Körfuboltinn
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Keflavík hafði betur gegn Grindavík, 80:78, í æsispennandi granna- og toppslag í 7. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfubolta í Grindavík í gærkvöldi. Keflavík náði með sigrinum fjögurra stiga forskoti á toppnum og er liðið enn með fullt hús. Grindavík er í öðru sæti með tíu stig.
Keflvíkingar hafa verið óstöðvandi í vetur, á meðan Grindavík hefur komið skemmtilega á óvart. Grindavíkurliðið sýndi í gær að það getur barist á toppnum allt tímabilið, því það gaf Keflavík ekkert eftir.
Það er hins vegar mikil seigla í Keflavík og liðið er sterkt í jöfnum og spennandi leikjum. Daniela Wallen skoraði 23 stig fyrir Keflavík og tók 13 fráköst að auki. Birna Valgerður Benónýsdóttir gerði einnig 23 stig. Danielle Rodriguez skoraði 15 stig og tók 18 fráköst fyrir Grindavík og Hulda Björk Ólafsdóttir skoraði 15 stig sömuleiðis.
Meistararnir á siglingu
Íslandsmeistarar Vals unnu sinn fjórða sigur í röð er liðið gerði góða ferð í Stykkishólm og vann öruggan 75:55-útisigur á nýliðum Snæfells.
Er óhætt að segja að meistararnir séu komnir í gang, eftir tvö töp í fyrstu þremur leikjunum. Valur náði völdunum strax í byrjun, því staðan eftir fyrsta leikhluta var 26:17 og voru hálfleikstölur 39:31. Héldu Valskonur forystunni allan seinni hálfleikinn.
Snæfell átti sína spretti, en endurkoman í efstu deild hefur reynst liðinu erfið og er það enn án stiga. Lindsey Pulliam skoraði 32 stig og tók 12 fráköst fyrir Val og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 13 stig og tók 13 fráköst. Mammusu Secka skoraði 16 fyrir Snæfell.
Sterkur sigur nýliðanna
Nýliðar Þórs frá Akureyri gerðu sér lítið fyrir og unnu 74:69-heimasigur á bikarmeisturum Hauka. Er sigurinn sérstaklega sterkur í ljósi þess að Haukar náðu 15 stiga forskoti í fyrri hálfleik. Þór neitaði hins vegar að gefast upp, sneri leiknum sér í vil í seinni hálfleik og vann sterkan sigur. Þór hefur unnið tvo í röð, en Haukar tapað þremur síðustu.
Madison Sutton skoraði 23 stig og tók 16 fráköst fyrir Þór og Lore Devos gerði 21 stig og tók átta fráköst. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 19 fyrir Hauka.
Stórsigur Stjörnunnar
Stjarnan, sem er einnig nýliði, vann sinn annan sigur í röð er liðið fór illa með Breiðablik. Urðu lokatölurnar í Garðabænum 85:56. Stjarnan var með 29:17-forskot eftir fyrsta leikhlutann og hélt áfram að bæta í forystuna það sem eftir lifði leiks.
Ungt lið Stjörnunnar hefur komið skemmtilega inn í deildina og er mikil uppbygging hjá félaginu að skila sér, þar sem ungir og spennandi leikmenn eru í stórum hlutverkum.
Það er hins vegar fátt jákvætt hjá Breiðabliki um þessar mundir, liðið fær hvern skellinn á fætur öðrum og er stigalaust.
Katarzyna Trzeciak skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna og tók sjö fráköst. Kolbrún María Ármannsdóttir gerði 20 stig og tók átta fráköst. Brooklyn Pannell skoraði 16 stig fyrir Breiðablik.