Svavar Svavarsson fæddist í Reykjavík 15. nóvember 1959. Hann lést í bústað sínum Skálm í Álftaveri 14. október 2023.

Móðir hans var Ingunn Ólafsdóttir, f. 1933, d. 1986, faðir hans var Svavar Árnason, f. 1934, d. 1982. Bræður hans eru: Árni, f. 1954, Ólafur Björn, f. 1956 og Gunnar, f. 1963.

Svavar giftist Stellu Á. Kristjánsdóttur árið 1981. Þau slitu samvistir árið 2017. Börn Svavars og Stellu eru: 1) Hákon, f. 1983. 2) Yrsa, f. 1990, í sambúð með Guðmundi Helgasyni, f. 1990, börn þeirra eru Nói, f. 2020 og Nanna, f. 2022. 3) Styrmir, f. 1992, í sambúð með Ester Ingu Sveinsdóttur, f. 1992, börn þeirra eru Lóa, f. 2021 og Rökkvi, f. 2022.

Svavar ólst upp hjá foreldrum sínum og bræðrum í Reykjavík til sjö ára aldurs, þá flutti fjölskyldan til Ólafsvíkur og bjó þar í tvö ár en flutti árið 1968 á Álfaskeið 96 í Hafnarfirði og síðan á Tjarnarbraut 15. Svavar flutti með foreldrum og Gunnari bróður sínum árið 1980 í Ásbúð 38 í Garðabæ. Eftir grunnskólanám hóf Svavar nám í skrifvélavirkjun í Iðnskólanum í Hafnarfirði en hætti fljótt í námi og fór að vinna í álverinu í Straumsvík. Svavar var á nítjánda ári þegar hann kynntist Stellu, þau stofnuðu heimili saman árið 1981 á Gunnarssundi 6 í Hafnarfirði, síðan fluttu þau á Mjósund 13 og þaðan á Sléttahraun 27 ásamt frumburði sínum Hákoni. Þau byggðu hús á Háabergi 25 og fluttu þangað árið 1992 ásamt þremur börnum sínum. Rúmlega tvítugur hóf hann störf hjá Iðnaðarbankanum, síðar Íslandsbanka og vann þar í 25 ár og sinnti störfum fyrir samtök bankastarfsmanna. Svavar hóf nám við Háskólann á Bifröst 1999 og flutti með fjölskyldu sína í Borgarfjörðinn og bjó þar í þrjú ár. Svavar útskrifaðist sem viðskiptafræðingur árið 2004. Eftir námsdvölina á Bifröst flutti Svavar aftur í Hafnarfjörðinn og bjó um stund á Strandgötu 79 en flutti árið 2006 á Suðurgötu 47 þar sem hann bjó til 2023. Hann var nýfluttur á Brekkugötu 9 þegar hann lést. Árið 2007 hóf hann störf hjá SMFR sem fjármálastjóri, frá 2011-2019 vann hann hjá Umboðsmanni skuldara. Síðustu ár starfaði hann sem smíðakennari við Hraunvallaskóla.

Svavar fékk snemma áhuga á stang- og skotveiði og stundaði hana af ástríðu enda var hann alinn upp við að fara á veiðar með föður sínum og bræðrum. Hann byggði sér bústað í Álftaveri með veiðiréttindum þar sem hann undi sér vel löngum stundum einn eða með fjölskyldu og vinum. Hann var náttúruunnandi og hafði gaman af að ganga á fjöll og vera úti í náttúrunni, einnig var hann í hlaupa-, hjóla- og fjallgönguhópum. Hann spilaði með knattspyrnufélagi Hauka og var í stjórn knattspyrnufélagsins um tíma. Hann var einn af stofnfélögum Kiwanisklúbbsins Hraunborgar, þar gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum, m.a. tvisvar forseti klúbbsins og sex sinnum umdæmisféhirðir, hann hlaut í þrígang heiðursfélagaviðurkenningu. Hann var í Sjóstangaveiðifélagi Reykjavíkur í 23 ár og sat um tíma í stjórn félagsins og sinnti ýmsum ábyrgðastörfum þar.

Svavar verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 1. nóvember 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi, ég á bágt með að trúa því að þú sért farinn. Hér sit ég og reyni að skrifa falleg orð til þín en á erfitt með að koma nokkru orði niður á blað. Það er þó ekki vegna þess að ég eigi ekki fallegar minningar um þig, þær eru óteljandi. Minningar frá því að ég var lítill gutti og fram að síðasta degi. Ennþá í hlutverki pabba míns en á síðustu árum hefur samband okkar þróast og við orðið meiri vinir og félagar með hverju árinu. Ég naut þess innilega að sinna sameiginlegum áhugamálum og syrgi sárt að samverustundirnar, matarboðin og veiði- og bústaðarferðirnar verði ekki fleiri. Við vorum rétt byrjaðir að leika okkur saman. Ég syrgi líka stundirnar sem börnin mín fara á mis við, þau hefðu viljað fá að hafa afa sinn lengur hjá sér. Lóa spyr reglulega hvar afi Svavar sé og ég svara henni að þú sitjir á skýjunum með veiðistöng í hendi og grallarabros. Ég minnist þín með grallarabros á vör, því það var stutt í spaugið og grallaraskapinn. Það gerði þig að svo frábærum félagsskap og það hefur aldrei verið skýrara en nú þar sem þú virðist hafa átt vini í öllum krókum og kimum landsins – og utan landsteinanna! Hvert sem ég fer virðist þú hafa átt vini. Þú varst svo félagslyndur og vinmargur. Elsku pabbi, þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar með svo notalega, þægilega og áreynslulausa nærveru. Það kom svo að góðum notum því þú áttir marga góða vini sem aðstoðuðu okkur fjölskylduna við að reisa paradísina okkar, veiðibústaðinn Skálm. Ég held enn fastar en nokkurn tímann áður í þær minningar sem við sköpuðum í þeim ótal ferðum sem við fórum austur og unnum saman í að reisa bústaðinn. Það var þó aldrei stutt í leik og pössuðum við okkur á hverjum degi að vinna ekki svo mikið að við gætum ekki aðeins hoppað út í tjörn og kastað flugu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og staðfastan vilja tókst mér samt aldrei að veiða meira en þú. Það var ekki tilgangurinn með veiðinni að vera keppni en það er nokkuð augljóst að ég tapaði alltaf, sama hvað ég reyndi. Ég get þó stært mig af því, og hef oft minnt þig á, að ég komst í tonnaraklúbbinn á sjóstönginni á undan þér þrátt fyrir að þú værir með margra ára forskot.

Elsku pabbi, áhrif þín eru augljós í mínu lífi, áhugamál mín koma nánast alfarið frá þér því þú varst svo duglegur að leyfa mér að njóta þeirra með þér. Þar ætla ég að taka þig sérstaklega til fyrirmyndar og vera duglegur að leyfa mínum börnum að vera virkir þátttakendur í mínum áhugamálum í þeirri von að ég geti átt sambærilegar gæðastundir með þeim eins og ég átti með þér alla mína tíð. Ég á bágt með að trúa að þær verða ekki fleiri. Þú skilur eftir stórt tómarúm í mínu lífi og ég mun sakna þín á hverjum degi og hugsa hlýtt til þín.

Ég hugsa um þig og ég sé

minningar sem elska ég

og sama hvert ég mun fara veit ég

að þú vakir yfir mér

þú vakir yfir mér

(Sverrir Bergmann)

Elsku pabbi, ég elska þig.

Þinn sonur,

Styrmir Svavarsson.

Elsku pabbi, fregnirnar af fráfalli þínu eru mér óyfirstíganlegar, mér finnst óbærilegt að hugsa til þess að þú verðir ekki með okkur á Suðurgötunni dagsdaglega eins og vaninn var eða að þú hringir í mig þrisvar sinnum á dag til að heyra í mér. Við vorum nánast límd saman öllum stundum, sem er dýrmætt fyrir mig í dag í ljósi aðstæðna. Það er mikil gæfa að hafa átt yndislegan pabba eins og þig, þú varst alltaf tilbúinn að rétta okkur systkinunum hjálparhönd. Við fengum heldur betur að njóta góðs af þinni einstöku gjafmildi, góðvild og ljúfmennsku. Þú sinntir fjölskyldunni þinni mjög vel, varst okkur góð fyrirmynd, stundaðir áhugamál þín, varst vinur vina þinna og komst fram við alla af virðingu og fékkst það klárlega endurgoldið enda vinmargur. Þú varst alltaf með eitthvað fyrir stafni, s.s. að hjóla í vinnuna, klífa fjöll, veiða, fara á skytterí, á sjóstangaveiðimót, fundastörf, daglegar pottaferðir eða fara í bíó í góðra vina hópi. Við erum framkvæmdaglöð fjölskylda og þegar einu verkefninu lauk þá var alltaf eitthvert annað verkefni sem beið framtaksamra handa og þú lést ekki þitt eftir liggja. Þú varst fyndinn og gast verið stríðinn enda hafðir þú einstaklega gaman af að ná fólki upp og þá sérstaklega mömmu eða ömmu þegar þær bitu á agnið og blikkaðir fólk til að fá það til að leika með þér í þessu spaugi þínu. Við fluttum á Suðurgötuna árið 2006, þar bjuggum við til fjölmargar minningar. Ellefu árum síðar, þegar leiðir ykkar mömmu skilur og til tals kemur hver myndi vilja kaupa húsið af þér, pabbi, þá stökk ég til. Mér þykir dýrmætt að hafa fengið að njóta þess að búa aftur með þér ásamt maka í um sex ár og á þeim tíma bættust börnin mín tvö í hópinn okkar. Það var einstaklega auðvelt að búa með þér, því þú bjóst yfir mjög þægilegri nærveru og varst góður hlustandi og veittir góð ráð. Við gerðum oft grín að því að þú værir eins og unglingurinn á heimilinu, því þú áttir þér öflugt félagslíf og varst því ekki alltaf heima við. Æðislegur afi, það sem þér þótti skemmtilegt var að gleðja börnin með risastórum gjöfum og hitta í mark. Sárast finnst mér hvað börnin mín missa æðislegan afa allt of snemma. Ég á margar minningar af þér í eldhúsinu, þú varst afbragðskokkur, þér þótti gaman að elda hátíðarmat. Við fjölskyldan héldum vikuleg matarboð, þar sem við skiptumst á að elda og bjóða heim. Þann 12. október síðastliðinn þá bauðst þú, pabbi, heim til þín á Brekkugötuna í dýrindis paellu, betri paellu höfðum við ekki smakkað og lofuðum við matinn hjá þér í hástert. Krakkarnir dönsuðu og léku sér á meðan gengið var frá og þú varst spenntur að fara með vinum þínum í veiðiferð daginn eftir. Öll vorum við grunlaus um að þetta yrði okkar síðasta matarboð saman. Lífið verður aldrei eins án þín, sú hugsun að þú vakir yfir okkur yljar mér um hjartarætur. Þú varst tekinn alltof fljótt frá okkur, sárast er að þurfa að kveðja þig elsku besti pabbi minn.

Þín dóttir,

Yrsa.

Hvernig segir maður bless við föður sinn sem maður er alls ekki tilbúinn að kveðja? Hvernig segir maður bless við mann sem fór alltof snemma? Hvernig segir maður bless við mann sem maður mun alltaf sakna?

Mér er sérstaklega minnisstætt um pabba hvað hann stóð alltaf vel með sínum, og þá sérstaklega hve vel hann stóð hann við á bakið á okkur systkinunum og lagði sig allan fram við að styðja okkur til góðra verka. Það skiptir eiginlega ekki máli hvað það var sem við systkinin báðum hann að aðstoða okkur við, hann gerði það alltaf með glöðu geði. Hann fór alltaf fullshugar inn í þau verkefni sem hann tók sér fyrir hendur hverju sinni. Ég leit upp til hans hve góður hann var í að vingast við alla sem hann hitti og hve vel honum samdi við fólk. Hann eignaðist auðveldlega marga vini og kunningja enda með einstaklega góða nærveru. Hann var fyrir alla.

Í gegnum tíðina höfum við pabbi alltaf átt gott samband og hann stóð alltaf eins og klettur á bak við mig. Eftir að pabbi kláraði skólagöngu sína á Bifröst bjuggum við feðgarnir tveir saman á nokkrum stöðum í bænum þegar mamma og systkini mín bjuggu á Skagaströnd og á Kirkjubæjarklaustri. Það fór alltaf vel á með okkur pabba, við vorum um stutta stund í Vesturbæ Reykjavíkur og í Dofrabergi í Hafnarfirði, síðan á Strandgötu og að lokum á Suðurgötunni í Hafnarfirði þar sem öll fjölskyldan sameinaðist að nýju. Alltaf þegar ég kom í heimsókn frá Noregi til Íslands deildum við pabbi herbergi á Suðurgötu hjá litlu systur og áttum margar gæðastundir saman á Íslandi. Pabbi kom einnig oft í heimsókn til mín til Noregs þar sem ég bjó og við ferðuðumst saman þvert um Noreg.

Pabbi átti sér draum um að eignast veiðiland þar sem hann gæti veitt fisk, farið á skytterí, gengið um óspillta náttúru, hlustað á dýrahljóðin og notið kyrrðarinnar enda var hann mikill náttúruunnandi. Hann lét verða af þessum draumi og festi kaup á landareign í Álftaverinu í félagi við aðra menn. Þar reisti hann fallegan veiðibústað með aðstoð fjölskyldu og vina sem hann nefndi Skálm. Þar eyddum við mörgum stundum saman við veiðar eða sátum í heita pottinum að horfa á norðurljósin og fegurð Mýrdals- og Vatnajökuls þar sem útsýnið á engan sinn líka.

Fráfall þitt er stórt skarð í fjölskyldunni sem verður erfitt að fylla en ljós þitt og vináttan sem þú sýndir okkur og vinum þínum mun lifa í okkur öllum ávallt. Takk fyrir að vera stoð mín og stytta í lífinu, ég mun sakna þín sárt elsku pabbi.

Þinn besti vinur og sonur,

Hákon Svavarsson.

Það var mikil sorgarfregn að heyra af andláti þínu, að þú hefðir kvatt þennan heim alltof snemma og svo skyndilega, við vorum öll slegin af sorg sem þekktum þig. Þú sem áttir eftir að gera svo margt og varst rétt að byrja á þriðja æviskeiðinu, nýfluttur af Suðurgötunni í íbúðina þína á Brekkugötunni og ennþá síungur og svo virkur í veiðimennsku, í félagsstarfi og bara í daglegu lífi með fjölskyldu þinni og vinum. Þér var svo sannarlega kippt frá okkur sem elskuðum þig án nokkurs fyrirvara. Þú varst tiltölulega nýorðinn fjórfaldur afi, yngsta barnið innan við eins árs og elsta þriggja ára, þú áttir eftir að eiga svo margar ánægjustundir með þeim og sjá þau vaxa og dafna.

Við kynntumst fyrir 45 árum og áttum margar ánægjustundir saman og studdum hvort annað í blíðu og stríðu. Þú varst mjög stoltur af fjölskyldu þinni og sinntir henni af alúð og er ég þér innilega þakklát fyrir það. Við ferðuðumst víða um landið og þá oftar en ekki að þínu frumkvæði, þú hafðir svo gaman af að vera í bústöðum og njóta sveitasælunnar og fjölskyldan naut góðs af framtakssemi þinni. Við fórum í hjólaferðir saman bæði innanlands og utanlands. Við slitum samvistum fyrir sex árum, þá urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að vera alltaf í góðu sambandi hvort við annað, nánast í hverri viku. Þú bauðst mér meira að segja stundum að koma með þér í gamla matarklúbbinn okkar. Þegar mig vantaði ferðafélaga þá slóst þú til og við áttum góðar stundir í New York. Mig langar að þakka þér fyrir að vera góður lífsförunautur og vinur. Ég lýk kveðju minni til þín með þessum línum eftir Bjarna Jónsson frá Gröf.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

Þín fyrrverandi eiginkona,

Stella.

Svavar er farinn í sumarlandið. Ég á ennþá bágt með að trúa þessu. Trúa því að líf fjölskyldunnar hafi breyst á einu augnabliki. Líf okkar er sannanlega fátækara. Þú skilur eftir þig stórt skarð sem aldrei verður fyllt. Eftir standa minningarnar. Ég syrgi hvað mest að börnin mín verði ekki þess heiðurs aðnjótandi að eiga fleiri samverustundir með þér og skapa minningar. Þau fara á mis við mikið elsku afi Svavar. Ég heiti því að halda minningu þinni á lífi, þá einna helst með því að leyfa börnunum mínum að dvelja í ævintýraperlunni þinni á Skálm. Þvílíkt ríkidæmi sem þér tókst að reisa fyrir austan. Með elju og ástríðu tókst þér að byggja annað heimili þar sem við getum öll minnst þín með hlýju og gleði í hjarta. Elsku tengdapabbi, hvíldu í friði.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

[…]

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

Ástarkveðja,

Ester Inga Sveinsdóttir.

Svavar minn, tengdafaðir, afi, vinur og veiðifélagi.

Það er þyngra en tárum taki að skrifa um þig, vitandi að maður fái aldrei aftur að njóta nærveru þinnar, sjarma og hlýleika.

Þrátt fyrir að þú hafir verið tengdapabbi minn þá upplifði ég þig alltaf meira sem vin, svona allavega eftir 5-6 ára skilorðstímabil.

Ég á eftir að sakna þess að labba niður stigann á morgnana og sjá þig sitjandi við eldhúsborðið að fá þér gríska jógúrt með rjóma og bláberjum og lauma nokkrum stykkjum í börnin.

Ég á eftir að sakna þess að sjá flugur hverfa af hnýtingaborðinu mínu og enda fyrir töfra á stofuborðinu í Skálmarbæ.

Ég á eftir að sakna þess að fara með þér að veiða og veiða alltaf minna en þú.

Ég á eftir að sakna þess að hlusta á þig rökfæra fyrir mér að bjór passi fínt inn í ketó-mataræðið.

Ég á eftir að sakna þess að vera minntur á að slökkva á vatnsinntakinu út í garð fyrir veturinn.

Ég á eftir að sakna þess að fá blikk frá þér þegar þú varst að æsa upp Dísu, Stellu eða Yrsu í matarboðum og maður fékk að vera með þér í liði.

Ég á eftir að sakna alls konar hluta, en einna helst þess dagsdaglega, þess hversdagslega og þess síendurtekna.

Ég á eftir sakna þín kæri vinur, sambúðarinnar, innlitanna, hlátursins, bílferðanna, veiðiferðanna, matarboðanna, rólegheitanna og góðu stundanna.

Ég mun leggja mig allan fram við að eiga jafn gott samband við mín börn og tengdabörn eins og þú áttir við þín.

Þú varst að öllu leyti yndislegur. Hvíldu í friði Svavar minn.

Guðmundur (Gummi).

Það er raunastund að skrifa minningarorð um Svavar mág minn og vin, sem féll frá svo snögglega og óvænt að ástvinir eru í áfalli.

Við Svavar áttum samleið í lífinu frá unglingsárum, fyrst í gegnum fótboltann. Ég man þegar meistaraflokkur Hauka fagnaði sigri með góðu partíi og Stella systir birtist þar mér til mikillar furðu en þá voru þau Svavar farin að stinga saman nefjum. Við bundumst fjölskylduböndum ung, vorum fótbolta-, hlaupa- og hjóla- og vinnufélagar. Við dönsuðum tangó saman og svo margt annað á næstum hálfrar aldar samleið okkar.

Svavar missti foreldra sína ungur að árum. Ingunn móðir hans bað mömmu um að líta til með stráknum sínum þegar vitað var hvert stefndi. Mamma tók það hlutverk sitt alvarlega, sem og það að Hákon, Yrsa og Styrmir ættu bara eina ömmu. Svavar tókst á við sorg og mótlæti af hugrekki og kjarki með smá karlahörku og gálgahúmor. Hann var talsmaður þess að karlar nytu sama réttar og konur um skimun fyrir krabbameini langt á undan bláa naglanum og mottumars, en þá fyrir daufum eyrum. Það var frumkvöðull í honum og hann var tilbúinn til að fara óhefðbundnar leiðir í leik og starfi.

Hann leitaði stundum til mín þegar á móti blés og hann liðsinnti mér og mínum á ýmsan máta. Við vorum góðir vinnufélagar á Svæðisskrifstofunni þar sem hann starfaði sem fjármálastjóri um nokkurra ára skeið. Það reyndi á okkur að skera niður alla opinbera þjónustu í kjölfar bankahrunsins og það var í eina skiptið sem sló í brýnu milli okkar Svavars.

Svavar var alltaf til í allt, fjölskyldumaður fram í fingurgóma og matgæðingur mikill. Veiði og villibráð átti hug hans og sást það sannarlega þegar hann hélt upp á sextugsafmæli sitt með pomp og prakt, svo stoltur af villibráðinni sem hann bauð upp á og hafði sjálfur veitt að hluta.

Hann talaði um að njóta komandi ára, hann ætti nóg af öllu og stefndi á að hætta að vinna 65 ára, sagði enga ástæðu til að safna peningum, það ætti að njóta þeirra. Því miður varð honum ekki að ósk sinni.

Elsku fjölskylda, missir ykkar er mikill. Stella, Hákon, Yrsa, Styrmir, Gummi, Ester Inga, Nói, Lóa, Nanna og Rökkvi, megi allar góðar vættir styrkja ykkur í sorginni. Bræðrum Svavars, fjölskyldum þeirra, Suðurgötu-stórfjölskyldunni og vinum Svavars sendi ég samúðarkveðjur.

Sigríður (Sigga mágkona).

Það er með mikilli sorg og söknuði sem við kveðjum í dag vin okkar og veiðifélaga, Svavar Svavarsson.

Þær eru ófáar veiðiferðirnar sem við fórum í. Svavar var límið í hópnum, hann var drífandi og ákveðinn og kom alltaf með nýjar hugmyndir um hvert skyldi halda í næstu ferð. Hann var mikill keppnismaður, það kom ekkert annað til greina en að hann væri með stærstu og flesta fiskana. Vinátta okkar takmarkaðist ekki bara við veiðiferðir, það var farið í sund í hverri viku, göngutúra, á kaffihús, í bíóferðir og kótelettukvöldin voru einnig ófá.

Svavar byggði sér sumarbústað fyrir austan í Álftaveri sem hann nefndi Skálm. Þetta var hans annað heimili og er algjör paradís með ám og vötnum sem við félagarnir veiddum oft í. Náttúrufegurðin þar er mikil og landslagið fallegt, að ógleymdum Mýrdalsjökli sem skartar sínu fegursta.

Elsku vinur, við kveðjum að sinni, hugur okkar er hjá börnum þínum og fjölskyldu.

Guðmundur Örn Jónsson, Örn Snævar Ólafsson.

Kær vinur og félagi, Svavar Svavarsson, er látinn langt fyrir aldur fram 64 ára. Hann varð bráðkvaddur í sumarbústað sínum, þar sem hann var ásamt félögum í veiði. Ég kynntist Svavari í gegnum Kiwanisstarfið og að öðrum ólöstuðum var hann einn öflugasti félagi Kiwanisklúbbsins Hraunborgar en hann gekk í klúbbinn á fyrsta starfsári, hann hefur gegnt fjölda embætta sem forseti tvisvar, 1997-98 og 2018-19 auk þess að vera féhirðir til margra ára, einnig ritari klúbbsins, umdæmisféhirðir sex sinnum og var búinn að lofa að taka að sér að vera umdæmisféhirðir næsta starfsár. Eins og sést var Svavar eftirsóttur til ábyrgðarstarfa innan Kiwanishreyfingarinnar. Svavar var ósérhlífinn í öllu sem sneri að starfi Hraunborgar og tvisvar fékk hann afreksbikar Hraunborgar fyrir frábært starf. Við Hraunborgarfélagar söknum sárt okkar góða vinar og félaga og þökkum fyrir vináttuna en margs er að minnast í starfi og leik í áratugi, m.a. í ferðum bæði innanlands og erlendis og stóð hann fremstur í að finna leiðir til að fjármagna og gera allt auðveldara fyrir félagana og maka. Söknuður er sár en sárastur hjá fjölskyldu Svavars, hugur okkar er hjá fjölskyldu hans, ættingjum og vinum. Það er sárt að sakna en ljúft að minnast og minningar um Svavar eru bjartar. Kiwanisklúbburinn Hraunborg mun styrkja Einstök börn í nafni Svavars en K-dagur er á næsta ári og mun styrkja „Einstök börn“ og Svavar var búinn að samþykkja að vera í nefndinni og að sjálfsögðu að halda utan um fjármálin.

Fjölskyldu Svavars, ættingjum og vinum vottum við Hraunborgarfélagar og makar okkar dýpstu samúð. Svavar, hafðu þökk fyrir allt og allt. Minning um góðan vin og félaga lifir.

F.h. Kiwanisklúbbsins Hraunborgar,

Gylfi
Ingvarsson.

Svavar Svavarsson var Kiwanisfélagi í 37 ár. Hann var aðeins 27 ára gamall þegar hann gekk til liðs við Kiwanisklúbbinn Hraunborg í Hafnarfirði árið 1986.

Við fráfall Svavars hefur Kiwanisumdæmið Ísland – Færeyjar misst góðan félaga og embættismann. Hann var traustur og áreiðanlegur og skilaði starfi sínu vel fyrir klúbbinn sinn og umdæmið. Hann var svæðisstjóri starfsárið 2015 til 2016 og var sá Kiwanisfélagi sem oftast hefur gegnt embætti umdæmisféhirðis, fyrst starfsárið 2007 til 2008 og svo aftur samfleytt starfsárin 2018 til 2022. Hann var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd ef þörf var á.

það er gott að eiga minningar um góðan dreng og tryggan vin sem verður sárt saknað, við kveðjum hann með þakklæti í huga og færum um leið Hraunborgarfélögum, fjölskyldu og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Kiwanisumdæmisins Ísland – Færeyjar,

Björn Bergmann Kristinsson.

Mig setur hljóðan. Kær vinur hefur kvatt. Laugardaginn 14. október sl. lést góður skólafélagi og vinur minn, Svavar Svavarsson. Leiðir okkar lágu saman haustið 1999 í Viðskiptaháskólanum Bifröst í Borgarfirði. Við náðum strax góðri tengingu ásamt Kristni Jónssyni vini okkar og héldum upp frá því sterkri vináttu, þríeykið við.

Svavar var sá sem hafði yfirleitt frumkvæði að samverustundum okkar þriggja eftir Bifrastarárin og þakka ég það.

Það krafðist áræðis og þrautseigju að setjast á skólabekk eftir langt hlé, og það áttum við sameiginlegt. Svavari tókst það einstaklega vel að tileinka sér nýjar aðferðir og vinna með ungu fólki en það er styrkleiki hugmyndastefnu skólans að nýta reynslu þeirra eldri og nýjungar þeirra yngri. Svavar vinur okkar fór meira að segja alla leið í félagslífinu eitt árið, þegar hann landaði titlinum Herra Bifröst.

Á Bifrastarárunum eignaðist hann hlut í jörðinni Skálm í Álftaveri þar sem hann síðar byggði sér sitt annað heimili og undi sér vel. Hann var beinskeyttur og heiðarlegur maður og gott að umgangast hann. Hann naut samskipta fjölskyldu sinnar og vina. Svavar gaf mikið af sér í samskiptum okkar og er það dýrmæt minning. Fjölskylda hans skipaði ávallt stóran sess í lífi hans. Ég sendi fjölskyldu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Guðmundur H. Valtýsson.

Í desember 1990 fluttum við fjölskyldan á Suðurgötu og kynntumst brátt indælum nágrönnum, Dísu og Kristjáni. Og hvílíkt undur, þá strax rakst ég á Stellu dóttur þeirra fyrir utan húsið en við vorum bekkjarsystkin úr Kennó. Og svo Svavar maðurinn hennar, snillingurinn sá. Strax góður vinur okkar og það hélst alla tíð. Margt kemur í hugann er maður minnist Svavars, hægt er að segja að betri nágranna en hann og fjölskylduna var ekki hægt að hugsa sér. Hann var hjálplegur, skemmtilegur, hugaður og duglegur. Hann var mikill félagsmálamaður og var þá oft í ábyrgðarstöðum í sínum félögum, formaður, gjaldkeri, endurskoðandi reikninga o.s.frv. Ég get nefnt félög eins og SJÓR (Sjóstangveiðifélag Reykjavíkur), Kiwanis o.fl.

Svavar var alltaf driffjöðrin í því sem gerðist hér á Torfunni og átti hugmyndirnar. Um tíma fórum við talsvert að hjóla og þá var hann „primus motor“ til Herdísarvíkur er Eyjafjallajökulsgosið stóð sem hæst og við lentum í kolsvörtum gosmekkinum. Seinna hjólað héðan frá Hafnarfirði til Keflavíkur og þá auðvitað kíkt í kaffi til vinafólks vestast í bænum og svo til baka. Hjólað fyrir Hvalfjörð og þá kom í ljós að göngin voru lokuð og umferðin því mikil en við höfðum reiknað með rólegri sveitaferð. Ég hjólaði svo út á Skaga og tók strætó í bæinn en Svavar upp í Borgarfjörð til Ragnars og Úllu og svo áleiðis norður á Akureyri daginn eftir. Bláalóns-hjólamótið.

Nokkrar sumarferðir fórum við saman fólkið á Torfunni eins og við kölluðum okkur fjölskyldurnar í nágrenninu. Besta ferðin var er við fórum fjórar fjölskyldur Fjallabak nyrðri, Eldgjá og upp á Sveinstind og á heimleið rennt við í Skálm. Seinna fórum við svo í Þórsmörk, upp á Morinsheiði er Eyjafjallajökull gaus 2010 og í annað skipti yfir Fimmvörðuháls.

Frábærar ferðir fórum við Svavar svo saman með sonum okkar Styrmi og Olgeiri í sjóstangveiðina, mót á Grundarfirði, Ólafsvík og Akureyri.

Vertu kærast kvaddur kæri vinur. Elsku fjölskylda, Stella, börn og tengdabörn, innilegar samúðarkveðjur.

Valdimar, Jóhanna og fjölskylda.

Látinn er góður vinur og samstarfsfélagi innan Kiwanishreyfingarinnar til margra ára. Svavar varð bráðkvaddur langt um aldur fram, í Skálm í Álftaveri, en þar líkaði honum lífið vel og dvaldi þar við öll tækifæri við veiðar og uppbyggingu á húsi sínu og nærumhverfi. Svavar var mikill útivistarmaður og afrekaði það m.a. að hjóla umhverfis landið ásamt því að fara á fjöll og stunda alls kyns veiðar. Svavar var viðskiptafræðingur að mennt og vann störf tengd þeirri menntun en seinni ár tók hann að sér smíðakennslu í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði og ekki leiddist honum að vera innan um börnin og fólk almennt enda mikill öðlingur og félagsvera.

Svavar var mikill kiwanismaður og var öflugur í starfi í sínum klúbbnum Hraunborg í Hafnarfirði og það kom oft fram í máli hans hversu stoltur hann var af sínum klúbbi og félögum, sem misst hafa mikið við fráfall Svavars. Kiwanisfjölskyldan hefur einnig misst mikið þar sem Svavar var öflugur í starfi hjá kiwanisumdæminu Ísland – Færeyjar sem hann léði krafta sína í mörg ár. Þegar ég tók að mér starf umdæmisstjóra starfsárið 2019-2020 fékk ég Svavar til liðs við mig sem umdæmisféhirði, en hann hafði stýrt fjármálum umdæmisins áður og samtals gegndi hann embætti féhirðis fjögur starfsár, frá 2018 til 2022, og einnig var Svavar svæðisstjóri Ægissvæðis 2015-2016. Svavar gegndi þessum embætti af mikilli samviskusemi og alúð. Við Svavar fórum nokkrar embættisferðir saman og þar af eina til Prag. Var alltaf gaman að hafa hann sér við hlið með sinn sérstaka og skemmtilega húmor og gamansemin alltaf í hávegum höfð, en það tók mann smá tíma að ná húmornum þar sem honum stökk stundum ekki bros, og gat verið grafalvarlegur í fasi þegar hann var að gera að gamni sínu.

Þar sem ég bý í Vestmannaeyjum vorum við félagarnir oft í símasambandi og oftar en ekki þegar hann hafði dvalið í Skálm og var á vesturleið heim í Hafnarfjörðinn þá hringdi hann í mig við Markarfljótsbrú og sagði með sínum skemmtilega rómi: „Hæ, sérðu mig ekki, ég er að veifa þér!“ Svo hló hann og við tókum létt spjall. Elsku vinur, nú kveðjumst við í bili en tökum upp þráðinn aftur í sumarlandinu. Fjölskyldu Svavars sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og megi Guð styrkja ykkur í sorginni en minning um góðan föður og vin lifir.

Tómas Sveinsson.

Ég kveð Svavar vin minn og fjallafélaga með miklum trega. Hann var hrifsaður á braut á miðjum aldri í blóma lífsins. Eftir standa aðeins minningarnar um frábærar fjallgöngur, veiðiferðir og útiveru. Ég var gestur Svavars eina helgi í bústað hans í Álftaveri þar sem við gengum um lendurnar í nágrenninu, horfðum á fuglana í hreiðrum og silungana í lækjum. Þetta var hans óskaland, enda var Svavar mikill veiðimaður sem naut gnægðarinnar af fugli og fiski. Við gengum einn daginn á Lómagnúp í þoku og svolítilli rigningu. Við náðum alveg fram á fremsta klettinn sem var hulinn niðaþoku. Við heyrðum hljóðið í bílunum á veginum fyrir neðan en sáum þá ekki. Um kvöldið gistum við í tjaldi í Skaftafelli og gengum næsta dag á Kristínartinda. Ég komst ekki alla leið upp, því miður, en Svavar náði á toppinn ásamt félögum okkar. Ég minnist einnig að við gengum saman á Kistufell hjá Grundarfirði. Við vorum sammála um að sú ganga hefði reynst auðveldari en hún leit út fyrir, séð frá Grundarfirðinum, en hún var í alla staði ógleymanleg.

Ég minnist þessara atburða til að leggja áherslu á að við þessi tímamót er best að minnast þess góða sem gerst hefur í lífinu. Ég kveð þennan góða dreng sem tekinn var frá okkur langt um aldur fram. Ég votta fjölskyldu hans samúð mína og virðingu.

Björn Matthíasson.