Lögfræði
Arnar Vilhjálmur Arnarsson
Lögmaður og eigandi Bótamál.is.
Þann 5. október sl. úrskurðaði áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema í máli nr. 4/2023 sem laut að ágreiningi milli nemanda við HÍ og Háskólaráðs um skrásetningargjald vegna skólaársins 2021/2022. Taldi nemandinn skrásetningargjaldið sem honum hafði verið gert að greiða til að sækja nám við skólann vera ólögmætt. Hafði Háskólaráð byggt skrásetningargjaldið þegar það var innheimt á raunkostnaði háskólans að baki skrásetningargjaldi fyrir árið 2015, en Háskólaráð hafði ekki hlutast til um að afla upplýsinga um kostnað skólans vegna skólaársins 2021/2022 sérstaklega. Vegna kröfu nemandans reiknaði fjármálastjóri HÍ skrásetningargjaldið aftur, út frá meðaltali af heildarsamtölu kostnaðarliða að baki skrásetningargjaldinu. Þeir útreikningar sýndu að kostnaður sem að mati skólans gat heyrt undir skrásetningargjöld til að standa undir veittri þjónustu vegna skólaársins 2021/2022 var nokkru hærra en skrásetningargjaldið sem nemandanum var gert að greiða. Taldi Háskólaráð því ekki forsendur til að fallast á kröfur nemandans um endurgreiðslu. Þá ákvörðun kærði nemandinn til áfrýjunarnefndarinnar sem komst að þeirri niðurstöðu að tilteknir kostnaðarliðir að baki skrásetningargjaldinu væru ólögmætir.
Um skrásetningargjöld HÍ
HÍ hefur heimild samkvæmt lögum til að afla sér tekna til viðbótar við framlög á fjárlögum með skrásetningargjöldum sem nemendur greiða við skráningu í nám, allt að 75.000 krónur fyrir hvern nemanda. Samkvæmt sama ákvæði mega slík gjöld ekki skila háskólum hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki teljist til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi. Sú regla er í samræmi við meginreglur um álagningu opinberra þjónustugjalda, sem eru gjöld sem ætlað er að standa undir kostnaði hins opinbera, að hluta eða í heild, við að veita tiltekna sérgreinda þjónustu. Þjónustugjöld hins opinbera verða ávallt að byggja á viðhlítandi grundvelli sem sýnir með nægilega skýrum hætti hvaða kostnaðarliðir falli undir gjaldtökuna og hver fjárhæð þeirra er. Fjárhæð þjónustugjalds verður þannig að byggja á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Í því felst ekki að hver og einn eigi rétt á að fá nákvæman útreikning á kostnaði við að fá þjónustu veitta í sínu einstaka tilfelli, heldur er heimilt að haga gjaldtöku þannig að hún feli í sér meðaltalsgjald. Ef ekki er hægt að sérgreina kostnaðarliði nákvæmlega er hægt að byggja á nægilega rökstuddri kostnaðaráætlun. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var sú að HÍ hefði ekki sinnt þeirri skyldu að tryggja að tilteknir kostnaðarliðir að baki skrásetningargjaldinu styddust fullnægjandi útreikningum eða kostnaðaráætlun og þar af leiðandi hefðu þeir verið ólögmætir.
Hvaða þýðingu hefur úrskurðurinn?
Telja verður ólíklegt að raunkostnaður HÍ að baki skrásetningargjaldinu hafi lækkað frá árinu 2015 eða að uppfærð kostnaðaráætlun, hefði hún verið unnin með tilskildum hætti, hefði leitt í ljós lægri kostnað einstakra kostnaðarliða heldur en lagt var á vegna skólaársins 2021/2022. Sú fjárhæð sem nemendum HÍ var gert að greiða svaraði til áðurnefndrar hámarksfjárhæðar skrásetningargjalda opinberra háskóla, sem nemendur við HÍ hafa greitt síðan 2014. Það er þó ekkert sjálfsagt að slíkt hámark verði ávallt óbreytt í lögum eða yfirhöfuð lögfest og því má ekki gleyma mikilvægi þess, í þessu samhengi sem öðru, að borgarar sýni stjórnvöldum eðlilegt aðhald í álagningu þjónustugjalda til að sporna gegn hættu á handahófskenndri og óhóflegri gjaldtöku.
Hvort nokkrar eða þá hversu miklar fjárhagslegar afleiðingar niðurstaðan kann að hafa fyrir HÍ eða ríkissjóð til skamms tíma litið er óráðið. En fram á veginn horft hefur úrskurðurinn að mati undirritaðs takmarkað gildi. Því eftir sem áður stendur óbreytt heimild opinberra háskóla til að innheimta skrásetningargjöld frá nemendum. Úrskurðinn felur hins vegar í sér heilbrigt eftirlit með álagningu opinberra þjónustugjalda og ítrekar mikilvægi þess að innheimta þeirra sé ávallt vönduð og skýr.