Eftir úrslit gærkvöldsins eru komnar hreinar línur í riðlinn. Danmörk sem er með 12 stig eftir sigurinn gegn Wales í gær, 2:1, og Þýskaland sem er með 9 stig enda í tveimur efstu sætunum og leika áfram í A-deildinni í undankeppni EM 2025

Eftir úrslit gærkvöldsins eru komnar hreinar línur í riðlinn. Danmörk sem er með 12 stig eftir sigurinn gegn Wales í gær, 2:1, og Þýskaland sem er með 9 stig enda í tveimur efstu sætunum og leika áfram í A-deildinni í undankeppni EM 2025.

Þau bítast jafnframt um sigur í riðlinum og sæti í fjögurra liða úrslitum Þjóðadeildarinnar. Þar er enn meira í húfi því liðin tvö sem vinna undanúrslitaleikina tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París næsta sumar. Verði Frakkland annað þeirra verður bronsleikur Þjóðadeildar úrslitaleikur um sæti á ÓL.

Ísland er með þrjú stig og Wales ekkert og liðin munu leika nánast hreinan úrslitaleik um þriðja sæti riðilsins þegar þau mætast í fimmtu og næstsíðustu umferðinni á Cardiff City Stadium í Cardiff föstudaginn 1. desember.

Íslenska liðinu mun nægja jafntefli í þeim leik til að ná þriðja sætinu og getur sloppið með eins marks tapi, ef liðið verður með betri heildarmarkatölu en Wales.

Þriðja sætið skiptir öllu máli því þá fer Ísland í umspil um áframhaldandi sæti í A-deildinni gegn liði sem endar í öðru sæti í einhverjum riðla B-deildarinnar. Eftir leikina í B-deildinni í gærkvöld eru það Ungverjaland, Slóvakía, Serbía og Tékkland en þar eru tvær umferðir eftir eins og í A-deildinni.

Neðsta liðið fellur og verður í B-deild þegar undankeppni EM 2025 hefst næsta vor. Það er því gríðarlega mikið í húfi í leiknum í Cardiff.