Pjakkur skemmtir sér á hrekkjavökudaginn í Hong Kong. Það getur verið agalega gaman að þykjast vera einhver annar en maður er, einn dag á ári. Það er verra þegar heilt stjórnkerfi hagræðir sannleikanum árið um kring.
Pjakkur skemmtir sér á hrekkjavökudaginn í Hong Kong. Það getur verið agalega gaman að þykjast vera einhver annar en maður er, einn dag á ári. Það er verra þegar heilt stjórnkerfi hagræðir sannleikanum árið um kring. — AFP/Peter Parks
Ég stelst stundum til að lesa slúðurfréttir af Íslendingum sem finna sig knúna til að reyna að sýnast merkilegri en þeir eru, yfirleitt með því að búa til glansmynd af sjálfum sér á samfélagsmiðlum. Brellan er alls ekki svo flókin, og þeir sem hafa…

Ég stelst stundum til að lesa slúðurfréttir af Íslendingum sem finna sig knúna til að reyna að sýnast merkilegri en þeir eru, yfirleitt með því að búa til glansmynd af sjálfum sér á samfélagsmiðlum. Brellan er alls ekki svo flókin, og þeir sem hafa náð góðu valdi á þessu listformi rata stundum í blöðin fyrir það eitt að eyða um efni fram í lúxusjeppa, eða hleypa jafnvel blaðamanni og ljósmyndara inn í fataskápinn sinn til að skrásetja alla merkjavöruna.

Ekki veit ég hvað þetta fólk hefur upp úr því að sýnast, nema því þyki það svona óbærileg tilhugsun að hverfa í fjöldann.

Fólk sem býr í milljónasamfélögum getur hins vegar notað sýndarmennskuna til að koma ár sinni vel fyrir borð – eða það hélt Calvin Lo að minnsta kosti. Íslenskir áhrifavaldar og samfélagsmiðlastjörnur eru algjörir viðvaningar í samanburði við þennan undarlega athafnamann frá Hong Kong.

Uppgerðin uppmáluð

Þegar blaðamönnum Forbes tóku að berast ábendingar, héðan og þaðan, um að Lo ætti heima á milljarðamæringalista útgáfunnar þá fannst þeim strax skítalykt af málinu: Það gæti vel verið að Lo, sem stýrir nokkuð stöndugri líftryggingamiðlun, væri sterkefnaður en af rekstri hans og umsvifum að dæma væri hæpið að hann væri milljarðamæringur.

Þegar Lo boðaði fulltrúa Forbes á sinn fund, til að ræða hvort hann ætti heima á listanum, setti hann úthugsað leikrit á svið. Hann þóttist vera ósköp hógvær og hlédrægur og afhuga því að láta of mikið á sér bera og þess vegna tvístígandi um að útvega blaðinu gögn til að færa sönnur á auðæfi sín – nema kannski ef blaðamaðurinn héldi að það gæti hjálpað honum að eiga auðveldara með að ávinna sér traust annarra milljarðamæringa, svo hann gæti selt þeim tryggingar.

Lo hafði þá í tvö ár lagt á ráðin, með teymi almannatengla og lögfræðinga sem samverkamenn. Honum hafði meira að segja tekist að fá blaðamenn frá BBC, CNBC, Financial Times, Reuters og fjölda annarra virtra fjölmiðla til að kalla hann milljarðamæring í greinum sínum. Svo hafði Lo líka afskaplega gaman af að baða sig í sviðsljósinu og tjá sig við fjölmiðla um allt og ekkert: fyrr en varði höfðu alls konar sögur spunnist í kringum hann og átti kauði t.d. að eiga hlut í keppnisliði í Formúlu 1, vera eigandi lúxushótels í Taípeí, með íbúðir um allan heim og gráðu frá Harvard.

Eftir að hafa velt við hverjum steini gátu blaðamenn Forbes að lokum fullyrt að engin innistæða væri fyrir sögunum, og í besta falli næmi auður Lo 60 milljónum dala – sem er svo sem ekkert slor, en langt frá því að duga til að komast á milljarðamæringalistann. Í sumar áætlaði Forbes að auðæfi Lo og foreldra hans væru samanlagt minna en 200 milljóna dala virði.

Lo á ekki lúxushótel í Taípeí, á ekki hlut í Formúlu 1-liði og enginn kannast við hann hjá Harvard.

Þegar Lo áttaði sig á að Forbes hafði séð í gegnum blekkingaleikinn kom annað hljóð í strokkinn og barst útgáfunni harðort bréf ritað fyrir hans hönd þar sem Lo fór fram á að vera ekki fyrir nokkra muni settur á milljarðamæringalistann, og hann kærði sig hreint ekkert um að vera til umfjöllunar í Forbes.

Lo komst ekki á listann, en blaðamenn Forbes gátu ekki stillt sig um að segja lesendum sínum alla söguna. Hafa margir reynt að láta útgáfuna halda að þeir væru milljarðamæringar, með alls kyns brellum og brögðum, en enginn fléttað jafn flókinn blekkingavef og Lo.

Engum sögum fer af því hvernig tryggingarekstri Lo hefur reitt af eftir að uppátæki hans rataði í fréttirnar, en varla hefur það hjálpað honum að gerast uppvís að öðru eins.

Belti og braut engin töfralausn

Xi Jinping hélt mikla veislu í október og bauð þangað leiðtogum helstu vinaþjóða Kína. Tilefnið var að tíu ár voru liðin frá því að kínversk stjórnvöld hleyptu af stokkunum innviða- og fjárfestingaverkefninu Belti og braut. Xi á sjálfur heiðurinn af verkefninu og hefur það verið burðarstólpinn í utanríkisstefnu Kína alla hans forsetatíð.

Hugmyndin er í grunninn afskaplega sniðug: Undanfarinn áratug hefur Kína varið um það bil 1.000 milljörðum dala í að fjármagna inn-
viðaverkefni víða um heim og þannig styrkt tengslin við þjóðir í öllum heimsálfum. Samstarfsríkin fá fyrir sinn snúð nýjar hraðbrautir, hafnir, lestarkerfi og raforkuver sem ættu að virka eins og vítamínsprauta fyrir
atvinnulífið og bæta vöru- og fólksflutninga jafnt innanlands og til um-
heimsins. Um leið verður til aukin þörf fyrir alls kyns vörur og þjónustu frá Kína og auðveldara að koma kínverskum varningi í hendur kaupenda, en í ofanálag hefur Kína oft séð sjálft um framkvæmdina. Í kaupbæti fær Kína heilmikil pólitísk ítök enda gefur Kína vinaþjóðum sínum ekki peninginn heldur lánar hann.

Fyrir sum fátækustu ríki veraldar
hefur Belti og braut verið himnasending, en þó tókst mörgum þeirra
að fara illa með fjármunina: Sum innviðaverkefnin hafa ekki reynst neitt sérstaklega arðbær og kostnaðar-
og fjármögnunaráætlanir hafa ekki staðist. Svo hafa auðvitað spilltir embættismenn og verktakar skarað eld að eigin köku, og deilt er um hversu vandlega var hugað að mögulegum umhverfisáhrifum risaframkvæmda á viðkvæðum svæðum. Sem dæmi um hvernig Belti og braut hefur gengið þá hefur fimmta hvert verkefni sem ræst var Pakistan núna verið lagt niður eða verið frestað um óákveðinn tíma vegna alls kyns örðugleika, og vandræðin verið því meiri eftir því sem verkefnin hafa verið stærri.

Mörg þeirra landa sem tekið hafa þátt í þessu hafa síðan átt í mesta basli með að endurgreiða Kína lánin og í seinni tíð hefur Belti og braut breyst í nokkurs konar neyðarlánaverkefni og talið að frá 2016 til 2021 hafi Kína afskrifað lán samstarfsþjóða sinna eða gefið út ný lán fyrir jafnvirði hátt í 200 milljarða dala.

Belti og braut hefur því ekki gengið eins og í sögu, né valdið meiri háttar umbreytingu á hagkerfum þeirra þjóða sem hafa nýtt sér stuðninginn. Í veislunni í Peking var samt almenn ánægja með framtakið og það segir sína sögu að Evrópusambandið ákvað árið 2021 að hleypa svipuðu verkefni af stokkunum, sem þau kalla Global Gateway, og verða settir 300 milljarðar evra í pottinn. Þá sammæltust G7-ríkin um það í fyrra að beina 600 milljörðum dala í innviðaframkvæmdir hjá þróunarlöndum, með þann yfirlýsta tilgang að skapa mótvægi við Belti og braut.

Erfiður seinni hálfleikur

Afmæli Beltis og brautar er líka upplagt tækifæri til að gera upp fyrstu tíu árin af valdatíð Xi Jinping. Framtíð Kína virtist svo afskaplega björt þegar hann settist í forsetastólinn, en undanfarið er eins og allt verði ógæfu Kína að vopni.

Koma Donalds Trumps markaði greinileg kaflaskil en hann sýndi Kína meiri hörku en áður hafði sést og blés til meiri háttar tollastríðs. Í kjölfarið var eins og viðhorfið til Kína hefði breyst og samstarfsviljinn minnkað í Washington og á Vesturlöndum – og breytti kjör Joe Bidens þar engu um. Svo kom kórónuveiran, svo fasteignabólan, og loks rann það upp fyrir fólki að mannfjöldaþróunin í Kína hefur verið svo slæm undanfarna áratugi að það stefnir í að íbúum landsins muni fækka um helming áður en öldin er hálfnuð. Meðalaldurinn í Kína hækkar hraðar en hjá nokkurri annarri þjóð og aldurssamsetning íbúanna stefnir í að verða þannig að hagkerfið mun hreinlega ekki vera starfhæft.

Nú síðast berast þær fréttir að erlendir fjárfestar sýni Kína takmarkaðan áhuga og mældist erlend fjárfesting um þriðjungi minni í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Fjárfestunum hugnast ekki vaxandi spenna á milli Kína og Taívans og það hjálpar heldur ekki að kínversk stjórnvöld virðast orðin ósköp uppivöðslusöm í seinni tíð, með alls konar leiðindi í garð erlendra fyrirtækja.

Erlendir fjárfestar og fyrirtæki í leit að hagkvæmum rekstrarskilyrðum, pólitískum stöðugleika, sterkum hagvexti og litlu veseni sjá hag sínum mun betur borgið í löndum á borð við Víetnam, Indland, Taíland eða hreinlega í Mexíkó þar sem launakostnaður er í dag orðinn lægri en í Kína.

En það hlýtur þó að vera til einhver lausn, eða hvað? Ekki skortir kínversku þjóðina hugvitsemi og dugnað, og með samstilltu átaki ætti í það minnsta að vera hægt að milda höggið. En þá komum við að öðrum vanda: hæfni stjórnsýslunnar og vilja Xi til að horfast í augu við þær áskoranir sem landið stendur frammi fyrir.

Fréttaskýrendur vilja sumir fullyrða að Xi lifi í eigin heimi, því hann hafi hreinsað svo rækilega til í sínu fylgdarliði – og í stjórnsýslunni eins og hún leggur sig – að enginn þori að færa honum annað en góðar fréttir. Menningarlegir þættir, og eðli hins kommúníska stjórnkerfis, skýra það hvers vegna kínversk stjórnsýsla hefur ítrekað og á öllum stigum gerst uppvís að því að ýmist fegra sannleikann eða stinga höfðinu í sandinn: enginn þorir að gagnrýna og þaðan af síður segja sannleikann ef hann er óþægilegur. Er vandinn svo djúpstæður að það er alkunna að þeim tölum sem hið opinbera safnar og birtir er ekki treystandi. Er það meira að segja vaninn að ef einhverjar mælistærðir í hagkerfinu taka að þróast í óæskilega átt þá einfaldlega hætta kínversk stjórnvöld að mæla.

Ef það á að takast að forða kínverska hagkerfinu frá því að fara á bólakaf myndi kínverska stjórnkerfið þurfa að byrja á því að læra af mistökum Calvins Lo, og hætta að þykjast.