Guðrún Vigdís Sverrisdóttir fæddist 21. september 1948. Hún lést 15. október 2023. Útför fór fram í kyrrþey.
Elsku mamma, ég bjóst við því að ég hefði lengri tíma með þér. Ætli það sé ekki alltaf þannig? En það breytir því samt ekki að þetta er gríðarlega ósanngjarnt, og ég sakna þín meira en orð fá lýst. Ekki eingöngu fyrir mína hönd, heldur allra þeirra sem líf þitt snerti. Við Tara erum einstaklega þakklát fyrir þær góður stundir sem við áttum bæði erlendis og hérlendis með þér og pabba og ungunum okkar, sem eru nú fimm talsins og loksins er stelpan mín komin, hún Vigdís Pála. Hún er skírð í höfuðið á þér og tengdamömmu.
Ég hafði einstaklega gaman af því hvað þú og Trausti Egill náðuð vel saman og hefur hann haft á orði margoft hvað hann sé ánægður með hvað amma hans skilji hann vel. Þrír elstu muna vel allar þær stundir sem við áttum og verður til þess séð að þau tvö yngri fái að kynnast þér í gegnum minningar okkar hvort sem þær eru geymdar á myndböndum, myndum eða öðrum miðlum. Í þér átti ég alveg einstaklega góðan vin. Stundum varstu að mér fannst ósanngjörn, man ég þá sérstaklega eftir því þegar Rammstein komu til Íslands 2001, og héldu tónleikar fyrir fullri Laugardalshöll tvö kvöld í röð. Ég tilkynnti þér hátíðlega að ég kæmist ekki á sjóinn þann túrinn vegna þessa. Þú horfðir á mig, með svona svip sem maður sá ekki oft, en þessi svipur þýddi að það var ekki til neins að malda í móinn við þig. „Ég vona það innilega, Aðalsteinn Egill, að þú verðir ekki fyrir meiru mótlæti í lífinu en þetta.“ Hvernig svarar maður þessu? Ég fór á sjóinn og kjökraði talsvert þá daga sem þeir spiluðu en náði mér að lokum, rétt fyrir giftingu. Þetta var frábær lexía, mamma, enda þykir mér alveg einstaklega vænt um hana og hvað hún stendur fyrir. Þær minningar sem streyma inn í hugann eru góðar og sem betur fer lítið um annað.
Við rifjuðum upp reglulega nokkrar minningar, eins og þegar ég gleypti krónu, þú ekki með bílpróf og því leigubíll pantaður. Ég var ægilega spenntur, enda vissi ég það að leigubíll er yfirleitt pantaður þegar fólk fer á ball. Þegar við vorum komin af stað í bílnum, hallaði ég mér að þér og spurði: „Mamma, erum við að fara á ball?“ Stuttu síðar sendir þú Kristján bróður að sækja mig í mat, en ég var svo heppinn að eiga FisherPrice-bíl sem ég rúntaði á fram og aftur Vallagerðið. Síðasta sem þú sagðir við Kristján að alls ekki setja mig á bögglaberann. Auðvitað setti ég löppina í og fékk að launum gifs á hana, og greyið Kristján var skammaður í bak og fyrir.
Gjafmildari manneskju en þig, mamma, þekki ég ekki og eflaust leitun að slíkri. Þú varst og ert ómissandi, falleg að utan sem innan, réttlætiskompásinn þinn var alltaf vel stilltur. Þér þótti einstaklega vænt um börnin mín og öll barnabörnin, það mátti heyra og sjá þegar þú talaðir um þau. Ég er alveg viss um að þegar þú skildir við voru Egill bróðir, Sverrir afi og Áslaug amma ásamt Agli afa og Guðrúnu ömmu klár á hinum endanum til að taka á móti þér. Þegar þú skildir við áttum við systkinin ásamt pabba gríðarlega magnaða stund og mun hún lifa í huga okkar alla tíð. Lífið er erfitt og þitt og pabba ennþá erfiðara, því miður. En nú ertu komin til Egils bróður eftir langan aðskilnað. Ósanngjarnt með öllu. Takk mamma fyrir að vera minn besti vinur og minn helsti aðdáandi. Þú lifir að eilífu í hjarta okkar fjölskyldu og allra þeirra sem þig þekktu.
Hvíl í friði, mamma. Með hlýhug og hjartans þakklæti.
Aðalsteinn Egill Traustason.