Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Í hluta húss Grunnskólans í Borgarnesi hefur fundist mygla. Þetta varð ljóst fyrir rúmri viku og þá strax var brugðist við. „Þetta mun hafa veruleg áhrif á skólastarfið á næstu mánuðum,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri í Borgarbyggð í samtali við Morgunblaðið.
Myglan er í miðrými skólahússins þar sem eru sex kennslustofur. Kennslu sem þar fór fram hefur verið fundinn nýr staður í bókasafni og frístundarými. Þó er ljóst að frekari ráðstafanir þarf með því að fá færanlegar kennslustofur. Tvær slíkar fást nú í nóvember og aðrar tvær á nýju ári.
„Við eigum eftir að fá nánari greiningu á umfangi myglunnar. Eins og staðan er núna vitum við þó að fara þarf í viðgerðir fyrir upphæðir sem sveitarfélagið munar alveg um. Mest er þó um vert að þessu fylgi sem minnst rask fyrir nemendur skólans, sem eru 310. Starfsfólk skólans brást annars afar skjótt við og var fljótt að finna bráðabirgðalausnir svo skólastarfi er borgið í bili,“ segir Stefán Broddi.