Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson hefur verið útnefndur í lið 10. umferðar ítölsku A-deildarinnar fyrir frábæra frammistöðu sína í 1:0-sigri Genoa á Salernitana á föstudagskvöld. Albert skoraði sigurmarkið eftir laglegan sprett á 35. mínútu og sá þannig til þess að Genoa vann sinn þriðja sigur í deildinni á tímabilinu. Alls er Albert búinn að skora fjögur mörk í tíu deildarleikjum til þessa á tímabilinu.
Danski varnarmaðurinn Kennie Chopart hefur yfirgefið herbúðir KR, en samningur hans við félagið rann út eftir síðustu leiktíð og verður ekki framlengdur. Chopart kom til KR frá Fjölni árið 2016 og var fyrirliði liðsins á nýliðnu tímabili. Hann hefur nánast leikið samfleytt á Íslandi frá árinu 2012, en hann hefur einnig leikið með Stjörnunni og Fjölni. Chopart, sem er 33 ára, hefur leikið 216 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað í þeim 36 mörk.
Erla Ágústsdóttir varð um helgina Norðurlandameistari í +87 kg flokki í ólympískum lyftingum. Hún lyfti 93 kg í snörun og 113 kg í jafnhendingu, samanlagt 206 kg sem er nýtt Íslandsmet í samanlögðu í U23. Friðný Fjóla Jónsdóttir og Brynjar Logi Halldórsson unnu til silfurverðlauna í sínum flokkum á mótinu.
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Vinícius Júnior, ein af stjörnum spænska stórveldisins Real Madrid, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið. Nýi samningurinn gildir til sumarsins 2027 og í honum er að finna ákvæði sem gerir áhugasömum félögum kleift að festa kaup á Vinícius fyrir einn milljarð evra.
Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, gæti hafið leik að nýju með Evrópumeisturum Magdeburgar fyrr en áður var talið. Gísli Þorgeir gekkst undir skurðaðgerð á öxl í sumar eftir að hafa farið úr axlarlið í leik með Magdeburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu en samt spilað úrslitaleikinn degi síðar. „Endurhæfingin hefur gengið samkvæmt áætlun. Ég er bjartsýnn á að geta farið að spila fyrr en upphaflega var áætlað,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við staðarblaðið Magdeburger Volksstimme.