2024 Dregið verður úr ívilnunum.
2024 Dregið verður úr ívilnunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fyrirhugaðar breytingar á ívilnunum vegna kaupa á rafbílum munu hafa í för með sér að þær munu aðeins eiga við bíla sem eru nýskráðir hér á landi. Þetta kemur fram í bréfi lögmanns bílainnflytjanda en þar segir meðal annars að með breytingunum sé…

Geir Áslaugarson

Baldur Arnarson

Fyrirhugaðar breytingar á ívilnunum vegna kaupa á rafbílum munu hafa í för með sér að þær munu aðeins eiga við bíla sem eru nýskráðir hér á landi.

Þetta kemur fram í bréfi lögmanns bílainnflytjanda en þar segir meðal annars að með breytingunum sé gert upp á milli stærri bílaumboða og smærri söluaðila á markaðinum.

„Þróun innan Evrópusambandsins og annarra EES-landa hefur undanfarna áratugi verið að sjálfstæðir bílasalar og innflytjendur hafa veitt hefðbundnum bílaumboðum aukna samkeppni … Þær reglur sem taka gildi við áramótin takmarka styrki sem sækja má um úr Orkusjóði vegna kaupa á rafmagnsbílum við „óskráða nýja rafbíla“. Verði slíkt ákvæði leitt í lög á Íslandi myndi það undanskilja alla rafbíla aðra en þá sem fluttir eru inn af bílaumboðum sjálfum,“ segir í bréfi lögmannsins.

Segir þar að nærri helmingur markaðarins með rafbíla sé nú í höndum sjálfstæðra innflytjenda og bílasala.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gerir líka athugasemdir við boðaðar breytingar á ívilnunum vegna rafbíla.

Ekki bara umhverfissjónarmið

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), gerir ráð fyrir að minni ívilnanir vegna rafbíla muni draga úr eftirspurn.

„Margir munu velta því fyrir sér hvort það borgi sig að kaupa rafbíl miðað við þeirra akstursþörf og notkun. Það eru ekki allir drifnir áfram af umhverfissjónarmiðum við kaup á rafbíl. Þetta er stór útgjaldaliður þannig að fólk þarf að huga að ýmsu öðru.“

Samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum verður „óheimilt að meginreglu að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030“. Rafvæða á bílaflotann.

Höf.: Geir Áslaugarson