun, lék á harmónikku og orgel og söng í kirkjukórum, svo eitthvað sé nefnt.

Útför Nikulásar verður frá Grafarvogskirkju í dag, 1. nóvember 2023, klukkan 13.

Í dag kveð ég pabba minn. Yndislegan mann sem ég á svo ótal margt að þakka.

Um áramótin síðustu greindist pabbi með langtímahvítblæði og vorum við fjölskyldan bjartsýn á þeim tíma að þetta færi allt vel. Þegar leið á árið byrjaði pabbi að tala um að þrekið og krafturinn væri ekki sá sami og áður. Pabbi var ekki vanur að kveinka sér. Um miðjan ágúst var hann lagður inn á Landspítalann og fljótlega eftir það vorum við ekki eins bjartsýn og áður. Pabbi var síðan lagður inn á líknardeild stuttu fyrir andlátið og við vissum í hvað stefndi.

Pabbi hélt upp á 78 ára afmælið sitt nokkrum dögum áður en hann kvaddi. Eftirminnilegur dagur þar sem fjölskyldan kom saman á spítalanum, við fengum okkur kaffi og meðlæti sem pabbi hafði sjálfur valið. Hann sat með okkur og spjallaði í nokkurn tíma áður en þreytan sagði til sín og hann lagðist fyrir.

Það þykir ágætur aldur að ná hátt að áttræðu en í mínum huga var pabbi aldrei eins gamall og ártalið sagði til um. Hann var heilsuhraustur, hugsaði vel um sig, fór í langar gönguferðir, stundaði jóga, gekk reglulega upp á Úlfarsfellið sér til heilsubótar og hressingar allt fram á fyrri hluta þessa árs. Þörfin fyrir hreyfingu var enn til staðar undir það síðasta, hann gerði sínar daglegu teygjur á sjúkrabeðinum, liðugur var hann, sem vakti aðdáun hjá starfsfólki spítalans.

Pabbi var náttúruunnandi. Við systkinin fengum að kynnast landinu og náttúru þess þegar foreldrar okkar fóru með okkur í útilegur vítt og breitt um landið. Oftar en einu sinni var ekið hringinn um landið og tjaldað á fáförnum stöðum. Síðar endurtók ég hringferðirnar og útilegurnar með börnunum mínum.

Afi Nikki var góður afi, hann náði vel til barnabarna sinna og alltaf tók hann á móti þeim fagnandi þegar þau komu í heimsókn í Baughúsin, þar þótti þeim gott að koma sem og að fá afa í heimsókn. Afi Nikki var duglegur að fylgjast með barnabörnum sínum í leik og starfi og mæta á viðburði þeirra.

Pabbi var þúsundþjalasmiður og átti bæði til hagsýni og útsjónarsemi. Hann var einkar hjálpsamur maður og vildi allt fyrir mann gera. Við hjónin keyptum hús í Grafarvoginum tilbúið undir tréverk sem hann hjálpaði okkur að gera íbúðarhæft. Það vafðist fátt fyrir honum í þeim efnum, hvort sem það tengdist múrverki, smíðavinnu eða pípulögnum og alltaf var vandvirknin í fyrirrúmi. Við pabbi áttum margar góðir stundir saman, við tveir í einhverjum framkvæmdum á húsnæði eða öðru sem oftast voru verkefni á heimili okkar hjónanna sem enduðu alla jafna með ánægjulegu kaffispjalli. Þessar stundir urðu mér æ verðmætari og ánægjulegri á seinni árum enda snerust þær meira um samveru og félagsskap. Ég átti það til að hóa í hann mér til aðstoðar þó ég vissi að ég gæti sennilega komist fram úr verkefninu einn míns liðs en fannst gott að hafa hann nálægt.

Það hefur ríkt sorg og söknuður frá því pabbi kvaddi okkur. En lífið heldur áfram þó það verði aldrei eins og áður. Minning um einstakan mann mun lifa um ókomna tíð.

Friðrik Nikulásson.

Elsku pabbi minn.

Ég ólst ekki upp hjá þér en þú passaðir alltaf upp á að athuga með mig, hvernig mér liði, hringdir reglulega eða komst til mín í heimsókn, fann alltaf hvað þér þótti vænt um mig. Ég man eftir því þegar ég bjó í Hveragerði, þetta var sennilega árið 1994, þá komst þú óvænt í heimsókn á reiðhjólinu þínu frá Reykjavík, stoppaðir í smá stund hjá mér og svo hjólaðir þú aftur til baka, algjör snillingur. Þú tókst nú samt ekki upp á því að koma alla leið á Hellu á hjólinu.

Þú varst duglegur að koma við í heimsókn og stundum með frænku eða frænda með í för sem mér þótti mjög vænt um, yndislegt að fá að kynnast föðurfjölskyldunni betur. Myndavélinni klikkaðir þú aldrei á og þar skilurðu eftir mikið magn af góðum minningum. Mikill húmoristi varstu og alltaf stutt í brandarann og svo passaðir þú afskaplega vel upp á umhverfið.

Þú passaðir upp á þitt fólk og athugaðir alltaf hvernig öllum liði og hvað hver hefði fyrir stafni hverju sinni.

Ég man þegar ég átti afmæli, árið er 2010, þú komst til mín á Hellu og með hann Sæma frænda og auðvitað var harmonikkan tekin með, enda hafðir þú dálæti á að spila á hana. Sæmi með gítar, þú á nikkunni, og svo var afmælissöngurinn tekinn með pomp og prakt fyrir mig, hversu dásamlegt.

Fyrirvarinn á veikindum þínum var ekki mikill. Þú varst lagður inn á Landspítalann Hringbraut í ágúst síðastliðnum og var ég alveg viss um að þú kæmist nú aftur heim og svo var því miður ekki, í lok september varstu fluttur yfir á líknardeild landspítalans og lést þar fimmtudaginn 19. október umvafinn ástvinum. Ég vil þakka starfsfólkinu þar fyrir alveg einstaka umönnun og hlýju.

Elsku pabbi minn, ég á eftir að sakna þín mjög mikið en mun ylja mér á góðum minningum.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Drífa.

Elsku besti afi minn, þú varst svo góðhjartaður, blíður við alla og húmorinn alltaf til staðar, líka á síðasta spelinum. Hátíðirnar, jólin, áramótin, afmæli og öll matarboðin verða aldrei eins án þín. Þú varst alltaf svo hjálpsamur, hugmyndaríkur, hæfileikaríkur og handlaginn. Þú varst alltaf með svo skemmtilegar pælingar og brandara sem við krakkarnir gátum hlegið endalaust að. Ég mun aldrei gleyma hvernig þú spilaðir á harmonikuna, söngst í kórnum, teiknaðir og málaðir svo fallegar myndir, gerðir jóga, smíðaðir hvað sem er, spilaðir alltaf við okkur krakkana og mættir með myndavélina þína í alla hittinga. Þú hugsaðir svo vel um náttúruna og um sjálfan þig, en þú hugsaðir líka svo vel um aðra og baðst aldrei um neitt í staðinn. Þú varst alltaf til staðar og komst til hjálpar fyrir alla sama hvað. Elsku afi Nikki minn, það líður ekki dagur þar sem ég hugsa ekki til þín, ég sakna þín, þú fallega sál. Ég geymi knúsið okkar þangað til seinna.

Þín

Tinna Karen.

Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Nikulási, eða Nikka eins og við kölluðum hann jafnan, þegar við vorum öll ung að árum. Við viljum minnast vinar okkar og hugsum með þakklæti til hans hlýja viðmóts og góðu nærveru.

Nikki var fjölhæfur og einstaklega laghentur og var sama við hvað hann fékkst, allt var unnið af smekkvísi og virðingu fyrir verkefninu. Eins var hann mjög listhneigður og málaði einkar fallegar vatnslitamyndir og hélt myndlistarsýningar. Listrænir hæfileikar hans leyndu sér heldur ekki við ljósmyndun og vinnslu þeirra. Sama var með tónlist, hún lá vel fyrir honum hvort sem var að spila á harmonikku eða syngja með sinni hljómmiklu bassarödd, m.a. í Kór Óháða safnaðarins og allt fram á þetta ár var hann virkur í kór Víðistaðasóknar. Auk þessa var hann einn af stofnendum Karlakórs Kópavogs og söng með honum í mörg ár. Hann átti jeppa alla tíð og sá alltaf sjálfur um að halda sínum bíl í standi, þar sem bílaviðgerðir vöfðust ekki fyrir honum.

Nikki var mikill náttúruverndarsinni og var umhugað um umhverfi sitt, þá sérstaklega skógrækt, en hann kom sér upp skógarreit í Mýrdalnum þangað sem hann átti ættir að rekja. Einnig var hann virkur í „Opnum skógum“ og starfaði með Skógræktarfélagi Íslands og ferðaðist um allt land á þeirra vegum við að halda merkingum vegna aðgengis í lagi og kom þar sér vel hve handlaginn hann var.

Þegar hann og Svandís hófu sambúð varð hún strax ein af hópnum og margt hefur verið brallað í gegnum árin. Við héldum m.a. vináttunni við með þeim frábæra matar- og ferðaklúbbi „Tannstönglum“, ásamt tvennum öðrum hjónum. Við eigum öll minningar um góðar og skemmtilegar samverustundir, bæði heima og erlendis.

Þau Svandís bjuggu sér fallegt heimili í Grafarvoginum, þar sem hann m.a. tók þátt í félagsskap Korpuúlfa, en Nikki var löngu byrjaður að hirða upp eftir samborgara sína til að halda umhverfinu hreinu, áður en sá félagsskapur kom til.

Kær vinur og félagi er horfinn á braut og hans verður sárt saknað.

Við vottum elsku Svandísi og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Ljúfar minningar lifa.

Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást,

að hugir í gegnum dauðann sjást.

Vér kveðjum og höldum víðar,

en hittumst þó aftur – síðar.

(Jóhannes úr Kötlum)

Eygló og Magnús.

hinsta kveðja

Elsku afi.

Þú varst svo skemmtilegur, fyndinn og tókst alltaf vel á móti mér þegar ég kom í heimsókn. Ég mun alltaf hugsa um þig og elska þig að eilífu.

Þín afastelpa,

Elísabet Mjöll.