Gönguhópurinn Farið er í göngu á hverjum mánudegi árið um kring.
Gönguhópurinn Farið er í göngu á hverjum mánudegi árið um kring.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erla Björgvinsdóttir fæddist 1. nóvember 1943 á Frakkastíg 26a í Reykjavík í húsi sem nú hýsir veitingastaðinn Rok, Afi hennar, Guðlaugur Guðlaugsson, byggði húsið 1921. Guðrún Erla ólst upp í risinu hjá ömmu og afa ásamt foreldrum sínum og tveimur bræðrum

Guðrún Erla Björgvinsdóttir fæddist 1. nóvember 1943 á Frakkastíg 26a í Reykjavík í húsi sem nú hýsir veitingastaðinn Rok, Afi hennar, Guðlaugur Guðlaugsson, byggði húsið 1921. Guðrún Erla ólst upp í risinu hjá ömmu og afa ásamt foreldrum sínum og tveimur bræðrum. Faðir hennar rak kjólabúð á horni Frakkastígs og Bergþórugötu og föðurforeldrar bjuggu á Þórsgötu. Þetta var hennar heimur fyrstu árin í skjóli stórfjölskyldu.

Guðrún Erla naut þess að geta verið talsvert í sveit í Reykholtsdalnum á sumrin hjá góðu fólki. Hún hafði mikinn áhuga á hestum í þá daga og fannst alltaf yndislegt að dvelja í Borgarfirði.

Eftir gagnfræðapróf í Austurbæjarskóla fór Guðrún Erla í mjög formfastan og strangan stúlknaskóla á Englandi. „Það var lífsreynsla. Aldrei mátti setjast til borðs nema skipta um föt áður og að sjálfsögðu aldrei koma mínútu of seint í mat. Í frjálsa tímanum á daginn spiluðum við tennis,“ segir Guðrún Erla. Eitt skólaball var haldið og völdu skólastýrur góðan piltaskóla til þess að taka þátt í því. Skólastýrurnar voru að sjálfsögðu á vakt allt kvöldið, en sjálf fékk hún ekki að fara með, hafði ekki aldur til og voru það skelfileg vonbrigði.

Guðrún Erla fór í Fóstruskóla Sumargjafar, í Kennaraskólann og í íslensku í Háskóla Íslands. Þá var hún tæpt ár í Kaupmannahöfn og vann á dagheimili og kynnti sér leikræna tjáningu, sem hún kenndi síðan á nokkrum námskeiðum í Fóstruskólanum.

Guðrún Erla starfaði sem leikskólastjóri á Selfossi og dagheimilinu við Hábraut í Kópavogi, en frá 1976 starfaði hún sem grunnskólakennari og skólastjórnandi í samtals 38 ár. „Ég hefði ekki getað óskað mér áhugaverðara starfs. Hlakkaði alla tíð til að fara til vinnu, hvern morgun.

Við fjölskyldan fluttum á Suðurnesin 1976 þegar Fjölbrautaskóli Suðurnesja var stofnaður, en þar tók eiginmaður minn, Jón Böðvarsson, við starfi fyrsta skólameistara nýstofnaðs fjölbrautaskóla. Fjölskyldunni leið afskaplega vel á Suðurnesjum. Þar var gott mannlíf og gott að vera. Drengjunum okkar leið vel í skóla og voru öflugir í félagsstarfi. Ég kenndi við Myllubakkaskóla og síðan Njarðvíkurskóla. Eftir að við fluttum aftur til Reykjavíkur kenndi ég við Hjallaskóla í nokkur ár.

Árið 1995 tókum við Hildur Hafstað að okkur að móta nýjan skóla í Grafarvogi, Engjaskóla. Hún sem skólastjóri og ég sem aðstoðarskólastjóri. Það var vissulega ögrandi verkefni en einstaklega áhugavert og skemmtilegt. Við hófum starfið í 10 smáhýsum með 100 nemendur en svo tvöfaldaðist nemendafjöldinn strax næsta ár og þá fengum við inni í Borgarholtsskóla, sem var reyndar enn í byggingu, en öll verkgreinakennsla var áfram í smáhýsunum. 1997 gátum við flutt í nýja fallega skólahúsið, Engjaskóla. Þetta voru yndisleg ár með frábæru starfsfólki og afar góðu foreldrasamstarfi.“

Guðrún Erla starfaði við umferðarfræðslu barna í 17 ár meðfram kennslu, byrjaði þegar breytingar voru í tengslum við hægri umferð. Hún var m.a. með útvarpsþætti fyrir yngstu börnin í samvinnu við Guðbjart Gunnarsson, kennara og útvarpsmann.

„Ég hef verið Soroptimisti í 44 ár. Hef starfað í mjög mörgum nefndum á vegum Soroptimista. Var m.a. í útbreiðslunefnd og kom að stofnun Austurlandsklúbbs og Suðurlandsklúbbs. Var forseti Landssambandsins 2008-2010 og síðar sendifulltrúi. Var fulltrúi Soroptimista í samstarfsverkefni Norðurlandanna á Nordisk Forum 2014 og tók þátt í samstarfsverkefni 16 félagasamtaka á Íslandi gegn kynbundnu ofbeldi og flutti erindi á Norrænum vinadögum í Bergen 2010 um það hvernig íslenskir Soroptimistar komu að því verkefni.

Í dag nýt ég þess að fylgjast með barnabörnum og langömmubörnum og þeirra verkefnum og þroska ásamt því að ferðast og njóta daganna með unnusta mínum til sjö ára, Sverri Sveinssyni prentara.

Ég er í stjórn Félags kennara á eftirlaunum og syng með EKKÓ-kórnum. Hef verið í bókaklúbbi með samstarfskonum mínum úr Hjallaskóla síðustu átta árin. Ég æfi zumba, stunda göngur og er í gönguhópi soroptimista. Við Sverrir dönsum mikið. Auk þess reyni ég enn að leggja Soroptimistum lið.“

Fjölskylda

Eiginmaður Guðrúnar Erlu var Jón Böðvarsson, f. 2.5. 1930, d. 4.4. 2010, kennari við Menntaskólann í Hamrahlíð og fyrsti skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann var ritstjóri Iðnsögu Íslendinga á árunum 1988-2007. Jón var með námskeið um fornsögur um árabil, bæði hjá Tómstundaskólanum Mími – símenntun og hjá Endurmenntun Háskóla Íslands auk þess að vera leiðsögumaður í áratugi bæði innanlands og erlendis.

Foreldrar Jóns voru hjónin Ragnhildur Dagbjört Jónsdóttir, f. 31.3. 1904, d. 23.7. 1993, og Böðvar Stephensen Bjarnason, f. 1.10. 1904, d. 23.10. 1986. Þau voru búsett í Reykjavík.

Synir Guðrúnar Erlu og Jóns eru: 1) Björgvin, f. 17.3. 1964, hæstaréttarlögmaður og rekur lögmannsstofuna Megin. Kona hans er Sigríður Dóra Magnúsdóttir, læknir og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins; 2) Böðvar, f. 31.7. 1968, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna. Kona hans er Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, viðskiptafræðingur og mannauðsstjóri hjá HS Veitum.

Guðrún Erla á fjögur barnabörn og þrjú langömmubörn. Barnabörnin eru Jón, Ása og Edda Sif, börn Böðvars, og Margrét Erla, dóttir Björgvins. Langömmubörnin eru Snorri Björgvin, Þula og Sóley María.

Bræður Guðrúnar Erlu voru Guðlaugur Björgvinsson, f. 16.6. 1946, d. 4.5. 2021, forstjóri Mjólkursamsölunnar; Jóhann Sigurður Björgvinsson, f. 20.1. 1936, d. 22.4. 2007, sölustjóri hjá H.A. Tulinius. Hálfsystir Guðrúnar er Berta Guðrún Björgvinsdóttir, f. 14.4. 1935, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Guðrúnar Erlu voru hjónin Ásta Margrét Guðlaugsdóttir, f. 12.7. 1916, d. 22.8. 1983, kjólameistari og húsmóðir, og Björgvin Kristinn Grímsson, f. 14.9. 1914, d. 5.1. 1992, stórkaupmaður.