Aðalbjörg Vilhjálmsdóttir (Abba) fæddist 14. maí 1948. Hún lést 15. október 2023.
Útför hennar fór fram 23. október 2023.
Mín kæra vinkona Aðalbjörg, oftast kölluð Abba í Grímsá, hefur nú kvatt þennan heim eftir löng og erfið veikindi.
Ég kynntist Öbbu ekki fyrr en upp úr 1980 þegar menn okkar fóru að starfa saman í Grímsárvirkjun á vegum Rarik. Það tókst fljótt með okkur góður vinskapur sem leiddi til margra góðra stunda bæði með heimsóknum og ferðalögum með fjölskyldur okkar. Fyrsta ferð okkar með fjölskyldurnar erlendis var til Danmerkur árið 1984, þar skemmtum við okkur vel, hlógum mikið og fórum í Tivoli og Lególand með börnin. Einnig voru ýmsir staðir skoðaðir sem komu spánskt fyrir sjónir okkar óreynda sveitafólksins þess tíma. Þá er ógleymanleg verslunarferð okkar til Glasgow, þar sem mikið var mátað og keypt af fötum enda kannski ekki mikið að fá í Kaupfélaginu.
Ekki gleymi ég því hvað hún Hafdís dóttir mín hreifst mikið af Öbbu og dætrum hennar og þótti gott að fá að koma í Grímsá í pössun eða fara í heimsókn. Þar var dekrað og leikið við hana allan tímann og vildi hún helst ekki fara heim.
Eitt sinn hafði hún tekið almanak hjá Öbbu og var að skoða hvenær hún ætti að fara heim sagðist þá ekki vilja fara: „Ég ætla að vera hér allt dagatalið“ svo vel líkaði henni vistin. Milli Öbbu og Hafdísar var alltaf sterkur strengur og góð vinátta.
Abba var einkar jarðbundin manneskja, traustur vinur, sönn og heiðarleg með gott skopskyn og alltaf stutt í hláturinn. Hún var mikil hannyrðakona, heklaði, prjónaði og saumaði fallega handavinnu sem hún gaf vinum sínum og kunningjum.
Abba var mikið náttúrubarn, naut þess að fara í góða göngutúra, ganga á fjöll og liggja í móanum á haustin tínandi ber og sveppi. Hún var sönn húsmóðir af gamla skólanum, vildi alltaf gera allt sjálf heima með sína svuntu, baka, sjóða og sulta.
Það var góður tími hjá Öbbu þegar hún fór að vinna aftur eftir að dæturnar voru flognar úr hreiðrinu. Þá fór hún að vinna í eldhúsinu í grunnskólanum á Hallormsstað og naut þar samverunnar við starfsfólkið og nemendur og hafði einkar gaman af því, enda var hún mikil félagsvera.
Eftir veruna í Grímsá keyptu Abba og Snorri sér hús á Egilsstöðum og bjuggu sér þar mjög fallegt heimili. Hún var svo sæl og glöð með nýja heimilið og þar átti að eyða efri árunum. En örlögin tóku í taumana og veikindi dundu yfir svo þau nutu verunnar ekki lengi þar.
Efst í huga mínum er mikið þakklæti fyrir góðar stundir og glaðværar í gegnum tíðina.
Elsku Erla, Ingibjörg og fjölskylda, missir ykkar er mikill. Abba var rík að eiga ykkur að á þessum erfiðu tímum hennar. Guð styrki ykkur öll.
Blessuð sé minning elsku Öbbu.
Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
(Hjálmar Freysteinsson)
Anna Heiður.