HM Lionel Messi tók við styttunni 2022 sem fyrirliði Argentínu.
HM Lionel Messi tók við styttunni 2022 sem fyrirliði Argentínu. — AFP/Paul Ellis
Allt bendir til þess að heimsmeistaramót karla í knattspyrnu árið 2034 verði haldið í Sádi-Arabíu, aðeins tólf árum eftir að HM fór fram í nágrannaríkinu Katar. Alþjóðaknattspyrnusambandið gaf út fyrir nokkru að HM 2034 myndi fara fram í Asíu eða Eyjaálfu

Allt bendir til þess að heimsmeistaramót karla í knattspyrnu árið 2034 verði haldið í Sádi-Arabíu, aðeins tólf árum eftir að HM fór fram í nágrannaríkinu Katar.

Alþjóðaknattspyrnusambandið gaf út fyrir nokkru að HM 2034 myndi fara fram í Asíu eða Eyjaálfu. Ástralía og Sádi-Arabía voru einu þjóðirnar sem höfðu gefið út að þær sæktust eftir því að fá keppnina.

Í gærmorgun rann út frestur sem þjóðirnar höfðu til að staðfesta áhuga sinn á mótshaldinu. Þá barst yfirlýsing frá knattspyrnusambandi Ástralíu þar sem fram kom að ákvörðun hefði verið tekin um að sækjast ekki eftir HM karla árið 2034, heldur einbeita sér að því að fá Asíubikar kvenna 2026 og heimsmeistaramót félagsliða árið 2029.

Aftur að vetrarlagi

Þar með blasir við að Sádi-Arabía verði gestgjafinn árið 2034. Ljóst er að þá yrði mótshaldið að vetrarlagi, eins og í Katar í lok síðasta árs, þegar leikið var frá 20. nóvember til 18. desember.

Þá hyggjast Sádi-Arabar fyrst og fremst uppfæra þau mannvirki sem eru til staðar í landinu en ekki ráðast í byggingu á fjölda nýrra leikvanga eins og Katarar gerðu.

Næsta heimsmeistaramót karla fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó árið 2026 og síðan fer mótið árið 2030 fram í þremur heimsálfum en það verður leikið í Portúgal, Spáni, Marokkó, Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ. vs@mbl.is