Það er ekki að undra, þótt margir um víða veröld hafi miklar áhyggjur af atburðunum sem um þessar mundir yfirgnæfa allar fréttir og öllum þeim óhugnaði sem þær lýsa. Ýmsir vilja þess vegna hafa einhver áhrif á rás atburða og þá helst undir fána eða með samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Aðalritari þeirra samtaka hafði þó hlaupið á sig í þessu máli og ekki gætt sín, og þar með ýtt sér úr því að hafa einhver áhrif, eins og staða hans gæti að jafnaði haft. En staðreyndin er auðvitað sú, að óvarlegt er að halla sér skyndilega að öðrum málsaðilanum og ekki síst þegar sá hóf leikinn, öllum að óvörum, með sérstaklega ógeðfelldum hætti.
Þjóðarleiðtogum sem hafa litla sem enga aðkomu að þessum miklu atburðum eða nokkur raunveruleg tök til að leggja mat á þróun þeirra hættir til að detta í hvern pyttinn af öðrum, þótt þeim gangi aðeins gott til með afskiptasemi sinni. Til samanburðar er fróðlegt að sjá hvernig reynsluboltinn Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, metur slíkan málatilbúnað. Hillary Clinton lét hafa þetta eftir sér í blaðaviðtali: „Það fólk, sem krefst vopnahlés, sýnir að það hefur lítinn skilning á því, hvers konar fyrirbæri Hamas-samtökin eru. Fyrrnefndar kröfur eru í raun óhugsandi.“
Og Clinton bætti við: „Slík ákvörðun væri bein gjöf til Hamas-samtakanna. Þau gætu nýtt sér vopnahléstímann rækilega í sína þágu til að byggja upp vopnabúnað sinn, skapa sér sterkari stöðu hernaðarlega og það gæti hugsanlega gefið þeim mun sterkari stöðu til að standa af sér hernaðaraðgerðir Ísraelshers.“
Ísraelsher er kominn inn í 4. viku sinna aðgerða gagnvart Hamas-hreyfingunni, eftir að henni tókst svo sannarlega að koma landinu á óvart með árásum sínum 7. október, með því að skjóta þúsundum flauga á íbúðahverfi og slátra óbreyttum borgurum. Varasamt er að verðlauna þessa hreyfingu með því að taka undir kröfu hennar um vopnahlé í þeirri styrjöld sem hún sjálf stofnaði til, án þess að hafa þekkingu á því hvað í þeirri kröfu felst.