Ásdís Elísabet Ríkarðsdóttir fæddist á Djúpavogi 14. júní 1922. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 30. september 2023.
Foreldrar hennar voru María Ólafsdóttir, f. 20. ágúst 1881, d. 8. desember 1967, og Ríkarður Rebekk Jónsson, f. 20. september 1888, d. 17. janúar 1977. Systkini Ásdísar voru: Ríkarður Már, f. 4. desember 1915, d. 17. nóvember 1946; Björg Sóley, f. 27. október 1918, d. 7. mars 2010; Ólöf Margrét, f. 14. júní 1922, d. 26. nóvember 2017.
Ásdís ólst upp í Reykjavík á heimili foreldra og systkina á Grundarstíg 15. Undir sama þaki var vinnustofa Ríkarðs föður hennar og jafnan líf og fjör á stóru menningarheimili.
Ásdís gekk í Miðbæjarskólann og síðar Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hún á píanó undir handleiðslu Árna Kristjánssonar. Ásdís dvaldi í Stokkhólmi á sjötta áratug síðustu aldar í tæp fimm ár, sótti söngtíma og vann á veitingahúsi. Eftir heimkomuna kenndi Ásdís á píanó í Reykjavík, vann við síldarsöltun á Siglufirði og fleira. Síðar settist hún að á Akranesi og kenndi við Tónlistarskólann þar. Á Akranesi undi Ásdís hag sínum vel, tók þátt í félagsstarfi og eignaðist marga vini. Tvíburasysturnar Ásdís og Ólöf héldu lengi heimili saman í Reykjavík eftir starfslok.
Útför Ásdísar fór fram í kyrrþey.
Þá er þessari löngu ævi lokið. Það dró af líkamlegri heilsu Ásdísar er á leið en hún var vel með á nótunum allt fram að lokastund. Hún var alltaf kölluð Dísa af fjölskyldunni og meðal vina.
Ég man fyrst eftir henni þegar hún gekk niður landganginn á Gullfossi alkomin til Íslands. Fjölskyldan var komin niður á bryggju til að taka á móti henni eins og tíðkaðist þá. Dísa var glæsileg kona sem bar sig vel og klædd á sinn smekklega hátt. Í minningunni var hún eins og kvikmyndastjarna. Hún var glaðleg í fasi og brosti eins og henni var eiginlegt. Dísa hafði búið í Stokkhólmi um skeið og kynnst þar sænsk-finnskum manni en samleið þeirra var stutt.
Eftir þessa landtöku var hún stór hluti af lífi mínu uns yfir lauk. Hún settist að hér á landi og aðalstarf hennar var alltaf píanókennsla. Framan af var það einkakennsla en árið 1978 flutti Dísa upp á Akranes og kenndi þar við Tónlistarskólann. Hún þótti framúrskarandi kennari og vinsæl af nemendum sínum.
Dísa var einlægur sósíalisti að lífsskoðun og hafði sterkar skoðanir á hvern veg þjóðfélaginu væri best stjórnað. Hún tók virkan þátt í starfi Vinstrihreyfingarinnar, sem stóð henni næst í þeim efnum.
En tónlistin var köllun Dísu og ástríða. Hún hafði aflað sér góðrar menntunar og æfði sig grimmt til að ná betri tökum á hljómborðinu. Hún var fullkomnunarsinni og var aldrei ánægð með eigin frammistöðu.
Auk þess að kenna lék Dísa mikið undir hjá einsöngvurum og kórum. Ég ætla að hún hafi verið í lengstu og nánustu sambandi við Guðmundu Elíasdóttur söngkonu við undirspil og síðan ævilanga gagnkvæma vináttu.
Þá átti Dísa fjölda vina sem vert væri að nefna til sögunnar og hún minntist oft á. Þó vil ég geta Svanhildar Sveinbjörnsdóttur sem undir það síðasta kom oft og söng við undirleik hennar á Hrafnistu, Dísu til ómældrar gleði. Veit ég til að fólk sem nærstatt var naut þessara tónleika.
Það er ekki hægt að segja annað um Dísu en að hún hafi verið mjög vel gerð. Hún var glaðlynd og naut þess að hitta fólk og var rausnarkona heim að sækja. Hér skal einnig nefna hið góða fólk hjá velferðarsviði Reykjavíkur sem aðstoðaði Dísu síðustu árin sem hún dvaldi á heimili sínu áður en hún fór á Hrafnistu og urðu góðvinir hennar og er þeim hér þakkað sérstaklega sem og starfsfólki Hrafnistu. Þá er ekki hægt að minnast hennar án þess að geta þess að hún var mikill dýravinur. Margir útigangskettir hafa átt henni líf sitt að launa eða að minnsta kosti sælustund í vetrarhörkum.
En líf Dísu var tónlist. Þegar hún settist við píanóið hvarf hún inn í heim tónlistarinnar. Hún varð ákveðin á svip, allt að því hörð í einbeitingunni. Það komst ekkert annað að en að skila nótunum frá sér í anda tónskáldsins.
Þegar ég skrifa þetta finnst mér ég vera staddur á Grundarstíg 15, þar sem Dísa sat löngum við píanóið, og heyri hana spila eina af sónötum Beethovens en hann var henni kærari en önnur tónskáld.
Þannig er gott að minnast hennar.
Þorsteinn Pétursson.
Þeir sem höfðu þá hamingju að stunda nám við Verslunarskóla Íslands, þegar dr. Jón Gíslason, sá framúrskarandi kennari, var þar skólastjóri, fylltust lotningu, þegar þeir gengu fram hjá húsinu nr. 15 við Grundarstíg. Þar áttu heima hjónin María Ólafsdóttir húsfreyja og Ríkarður Jónsson myndhöggvari. Ríkarður var maður óvenjulega fjölhæfur og listrænn. Hann var leturgrafari, teiknari, listaskáld, raddmaður góður, prýðilegur kvæðamaður, sagði ákaflega vel frá og var hermikráka í þeim þyngdarflokki, að hann hefði trúlega orðið kúnstner á leiksviði, ef hann hefði haldið út á þá braut. Hann var gæðadrengur og prúðmenni.
Þeim Maríu og Ríkarði varð fjögurra barna auðið; elstur var Már arkitekt, þá Björg Sóley húsfreyja og yngstar voru tvíburasysturnar Ólöf, einn af stofnendum Sjálfsbjargar, og Ásdís Elísabet píanókennari.
Ólöf Ríkarðsdóttir dvaldist síðustu æviár sín á Hjúkrunarheimilinu Eir. Hún var sterkvel gefin, ræðin og skemmtileg; sagnabrunnur og kunni ógrynni af ljóðum og ferskeytlum og var óspör að fara með þetta fyrir gestinn. Ólöf andaðist hinn 26. nóvember 2017 á 96. aldursári sínu.
Hinn 14. júní 2022 hélt Ásdís upp á 100 ára afmæli sitt í húsi þeirra systra nr. 18 við Klukkurima. Þar var stórmyndarlega á borð borið, sem vænta mátti. Afmælisbarnið spilaði fyrir viðstadda á fortepiano sitt, og það með miklum ágætum. Árið áður hafði Ásdís haldið upp á 99 ára afmæli með sama höfðingsskap. Þegar Ásdís fékk inni á Hrafnistu í Hafnarfirði hafði hún slaghörpuna með sér og spilaði á hverjum degi.
Hún fékk vikulega heimsókn Svanhildar Sveinbjörnsdóttur söngkonu og lék undir söng hennar.
12 ára hóf Ásdís að læra á orgelharmoníum og píanó eignaðist hún þremur árum síðar. Fyrsti píanókennari hennar var Katrín Viðar. Þegar Ásdís komst til vits og ára hóf hún að kenna á píanó og kenndi m.a. lengi við Tónlistarskóla Akraness í skólastjóratíð þeirra Hauks Guðlaugssonar og Þóris Þórissonar. Um hríð átti hún heima í Svíþjóð og spilaði þá undir við ballettkennslu.
Ásdís var viðbrigðavandaður píanókennari. Hún varaði jafnan nemendur sína við því að snerta fílabein nótnanna hörðum fingrum, en hvatti þá til þess heldur að drepa niður á lyklana dúnmjúkum púðum fingurgómanna. Syngjandi stíl vildi hún framkalla með því að slá nótuna alveg niður í botn, enda yrði tónninn ekki fullburða nema nótunni á hljómborðinu væri þrýst alveg niður. Þá minnti hún og á, að fjöldi nemenda hefði tilhneigingu til þess að leika hljóma þannig, að sumir tónarnir yrðu skýrir, en aðrir heyrðust varla. Og eina meginreglu brýndi hún jafnan fyrir nemendum: Alltaf að láta fingurna vera kyrra á nótunum, þegar leikið er, eða með öðrum orðum: Þegar fingrunum er lyft á ekki að hafa það á tilfinningunni, að þeir hafi sagt skilið við flöt nótunnar. Þetta kvað hún myndi gera píanóleikinn jafnari og áferðarfallegri.
Guð blessi minningu merkrar konu og tryggrar vinkonu. Hann verndi og styrki ástvini Ásdísar Elísabetar Ríkarðsdóttur.
Gunnar Björnssonpastor emeritus.