Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöllinni hér á landi hefur lækkað um rétt rúma 300 milljarða króna á þessu ári. Það fjármagn er horfið í bili og óvíst er hvort og þá hvenær það kemur til baka. Til að setja þessa upphæð í samhengi við þá sem horfa á lífið í gegnum gleraugu hins opinbera má nefna að fjármagnstekjuskatturinn af hinu horfna fjármagni er um 66 milljarðar króna. Þess utan er rétt að muna að lífeyrissjóðir eiga ríflega helming alls hlutafjár í skráðu félögunum. Það eru því ekki bara vondir kapítalistar sem tapa peningum þegar markaðsvirði skráðu félaganna minnkar.
Það eru skýringar á þeirri miklu lækkun sem hefur átt sér stað á íslenskum hlutabréfamarkaði og þær eru misjafnar. Erlendir sjóðir hafa losað sig við stóra hluti, lífeyrissjóðirnir eru ekki að grípa það sem fer á sölu, einkafjárfestar halda að sér höndum og þannig mætti áfram telja. Í því hávaxtaumhverfi sem nú ríkir fer líklega betur á því að geyma peninga í hlýjum faðmi bankareikninga í stað þess að senda þá í vinnu á köldum markaði. Markaðsvirði er þó að mörgu leyti afstætt og endurspeglar ekki endilega rekstur viðkomandi félaga. Hér mætti nefna Icelandair sem dæmi, sem í nýlega birti eitt besta ársfjórðungsuppgjör í sögu félagsins en heldur engu að síður áfram að lækka á markaði.
Hvað sem líður tímabundnum erfiðleikum í Kauphöllinni má þó velta fyrir sér hversu burðug Kauphöllin hér á landi er til taka á móti nýjum félögum og bera uppi íslenskan hlutabréfamarkað. Með því er ekki gert lítið úr hlutverki eða mikilvægi Kauphallarinnar, hlutabréfamarkaðurinn hefur skipt miklu máli í vexti flestra þeirra fyrirtækja sem þar eru nú skráð og vonandi sjá fleiri tækifæri í því að skrá bréf sín á markað á næstu árum til að auka enn frekar virkni á markaði.
Það kunna þó að koma upp tilvik þar sem fyrirtækin eru einfaldlega of stór. Þetta er til dæmis atriði sem Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, velti upp á Nýsköpunarþingi í liðinni viku. Kerecis var sem kunnugt er selt í sumar til danska lækningavörurfyrirtækisins Coloplast, en áður hafði komið fram að félagið hygðist skrá sig á markað – erlendis. Í því samhengi horfði félagið bæði til Bandaríkjanna og Svíþjóðar. Guðmundur Fertram velti því upp í erindi sínu með hvaða hætti rétt væri að verðleggja félög en til að lesa sér nánar til um erindi hans má benda á vef Viðskiptablaðsins sem fjallað hefur ítarlega um málið.
Það er þó tvennt sem hafa má í huga að loknum þeim lestri. Annars vegar er það ákveðið lúxusvandamál ef staðan er sú að hér verða til fyrirtæki sem telja má of stór fyrir íslensku Kauphöllina. Það er vissulega jákvætt fyrir íslenska markaðinn ef þau kjósa að tvískrá sig og gefa þannig íslenskum fjárfestum tækifæri til að taka þátt í vexti þeirra. Að sama skapi opnast leiðir fyrir félögin til að sækja sér fjármagn frá erlendum fagfjárfestum sem þekkja rekstur þeirra og uppbyggingu ef til vill betur en þeir íslensku. Hins vegar mætti huga að frekari skattahvötum til að ýta enn frekar undir það að íslenskur almenningur fjárfesti í skráðum félögum og eigi þá um leið hagsmuna að gæta við velgengni atvinnulífsins. Það er jákvætt að sem flestir eigi þá sameiginlegu hagsmuni.