Geir Áslaugarson
geir@mbl.is
,„Við vitum að Easyjet er ekkert að fara af stað fyrir eitt tilraunaverkefni, heldur ætla þau sér að vera áfram,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri á Markaðsstofu Norðurlands.
Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í gær með Easyjet. Flogið verður alla þriðjudaga og laugardaga frá 31. október til 30. mars. „Ég er ótrúlega spennt og glöð yfir að þetta sé komið af stað og vonandi að þetta verði til frambúðar,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar.
Flugklasi í óvissu
Fyrr í mánuðinum sagði Akureyrarbær ásamt öðrum sveitarfélögum á Norðurlandi sig formlega frá verkefni Flugklasans. Verkefni sem felur í sér fjárframlög frá sveitarfélögunum til þess að viðhalda millilandaflugi frá Akureyri. Spurð hvort til stæði að endurskoða stuðning við verkefnið sagði Ásthildur að til stæði að endurskoða málið í dag.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Arnheiður að millilandaflug frá Akureyri hefði gengið mjög vel í gegnum tíðina, en hún taldi að áform um úrsögn sveitarfélaganna úr verkefninu hefði á sínum tíma verið vegna tilkomu flugfélagsins Niceair og að ráðamenn hefðu haldið að verkefnið væri komið í höfn. Flugfélagið lokaði þó dyrunum fyrr á þessu ári.
Von á fjölgun ferðamanna
Hún segir enn fremur að málið sé til skoðunar og að m.a. Þingeyjarsveit hafi tilkynnt að sveitarfélagið muni halda áfram stuðningi við Flugklasann og hvatt önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama.
„Það er mikill vilji hér til að kaupa flug og við sjáum að Easyjet-vélin sem fer næsta laugardag er fullbókuð og ég hef heyrt frá Easyjet að það sé vel bókað héðan,“ segir Arnheiður. „Þetta eru auðvitað mikil lífsgæði fyrir okkur,“ segir hún enn fremur.
Flugið verður bæði nýtt af heimamönnum og fólki erlendis, en verið er að bjóða ferðapakka erlendis með flugi Easyjet til Íslands. Spurð hvort gert sé ráð fyrir fjölgun ferðamanna í kjölfar opnunar flugleiðarinnar svarar Arnheiður játandi. „Þetta er flug sem er að koma á besta tíma fyrir okkur, að fá þetta yfir háveturinn,“ segir hún.
Arnheiður vonast til þess að þetta muni leiða til aukinnar fjárfestingar á svæðinu, þar sem von er á fjölgun gistinótta í kjölfar flugsins.
Icelandair með tengiflug
Um þessar mundir heldur Icelandair úti tengiflugi milli Akureyrar og Keflavíkur, sem Arnheiður segir að eigi alveg að geta gengið. Tengiflugið hófst þann 15. október sl. og stendur til 30. nóvember. Með því geta Norðlendingar bókað ferðir alla leið á áfangastað í Evrópu eða N-Ameríku og farið í gegnum öryggisleit á Akureyri.
Til stendur að bjóða upp á fleiri millilandaflug frá Akureyri í vetur, en frá janúar til mars mun Voigt Travel fljúga til Amsterdam. Frá febrúar til mars mun flugfélagið Kontiki fljúga til Zürich í Sviss. Frá júní til júlí mun Edelweiss einnig fljúga til Zürich og frá júní til september mun Voigt Travel fljúga til Rotterdam frá Akureyri.