Ragnheiður Birgisdóttir
Ég á mjög erfitt með óhugnanlegt sjónvarpsefni. Ég fæ mig aldrei til að horfa á þáttaraðir þar sem spennan er aftur og aftur í hámarki, hvað þá hryllingsmyndir eða annað í þeim dúr. Ég hreinlega get ekki horft, ég held ekki út líkamleg viðbrögðin sem spennan og hræðslan kalla fram og slekk alltaf um hæl. En þetta gildir einhverra hluta vegna ekki um heimildarmyndir, þætti og hlaðvörp um sönn sakamál. Þar myndast ákveðin fjarlægð á umfjöllunarefnið sem gerir mér kleift að innbyrða frásagnir af hrottafullu ofbeldi og morðum.
Ég rakst nýverið á sjónvarpsseríuna Catching Killers á Netflix og hún greip mig strax. Þar rifja bandarískir rannsóknarlögreglumenn upp gömul mál þar sem þeir eltust við raðmorðingja og rekja rannsóknina í smáatriðum. Áherslan er lögð á upplifun lögreglumannanna en ekki á glæpinn. Hryllingnum er ekki lýst í þaula, þótt auðvitað verði að greina frá málavöxtum, og þar með verður efniviðurinn nokkuð auðmeltanlegur. Frásagnirnar eru líka hafðar persónulegar. Harðir lögreglumennirnir sýna sínar mjúku hliðar og greina opinskátt frá hvaða áhrif glíman við erfið morðmál hafði á þá og þeirra nánustu. Auðvitað má deila um siðferðislegu hliðina á því að nota raunverulegan hrylling sem afþreyingu en þetta er svo sannarlega gott sjónvarp.