Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, segir talsverða óvissu ríkja um jarðhræringarnar sem nú eiga sér stað við fjallið Þorbjörn, norðan við Grindavík. Segist hann binda vonir við að gervihnattamyndir sem teknar voru í gær komi til með að varpa frekara ljósi á stöðu mála.
„Við höfum verið að sjá talsvert mikla skjálftavirkni þarna rétt norðan og norðvestan við Þorbjörn og teljum að þetta sé mögulega kvikuhlaup að reyna að komast af stað,“ segir hann. „Við sjáum einnig merki um að það séu hreyfifærslur á GPS-mælum. Við erum í rauninni bara að fylgjast náið með því núna og hvernig þetta þróast, hvort það sé raunverulega að byrja kvikuhlaup þarna eða hvort þetta stoppi bara.“
Fylgjast grannt með stöðu mála
Í tilkynningu frá Veðurstofunni í gær segir að ekki sé hægt að útiloka að kvika nái að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna norðvestur af fjallinu Þorbirni. Norðvestur af Þorbirni liggur vinsæli ferðamannastaðurinn Bláa lónið, en Svartsengisvirkjunin er þar skammt austar, norður af Þorbirni. Kveðst stofnunin fylgjast grannt með þróun mála. Horft sé til þess hvort fleiri smáskjálftar mælist nær yfirborði, en slík þróun gæfi skýr merki um að kvika væri að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna.
Þá kemur einnig fram að jarðskjálftahrinan, sem var í gærmorgun og stóð yfir í tæpa tvo klukkutíma, sé skýrt merki um kvikuhlaup enda styðji GPS-mælingar þá túlkun. Kvikuhlaup merki að kvika sé á hreyfingu. Hófst hrinan um klukkan 8:40 og varð skjálftavirknin ör. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist 3,7 að stærð en skjálftarnir voru á um 1,5 til 5 kílómetra dýpi. Fundað var með Almannavörnum og hagsmunaaðilum á Reykjanesskaga í gær og farið yfir nýjustu mælingar, mögulega þróun atburðarásarinnar og viðbrögð við henni.