Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Sprengjum rigndi látlaust yfir Gasasvæðið í gær og í flóttamannabúðunum í Jabalía í norðurhluta Gasa létust tugir Palestínumanna í árásunum. Vein heyrðust þegar sjálfboðaliðar reyndu að komast í gegnum steypuklumpana í örvæntingarfullri leit að fólki og líkum, en á myndbandsupptökum AFP-fréttastofunnar má sjá að a.m.k. 47 lík fundust í gær.
Ísraelsher staðfesti í gær árásirnar og sagði að lykilforingi Hamas-hryðjuverkasamtakanna, Ibrahim Biari, hefði verið skotmarkið og hann hefði látist í árásunum. Í annarri árás á Vesturbakkanum í gær var heimili næstæðsta leiðtoga Hamas, Saleh al-Aruri, jafnað við jörðu í þorpinu Arura skammt frá borginni Ramallah.
Árásirnar koma í kjölfar vaxandi viðvarana hjálparsamtaka og Sameinuðu þjóðanna um stigversnandi blóðbað og mannúðarkrísuna á svæðinu, þar sem milljónir Palestínubúa hafa ekki aðgengi að brýnustu nauðsynjum á svæðinu. „Gasa er grafreitur þúsunda barna og er lifandi helvíti fyrir alla aðra,“ sagði í yfirlýsingu UNICEF, sem hvetur til vopnahlés af mannúðarástæðum.
Heilbrigðisráðuneytið á Gasa, undir stjórn Hamas, sagði fyrir árásirnar í gær á flóttamannabúðirnar að 8.525 manns væru látnir og þar af yfir 3.500 börn í átökunum. Á mánudag sagði forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, að ákall um vopnahlé jafngilti því að Ísrael legði upp laupana gegn hryðjuverkasamtökum Hamas og það væri ekki að fara að gerast. Ísrael ætlaði að eyðileggja Hamas og frelsa gíslana í haldi þeirra.
Jafnvel styrkustu bandamenn Ísraels hafa lýst yfir áhyggjum af mannúðarvandanum og stofnun Sameinuðu þjóðanna um palestínska flóttamenn, UNRWA, sagði að ekki væri nærri nóg af hjálpargögnum til að mæta yfirþyrmandi þörf á svæðinu. „Þegar átta ára barn segir manni að það vilji ekki deyja fallast manni hendur,“ sagði Martin Griffiths, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum. Við landamæri Gasa og Egyptalands hafa 36 vörubílar beðið leyfis að fara inn á Gasa frá því á mánudag, en Ísraelar segjast verða að tryggja að engin vopn berist til Hamas þessa leið.
Egyptar búa sig nú undir að taka á móti særðum Palestínumönnum frá Gasasvæðinu um Rafah-landamærastöðina til aðhlynningar, að sögn lækna og öryggissveita, og er búist við að læknateymi verði komin í dag til að skoða sjúklinga.
Hamas-hryðjuverkasamtökin tilkynntu í gær að nokkrum erlendum gíslum yrði sleppt á næstu dögum. Talið er að um 240 gíslar séu í haldi samtakanna, en fjórum hefur verið sleppt til þessa og hefur Ísraelsher frelsað einn. Natalie Raanan sem var sleppt á dögunum, ásamt móður sinni, kom heim til Chicago í Bandaríkjunum í gær en móðir hennar varð eftir í Ísrael.