Gary Libecap er heimsþekktur hagfræðingur.
Gary Libecap er heimsþekktur hagfræðingur. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ísland og Nýja-Sjáland ... hafa heildstæðustu og öflugustu fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.

Prófessor Gary Libecap er maður hógvær og hæglátur en hann hefur sinnt rannsóknum í hagfræði í áratugi. Samtalið hefst á að ræða bakgrunninn og viðfangsefni rannsókna hans.

„Ég hef frá upphafi míns akademíska ferils haft áhuga á eignarrétti, áhrifum hans og þá í grundvallaratriðum í gegnum hvata. Skilgreina þarf hina efnahagslegu niðurstöðu sem hugsað er um, hvert eðli eignarréttarins kann að vera og hvernig það gæti haft áhrif á fjárfestingu, framleiðslu, atvinnustig og verðmætasköpun almennt. Ég hef rannsakað ýmsar auðlindir, og hef því ekki einbeitt mér að einni eins og sjávarútvegi, en þekki þá grein mjög vel. Góðu fréttirnar eru að við þessa nálgun í rannsóknum hef ég fundið út að vandamálin eru mjög áþekk. Ég byrjaði á að skoða námuréttindi í Bandaríkjunum. Það er athyglisverð staðreynd að námuréttindi hafa sögulega verið mjög trygg í Bandaríkjunum. Og góðu fréttirnar eru að það hefur leitt til þess að Bandaríkin hafa framleitt meira af steinefnum en ætla mætti út frá umfangi auðlinda.“

Fyrirkomulagið lykilástæða

„Til samanburðar hefur tilhneigingin verið sú að Mexíkó og stór hluti Rómönsku Ameríku, sem er afar auðug að auðlindum, hafa framleitt minna en auðlindir þeirra gefa til kynna. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Lykilástæðan er að fyrirkomulag eignarréttinda, sérstaklega í Mexíkó, hefur verið mjög ótryggt og sveiflast með stjórnmálaástandinu. Það hefur því verið nokkuð ólíkt Bandaríkjunum að því leyti og sérstaklega Rómönsku Ameríku, þar sem ég þekki best til.

Síðar, þegar ég var við Texas A&M-háskóla, rannsakaði ég vinnslu olíu og gass. Það er heldur ekki endurnýjanleg auðlind en magn hennar ræðst af rannsóknum og framleiðslu og nýrri tækni. Þannig að ég hef varið þó nokkuð miklum tíma í að greina gögn frá fyrirtækjum til að rannsaka vandamálið þegar hægt er að dæla olíu úr olíulind á annars landi. Það leiðir því til kapphlaups um dælingu og til mikillar sóunar. Það stuðlar heldur ekki að fjárfestingu. Munurinn getur verið mikill í Bandaríkjunum vegna ólíks fyrirkomulags milli ríkja.

Við tölfræðigreiningu er því hægt að fá út mikinn breytileika í niðurstöðum rannsókna á mismunandi stefnum. En almennt séð hefur fyrirkomulagið verið mjög tryggt í Bandaríkjunum. Og ég held að það skýri, svo að dæmi sé tekið, að vökvabrot hafi verið kynnt til sögunnar en það er leið til að vinna meira magn af olíu og gasi en áður var talið hagkvæmt. Það rúmlega tvöfaldaði framleiðsluna í Bandaríkjunum og hefur því verið ný uppspretta framleiðslu. Og síðan hefur sú tækni dreifst til annarra svæða í heiminum. Hefur þó ekki endilega verið tekin upp þar sem það hefði verið gerlegt. Hún hefur samt opnað nýja möguleika á mörgum stöðum.“

Fór til Brasilíu

„Og síðan fór ég yfir í hitabeltisskógana í Brasilíu og í Amason en menn hafa lengi haft áhyggjur af of hraðri skógareyðingu. Svo að við fórum til Brasilíu, ræddum við smábændur og stórbændur, og svo mætti áfram telja. Hér þarf líka að taka marga þætti til greina eins og aðgang að mörkuðum og vegakerfið. En að því sögðu er það mikið vandamál í Brasilíu að margir þeirra sem flytjast til Amason eru mjög fátækir. Þeir koma úr suðrinu, frá Sao Paulo, Rio og fleiri stöðum, og koma í leit að betra lífi en hafa ekki trygga ábúð. Vita ekki hversu lengi þeir geta dvalið á landinu. Til að hefja framleiðslu þurfa þeir að fella tré. Brasilíska stjórnarskráin mælir fyrir um að þeir skuli halda eftir helmingnum af landi sem er skógi vaxið en það er með öllu óhagkvæmt enda eru margar eignanna einfaldlega of litlar til að helmingur þeirra sé settur til hliðar. Þetta voru því afar gagnlegar, skemmtilegar og upplýsandi rannsóknir.

Síðan hef ég nýverið rannsakað veiðar á villtum fiski í hafi og í ferskvatni í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að menn hafa vaxandi áhyggjur af þurrkum og íbúafjölgun í þéttbýli [í Bandaríkjunum] en engu að síður þarf að finna leiðir til að hafa aðgang að vatni og flytja það þangað þar sem það skapar mest verðmæti. En með því er hugsanlega verið að grafa undan smáum landbúnaðarsamfélögum sem reiddu sig á ódýrt vatn. Þegar vatn er til dæmis flutt frá Vestur-Colorado til Denver þá er vatnið flutt frá þessum smáu samfélögum í Vestur-Colorado. Svo að það gerir það að mjög pólitísku máli. Á hinn bóginn fjölgar íbúum mikið í borgum og þar er mikil eftirspurn eftir vatni, ásamt því sem við höfum áhyggjur af húsnæðisvanda og svo framvegis.“

Takmarkanir kosta

„Og ef þú íþyngir vatnsflutningum með alls kyns takmörkunum – vatnssparandi salernum og öllu hinu – þá hækkar það húsnæðiskostnað og grefur undan árangursríkari og skilvirkari vatnsmiðlun. Ég tel að ein leið til að fást við það sé til dæmis að leggja skatt á dælingu vatns í Vestur-Colorado sem er ekki skattur á hagnað, heldur skattur á magn þess vatns sem er dælt frá tilteknu svæði. Þannig er hægt að skapa sjóð til að styðja aðlögun frá þeim landbúnaði sem skilar litlum arði og verður fyrir áhrifum [af breyttri vatnsnotkun]. Nefna mætti fleiri dæmi frá Suður-Kaliforníu um að vatn sé flutt frá landbúnaði til San Diego og Los Angeles en það kallar á að ræktarland sé tekið úr notkun.

Með það allt í huga, og rannsóknir mínar í fiskveiðum, tel ég að það séu hreinlega yfirgnæfandi vísbendingar um að réttindatengt fyrirkomulag, fyrirkomulag sem tryggir tiltölulega örugg og varanleg langtímaréttindi til fiskveiða, hafi mikil áhrif á arðsemi og á stofnstærð. Og nokkrir kollegar mínir við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara birtu fræga ritgerð í tímaritinu Science þar sem þeir tóku saman gögn [um málið] og lögðu út af þeim.

Og það hefur einfaldlega verið endurtekið víða. En að því sögðu, þá stendur öllum á sama um ofveidda fiskistofna. En þegar réttindatengt fyrirkomulag hefur verið innleitt, og fiskveiðarnar verða arðbærar, verður skyndilega bakslag því fólk segir: „Bíddu! Menn eru að efnast á auðlind í almannaeigu, á fiskveiðum, og við ættum að fá hlutdeild í því.“ Ég hef fullan skilning á þeirri röksemd en vandamálið er að þeim láist að skilja að fiskveiðarnar eru verðmætar vegna athafna útvegsmanna. Og ef lagðar eru hömlur á eignarréttindi eru fiskveiðiréttindin útþynnt. Til dæmis með því að hafa sólarlagsákvæði á núverandi úthlutunum og reyna að endurúthluta þeim með uppboði eða einhverju öðru fyrirkomulagi, en það kann að ónýta fyrirkomulagið sem skapaði upphaflega mikil verðmæti með veiðunum.“

– Hvers vegna gæti slík úthlutun leitt til skaðlegrar útkomu?

„Tilgangurinn með því að hafa öflugt kerfi einstaklingsbundinna réttinda er að hafa langtímaáhrif á veiðar og stuðla að skilvirkri fjárfestingu í sjávarútvegi og skipum, stuðla að skilvirkni í þjálfun starfsfólks og einfaldlega að framleiðslu verðmæta. Og þessar fiskveiðar eru á alþjóðlegum samkeppnismörkuðum. Svo að veiðar á þorski eða lúðu, eða á hvaða annarri tegund sem er, eru í samkeppni við fiskveiðar annars staðar eða við veiðar á sambærilegum fiski annars staðar frá. Veiðarnar eru því ekki einangraðar. Svo að þú vilt stuðla að fjárfestingu og slíkri skilvirkni.

Skapar óvissu

Annars vegar viltu varðveita fiskistofninn og þegar sjómenn hafa fiskveiðiréttindi sem eru tryggð til langs tíma þá ræðst verðmætið af vistkerfinu og stofninum. Við höfum nokkra reynslu af því að útvíkka þessi kerfi einstaklingsbundinna réttinda, til dæmis í vesturhluta Kanada og Alaska. Þar hafa framseljanleg réttindi við nýtingu auðlinda verið hluti af kerfi einstaklingsbundinna réttinda í fiskveiðum. Svo að vandamálið er að ef sagt er sem svo: „Gott og vel. Við ætlum að hafa sólarlagsákvæði á þessum réttindum,“ eins og var til dæmis gert, að ég tel, í Færeyjum, og við ætlum að setja þau á uppboð, þá skapar það óvissu. Ef þú vilt að fjárfestar styðji við þinn iðnað eða þú vilt hugsa til langs tíma þá skapast skyndilega óvissa um til hversu langs tíma það er.

Það skapar óvissu. Að minnsta kosti höfum við vísbendingar um það í mörgum öðrum atvinnugreinum sem benda má á og hvernig það gæti verið skaðlegt bæði fyrir hagnað og fiskistofna og arðsemi greinarinnar. Svo að það er það sem ég meina [þegar ég segi] að verðmæti fiskveiða sé ekki óháð eignarhaldinu. Séu veiðarnar öllum frjálsar þá stefnir [afla]verðmætið á núllið. Ef óvissa er um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar, eins og eftir síðari heimsstyrjöldina þegar hún tók mið af fyrri sjósókn, þá skapar það ekki verðmæti. Það er þá ekkert til að endurúthluta. Það er aðeins innan kerfis einstaklingsbundinna réttinda sem eitthvað er til að verðmeta. Og það er það sem vekur athygli. Svo að það er mjög snúið úrlausnarefni. Ég geri ekki lítið úr því en ég tel að fylgismönnum skattlagningar eða endurúthlutunar eða annarra leiða yfirsjáist að hægt er að drepa gullgæsina, ef svo má að orði komast. Svo að það er það sem ég meina.“

Eitt það öflugasta í heimi

– Hversu árangursríkt myndirðu almennt álíta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið?

„Nú er ég sem áður segir ekki sérfræðingur í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hins vegar er Íslandi og Nýja-Sjálandi hampað sem gullfætinum með því að hafa heildstæðustu og öflugustu fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Það hryggir mig að segja að Bandaríkin eru mjög neðarlega á þeim lista og að fiskveiðar okkar eru almennt ekki eins verðmætar og framleiðnin minni en hún gæti ella verið.“

– Í fyrirlestri þínum við Háskóla Íslands vitnaðirðu meðal annars í íslenska sérfræðinga í hagfræði fiskveiðiréttinda, þar með talið Ragnar Árnason prófessor. Hversu vel þekktir eru íslenskir fræðimenn á þessu sviði á alþjóðlegum vettvangi?

„Þeir eru heimsþekktir. Ragnar Árnason kann að vera þekktasti fiskihagfræðingur í heimi. Hann er ábyggilega meðal þeirra fimm þekktustu. Hvað aðra fræðimenn varðar eru íslenskir hagfræðingar sem starfa við fiskveiðiréttindi mikils metnir. Það sést á fræðiritunum þar sem þeir birta greinar sínar. Ísland er ríkt að sérfræðiþekkingu.“

Sá mun á verndarsvæðum

– Hvað vakti upphaflega áhuga þinn á eignarréttindum sem fræðimanns?

„Nú veit ég það ekki vegna þess að ég ólst ekki upp í fjölskyldu sem átti mikið af eignum. Leiddi ekki mikið hugann að því. Ég hef alltaf haft áhuga á hvötum og skynsamlegri notkun auðlinda og hvers vegna hún getur verið breytileg. Ég ólst upp í vesturhluta Bandaríkjanna, nærri verndarsvæðum indíána, og það sló mig að annars vegar voru búgarðar í einkaeigu með blómleg beitilönd og hins vegar verndarsvæðin – ég veit ekki hvort þetta eigi við öll verndarsvæði en þau sem ég þekki til – þar sem land var oft illa farið og höfðu því sem næst allir meðlimir óheftan aðgang [að landinu] enda hafði enginn meðlimur í tilteknum ættbálki einkaeignarréttindi. Því tók ég þetta fyrir í mínum fyrstu rannsóknum á beitarlandi í Nýju-Mexíkó. Ég varð einfaldlega sífellt áhugasamari um efnið. Við höfum þekkt fræðilega, að minnsta kosti síðan á sjöunda og áttunda áratugnum, hvernig fyrirkomulagi eignarréttinda koma skal á fót til að stuðla að erlendri fjárfestingu, til að stuðla að skilvirkni í landbúnaðarframleiðslu, fiskveiðum og svo mætti áfram telja.“

– Þú minnist á Amasonskóginn. Þú hefur rætt um hvernig beita má eignarréttindum til þess að hámarka efnahagslegan ávinning af auðlindum en um leið til að vernda þær. Mætti beita þessari aðferðafræði til að takast á við sumar þeirra áskorana í umhverfismálum sem við stöndum frammi fyrir?

„Já. Áskoranir í umhverfismálum eru mjög ólíkar milli auðlinda og aðstæðna. Því er ég býsna bjartsýnn varðandi þær sem eru mjög staðbundnar. Svo lengi sem fyrir hendi er þokkalega traust fyrirkomulag á eignarréttindum. Elinor Ostrom vann við slíkar rannsóknir og var sæmd Nóbelsverðlaunum fyrir það árið 2009. Hinar almennari sem fela í sér alþjóðleg viðfangsefni eru mun vandasamari. Í sannleika sagt tel ég ekki að einhliða aðgerðir nokkurs ríkis eða svæðis, eins og Vestur-Evrópu eða Bandaríkjanna, muni hafa mikil áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.“

Ódýr orka lykilatriði

– Hvers vegna?

„Orka er nauðsynlegur aflvaki hagvaxtar. Aðgangur að ódýrri orku er því lykilatriði. Nú búa milljónir manna við mikla fátækt í vesturhluta Kína, kannski 500 milljónir, og svo 800 til 1.000 milljónir á Indlandi og í Afríku og annars staðar. Kína reisir nú þegar fleiri kolaorkuver á hverju ári en afgangurinn af heiminum tekur úr notkun árlega. Því er heildarfjöldi kolaorkuvera á uppleið. Og hvers vegna skyldi svo vera? Nú vill svo til að þetta fólk mun bæta lífsskilyrði sín þegar það fær aðgang að ódýrri orku. Heimurinn er fullur af jarðefnaeldsneyti. Svo að málið snýst ekki aðeins um framleiðslu [á jarðefnaeldsneyti] eins og í Norðursjónum eða í Bandaríkjunum eða í Mið-Austurlöndum heldur eru einnig mjög fátæk ríki eins og Angóla, Nígería og Venesúela sem framleiða ekkert annað. Ég held að það sé mjög erfitt að ímynda sér að þau muni ganga í eitthvert alþjóðlegt bandalag til að draga úr eða stöðva framleiðslu nema þau fái miklar millifærslur á móti. Ég sé einfaldlega ekki hvernig það á að vera fýsilegt með hliðsjón af fjárhæðunum sem til þarf. Ég er ekki sannfærður um hvernig aðgerðir til að stemma stigu við losun koldíoxíðs eiga að vera skilvirkar. Þessa dagana eru þær pólitískt vinsælar en ég held að við ættum að einbeita okkur að tækni sem stuðlar að afkolun.“

Hamfaraspár ekki ræst

– Fyrir rúmri hálfri öld kom út bókin Endimörk vaxtarins. Höfundarnir færðu rök fyrir því að heimurinn væri að verða uppiskroppa með auðlindir. Á grundvelli þess sem þú hefur lært og rannsakað, hefurðu áhyggjur af því að auðlindir reikistjörnunnar muni ganga til þurrðar, að mannkynið muni verða uppiskroppa með auðlindir? Eða heldurðu þvert á móti að með réttri stjórn séu nægar auðlindir til að knýja vöxtinn?

„Mínar rannsóknir í hagsögu og efnahagsþróun hafa mikið verið tengdar auðlindunum sem ég hef skoðað í Brasilíu og í vesturhluta Bandaríkjanna og annars staðar. Ég þekki mjög vel til þessara auðlinda. Út frá því er ég svo sannarlega bjartsýnn. Við höfum ekki, svo að dæmi sé tekið, sama magn af gulli í Kaliforníu og [þegar gullæðið hófst við Suttersmyllu] árið 1849. En eftir því sem verð auðlindar hækkar hvetur það til tveggja hluta. Í fyrsta lagi til leitar að nýjum auðlindum á nýjum stöðum enda fer leitin að borga sig. Í öðru lagi hvetur hún til leitar að öðrum valkostum. Ein leið til að skoða hvort eða ekki við munum klára auðlindir er að skoða hvernig verð hefur þróast. Vegna þess að ef sífellt meiri skortur er á auðlindum þá hækkar verðið með tímanum. Við höfum ótrúleg gögn um þetta. Svo að næstum alla 20. öldina og langt fram eftir 21. öldinni hefur verð auðlinda annaðhvort staðið í stað eða lækkað.

Svo að það samræmist ekki neinum hugmyndum um auðlindaþurrð. Hér má vísa til gagna. Ef þú trúir því ekki þá geturðu skoðað gögnin. Nú nýverið rauk verð nokkurra lykilauðlinda upp, að hluta til vegna hins ótrúlega vaxtar í Kína og eftirspurnar Kínverja. Mörg þessara gagnasetta hafa sýnt fram á snarpa verðhækkun. Segja mætti: „Bíddu. Við erum að fara að klára auðlindirnar enda er Kína komið til sögunnar. Þetta fólk var ekki einu sinni að kaupa hluti en nú eru hins vegar hundruð milljóna manna að gera það.“ En á sama tíma er það að stuðla að ótrúlegri fjárfestingu í nýjum auðlindum, nýjum aðferðum og nýrri tækni. Svo að því mætti spá að verð margra þessara auðlinda eins og litíns og annarra sem eru nauðsynlegar fyrir rafknúin ökutæki og rafhlöður muni jafnast út þegar nýjar uppsprettur koma til sögunnar. En jafnframt þegar nýjar leiðir til að geyma orku eru uppgötvaðar sem reiða sig ekki á litín. Svo að ég er mjög bjartsýnn á það. Hér ræði ég um hlutina á mjög almennan hátt en ég tel að það væri til dæmis áhugavert rannsóknarsvið að skoða hvernig verð margra mikilvægra auðlinda hefur þróast sem stóð áður í stað en hefur nú rokið upp. Kopar er önnur auðlind en það eru alls kyns [efni] að koma í staðinn.

„Því er ég afar bjartsýnn. Á hinn bóginn gætum við vissulega klúðrað málum. Sumir staðir eru afar auðugir að auðlindum eins og litíni. Bólivía, Argentína og Síle koma upp í hugann. Ef þessi lönd yrðu mjög óstöðug gæti það hamlað getu þeirra til að finna nýjar uppsprettur [af litíni] í heiminum. Svo að það gæti haft skaðleg áhrif í þessum löndum. Svo að svar mitt er að bókin Endimörk vaxtarins hefði aðeins getað verið skrifuð af fólki sem bjó í ríkum löndum vegna þess að ef þú ert fátækur þá hefurðu engan áhuga á að lesa um endimörk vaxtar. Þú reiðir þig eftir allt á hann. Það er hagsaga. Þannig hefur efnahagsþróunin verið. Ég er mjög bjartsýnn á það og ég tel að það séu margar ástæður til bjartsýni,“ segir Libecap að lokum.

Hægt væri að tvöfalda framleiðsluna

Iðulega er vísað til þess að olíuverð sé til dæmis að nálgast 100 dali á tunnuna en þá er verðbólgan á síðustu áratugum eða á aðeins síðustu árum ekki tekin með í reikninginn. Þannig að bensínverð er hlutfallslega ekki svo dýrt þegar tekið er tillit til almennrar verðlagsþróunar en gjarnan er litið fram hjá þessum þáttum?

„Já. Ég tel svo vera. Hvað varðar olíuverð þá reyna samtök helstu olíuframleiðsluríkja heims að stjórna framleiðslu og halda verðinu háu. Það er hins vegar svo mikið til af olíu að ef Nígería, Angóla og Venesúela – Venesúela sérstaklega – væru ekki svo spillt væri sennilega hægt að tvöfalda olíuframleiðslu heimsins. Og ef Bandaríkin settu ekki slíkar takmarkanir á [vinnslu] olíu og gass, og það sama á við um Mexíkó, þá myndi ég spá því að tvöfalda mætti olíuframleiðsluna ef vilji væri fyrir hendi. Ég tel ekki að við séum að verða uppiskroppa með olíu og gas. Þessi krísa endurspeglar meira stöðu alþjóðastjórnmála, stríðið í Úkraínu og síðan, að sjálfsögðu, ástandið í Ísrael og Mið-Austurlöndum og Íran.“