Sigurður Már Jónsson skrifar pistil á mbl.is um vandræði Íslands í útlendingamálum, sem hann segir í ólestri. Hann tekur dæmi sem er í eðli sínu viðkvæmt, ítrekuð viðleitni fatlaðs manns frá Írak og systra hans til að fá að setjast hér að. Eins og Sigurður bendir á hefur fólkinu tvívegis verið synjað um alþjóðlega vernd og Alþingi hafnaði umsókn þeirra um ríkisborgararétt fyrr á árinu. Fólkið hefur þegar verið flutt einu sinni úr landi í lögreglufylgd og nú stefnir í að slík ferðalög gætu orðið fleiri.
Mikið er í húfi fyrir þá sem sækja um að fá að setjast að hér á landi, eins og Sigurður bendir á, en um leið verður að hafa í huga að gríðarlegur fjöldi annarra er í sömu stöðu. Hann nefnir að hugsanlega séu tvær leiðir út úr vandanum; annars vegar að loka landamærunum „fyrir öðrum en þeim sem eiga erindi og vegabréf og geta unnið fyrir sér. Það er margt sem styður það, Ísland er í raun fullt þegar kemur að flóttamönnum og hælisleitendum. Í það minnsta um sinn.“
Hinn kosturinn sé að „hafa bara landamæri opin“. Þá fái þeir sem komi enga aðstoð velferðarkerfisins, en eins og Sigurður bendir réttilega á gengur sá kostur ekki upp. Hann segir kostnað af ástandinu í þessum málaflokki líklega nærri 40 milljörðum á ári. Augljóst er að þetta gengur ekki til lengdar. Þó að Íslendingar hafi vitaskuld samúð með útlendingum í vanda, þá blasir við að of langt hefur verið gengið.