„Stemningin er allt önnur núna, samanborið við leikinn úti í Þýskalandi. Ég held að við getum alveg gengið stoltar frá þessum tveimur verkefnum og úrslitin í báðum leikjunum ráðast í raun á einhverjum smáatriðum sem féllu ekki með okkur að þessu sinni.
Við erum að spila við frábær lið og við verðum að nýta þau færi sem við fáum gegn þessum andstæðingum,“ sagði fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn. Ísland lék mun betur í gær en í fyrri leiknum í Bochum, þar sem Þýskaland hafði töluverða yfirburði og vann 4:0. Þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson tók í sama streng.
„Ég er mjög sáttur við margt í spilamennsku liðsins. Við vorum hugrökk á boltanum og unnum mun fleiri návígi heldur en í leiknum í Bochum. Þegar þú vinnur návígin þá eru möguleikarnir meiri í sókninni. Við þorðum líka að halda í boltann. Þetta var miklu miklu miklu betra en leikurinn í Bochum,“ sagði hann.
„Það var mikið svekkelsi að tapa þessum leik enda alltaf pirrandi að tapa. Það er hellingur sem við getum tekið með okkur úr þessum leik og hellingur líka sem við gerðum mun betur í kvöld en í leiknum úti. Við sýndum það líka að við getum gefið þessum bestu liðum heims alvöruleik,“ sagði miðjukonan Selma Sól Magnúsdóttir.
Nánar er rætt við þjálfarann og fleiri leikmenn á mbl.is/sport.