„Vonandi sjá tilboðsgjafar að svæðið verður ekki byggt upp á einni nóttu og eru til í að taka áhættu,“ segir Pálmi um þær áskoranir sem hátt vaxtastig hefur skapað við uppbyggingu flugvallarsvæðisins.
„Vonandi sjá tilboðsgjafar að svæðið verður ekki byggt upp á einni nóttu og eru til í að taka áhættu,“ segir Pálmi um þær áskoranir sem hátt vaxtastig hefur skapað við uppbyggingu flugvallarsvæðisins. — Morgunblaðið/Hákon
Mikill metnaður hefur einkennt starf Kadeco þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og unnið að því að skapa blómlegt atvinnulíf og íbúabyggð á svæðinu. Pálmi Freyr tók þar við stöðu forstjóra fyrir tveimur árum og hefur þurft að láta hendur standa fram…

Mikill metnaður hefur einkennt starf Kadeco þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og unnið að því að skapa blómlegt atvinnulíf og íbúabyggð á svæðinu. Pálmi Freyr tók þar við stöðu forstjóra fyrir tveimur árum og hefur þurft að láta hendur standa fram úr ermum, því uppbyggingin er rétt að byrja og verður gaman að fylgjast með svæðinu dafna á komandi árum og áratugum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskoranir eru að forgangsraða þeim verkefnum sem við sjáum fyrir okkur að ráðast í á næstu árum. Kadeco er lítið ríkisfélag með afskaplega hæft fólk innanborðs og verkefnin óteljandi sem hægt er að ráðast í til að raungera þá framtíðarsýn fyrir svæðið sem sett var fram fyrr á þessu ári. Þessi sýn felur í sér að gera flugvöllinn að enn áhugaverðari vinnustað og fjölga tækifærunum í flugi auk þess að tengja betur saman Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið bæði með bættum samgöngum og huglægt.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Það var ársfundur ríkisfyrirtækja í Hörpu í byrjun október. Fundurinn var mjög áhugaverður og fjallaði að mestu um sjálfbærni í rekstri hjá ríkinu þar sem flest fyrirtæki eru að gera góða hluti.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Gæfuspor – Gildin í lífinu eftir Gunnar Hersvein spilar stórt hlutverk í mínu lífi. Gunnar hefur frábært lag á að fá mann til að líta inn á við og finna eigin leið. Við Gunnar unnum lengi saman og var það ein helsta gæfa mín í lífinu.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Að einhverju leyti geri ég það með lestri greina og bóka, og með hlaðvarpshámi, en mestmegnis með samtölum við áhugavert fólk. Mér finnst mikilvægt að þekkingarviðhaldið sé umfram það sem unnið er við dagsdaglega og að hægt sé að næra dellur sömuleiðis með góðri samvisku.

Hugsarðu vel um líkamann?

Stundum. Er á ágætis róli núna og stefni á að halda því við. Golfbrölt á sumrin heldur mér við á þeim tíma ársins en veturnir hafa verið flóknari. Er þó sæmilega duglegur að fara í sund og göngutúra með fjölskyldunni.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Starfið sem ég er í núna snertir flest það sem ég hef mestan áhuga á nema kannski golfið. Golfið getur að vísu ekki orðið að atvinnugrein hjá mér miðað við framfarirnar undanfarið. Kannski bara eitthvað allt annað; verðbréfamiðlari eða gleraugnasali. Þá kæmist ég kannski líka oftar í golf.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Mér finnst allt sem tengist framtíðarfræðum mjög spennandi. Sérstaklega það sem snýr að gervigreind og áhrifum tækni á þróun samfélags. Merkilegt líka hvað lögfræði verður áhugaverð með aldrinum og reynslunni.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Það þarf að velja vel hvenær farið er af stað með verkefni í núverandi vaxtaumhverfi. Á sama tíma getur verið ákjósanlegt að gangsetja langtímaverkefni hafandi trú á að hlutirnir horfi til betri vegar. Við erum til dæmis að bjóða út spennandi lóðir undir íbúabyggð á Ásbrú sem væri slegist um í eðlilegu árferði. Vonandi sjá uppbyggingaraðilar að svæðið verður ekki byggt upp á einni nóttu og eru til í að taka áhættu, eins og við erum í sjálfu sér að gera en sem liður í samfélagslegri ábyrgð félagsins.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég umgengst skemmtilegt fólk og breyti um umhverfi. Við erum með skrifstofur bæði í miðborg Reykjavíkur og á Ásbrú sem hafa báðar mikinn sjarma og ég reyni að vera á báðum stöðum eftir hentisemi.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Áfengislögum og lögum um fiskeldi. Svo er sitthvað í sveitarstjórnarlögum sem mætti skoða.

Ævi og störf:

Nám: Stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 1995; M.Sc. í arkitektúr og hönnun með áherslu á borgarskipulag frá Álaborgarháskóla 2005.

Störf: Verkefna- og teymisstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar 2005 til 2014; deildarstjóri þróunardeildar Keflavíkurflugvallar hjá Isavia 2014 til 2020; framkvæmdastjóri Kadeco frá 2020.

Áhugamál: Lífsins lystisemdir, íþróttir og borgir. Ég hef óstjórnlegan áhuga á mannlífi, menningu og skipulagsmálum. Hjólastígar og flugvellir, götur og torg, samfélag, menning og auðvitað golf.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Guðbjörgu Björnsdóttur eiganda Saga – Story House, og á synina Jakob Emil (22), Benedikt (19) og Magnús Pálma (11).