Stórar og dýrar nýframkvæmdir í vegamálum má í ríkari mæli fjármagna með hóflegum veggjöldum. Þetta segir í ályktun ársþings Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) sem haldið var í síðustu viku. Verkefnum af þessum toga, samstarfi ríkis og einkaaðila, þarf að setja umgjörð hvort sem framkvæmdirnar eru alfarið fjármagnaðar með notendagjöldum eða að einhverju leyti fyrir opinbert fé.
„Vegamálin skipta okkur miklu,“ segir Ásgerður K. Gylfadóttir formaður SASS í samtali við Morgunblaðið. Hún tiltekur að veggjöld verði innheimt af þeim sem fari um nýja brú yfir Hornafjarðarfljót sem á að verða tilbúin eftir tvö ár. Sama muni gilda um nýja Ölfusárbrú við Selfoss, en bygging hennar á að hefjast á næsta ári. Sú framkvæmd verður samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila; PPP-framkvæmd eins og slíkt er stundum kallað.
„Jarðgöng undir Reynisfjall í Mýrdal er verkefni sem gæti hentað í einkaframkvæmd. Þau hafa nú verið færð aftar í forgangsröð hugsanlegra jarðganga sem grafa skal. Við Sunnlendingar viljum þau framar og munum hamra á mikilvægi þessa máls,“ segir Ásgerður.
Minnt er á ályktun SASS um að forgangsraða verði vegaframkvæmdum á Suðurlandi í þágu öryggis vegfarenda. Mikill umferðarþungi sé í landshlutanum, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna, bæði á hringveginum og í uppsveitum Árnessýslu. Víða þurfi að breikka vegi og laga vegaxlir. Þetta eigi við um vegi frá Markarfljóti og austur í Skaftafellssýslur en einnig marga stofnvegi. sbs@mbl.is