Nú er því þannig farið, að ef horft er til allra fyrirtækja sem hafa umtalsverðar tekjur af þjónustu við álver á Íslandi, þá er listinn mun lengri og telur hundruð fyrirtækja.

Iðnaður

Pétur Blöndal

Framkvæmdastjóri Samáls

Hátt í 40 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í að móta framtíðarsýn nýstofnaðs Álklasa í Borgarnesi vorið 2014. Þegar litið er um öxl er ánægjulegt að af tíu áherslumálum hafa flest náð fram að ganga. Fyrst má nefna að lagður hefur verið grunnur að rannsóknarsetri í áli innan Tækniseturs og tekist hefur öflugra samstarf við rannsóknarstofnanir, háskólasamfélög og stjórnvöld og betur gengur en áður að fjármagna verkefni.

Nýsköpun og rannsóknir

Enginn skortur er á tækifærum til að sækja fram, hvort sem litið er til loftslagsmála og samdráttar í losun, hringrásarhagkerfisins, umhverfismála eða snjallvæðingar. Á meðal áherslumála var einmitt stuðningur við nýsköpunarverkefni og frekari fullnýting aukaafurða og úrgangs.

Á meðal nýsköpunarfyrirtækja í Álklasanum má telja Arctus Aluminium sem vinnur að þróun kolefnislausra skauta, Alor sem nýtir ál sem orkubera í rafhlöðum, umhverfisvænar framleiðslulausnir Álvits og þá stefnir Gerosion að endurnýtingu kerbrota hér á landi sem yrði bylting í hringrásarmálum. Alur álvinnsla fjárfesti nýverið í frekari endurnýtingu álgjalls og fyrirtækið DTE hefur haslað sér völl hér á landi og erlendis með sjálfvirkan greiningarbúnað sem býður upp á rauntímamælingar á málmum.

Sóknarfæri í útflutningi

Enn annað áherslumál var greining á þekkingu, vörum og þjónustu fyrirtækja innan álklasans og hvar sóknarfærin lægju til útflutnings. Í samstarfi við Íslandsstofu var unnin ítarleg skýrsla með djúpviðtölum við 33 fyrirtæki í áliðnaði. Um helmingur reyndist vera með starfsemi á erlendum mörkuðum, þar af sjö að þjónusta álver utan landsteinanna. Kom fram að helsta samkeppnisforskot íslenskra fyrirtækja var að hafa átt í viðskiptum við alþjóðleg fyrirtæki hér á landi.

Efling rannsókna og kennslu um ál og efnisvísindi í íslenskum háskólum var einnig áherslumál. Óhætt er að segja að það hafi gengið eftir með farsælum hætti. Komið var á fót hugmyndagátt þar sem nemendur geta leitað viðfangsefna í lokaverkefnum, efnt hefur verið til kennslu og málstofa á þessu sviði, útskrifaðir hafa verið nemar með meistara- og doktorsverkefni og metnaðarfullt nýsköpunarmót er haldið árlega í háskólunum þar sem veittar eru hvatningarviðurkenningar fyrir verkefni sem skara fram úr.

Klasastjórnun og áframvinnsla

Nokkur áherslumálanna sneru að klasanum sjálfum, að klasastjórnun yrði tryggð, fjármögnun og eftirfylgni verkefna tryggð. Einnig að þar yrði vettvangur þar sem hægt er að flagga hugmyndum að verkefnum eða kalla eftir lausnum. Hvort tveggja hefur gengið eftir. Einnig var kortlagt hvaða tækifæri væru til að ýta úr vör úrvinnsluiðnaði úr áli, en á síðustu árum hafa stór skref verið stigin hjá íslenskum álverum í áframvinnslu áls, þar sem þau hafa m.a. fjárfest í steypuskálum og virðisaukandi framleiðslu, og eru frekari fjárfestingar í pípunum.

Loks má nefna sem áherslumál að skapa stolt yfir framleiðsluhagkerfinu, gæðum og verðmætasköpun. Viðhorf almennings til íslensks áliðnaðar er jákvæðara en margur heldur. Í könnun Gallup frá því í lok árs 2021 kom fram að yfir 70% þjóðarinnar telur að íslenskur áliðnaður skipti máli fyrir íslenskt efnahagslíf og einungis um 12% að hann hafi litla þýðingu. Um 63% Íslendinga eru á því að það sé gott að vinna hjá álfyrirtækjum á Íslandi, en einungis 9% líta það neikvæðum augum.

Nú er því þannig farið, að ef horft er til allra fyrirtækja sem hafa umtalsverðar tekjur af þjónustu við álver á Íslandi, þá er listinn mun lengri og telur hundruð fyrirtækja. Enda keyptu íslensku álverin vörur og þjónustu fyrir 61 milljarð í fyrra. Eru þá ótalin raforkukaup, sem áætlað er að hafi numið 85 milljörðum. Áliðnaður er ungur að árum á Íslandi, stærsta álverið hóf starfsemi fyrir hálfum öðrum áratug, og ljóst má vera að klasinn á enn eftir að vaxa og dafna.