Á snjólausri jörð sem nú er víðast hvar á landinu á fólk sem gengur til rjúpna auðveldara en ella með að komast á góðar slóðir. Rjúpuna má eins og nú háttar gjarnan finna í urðum, stórgrýti og skóglendi. Þar finnur fuglinn vé fyrir fálkanum sem er hennar helsti afræningi. „Mér heyrist á mönnum sem farið hafa á rjúpu að vel hafi gengið. Gjarnan nást 3-4 fuglar og eftir kannski tvær ferðir er komið nóg í jólamatinn,“ segir Dúi Landmark rjúpnaveiðimaður í samtali við Morgunblaðið.
Dúi er höfundur bókar um rjúpnaveiði og er í góðu sambandi við menn sem sportið stunda. Veiðitímabilið hófst 20. október og stendur til 21. nóvember – að miðvikudögum og fimmtudögum frátöldum. „Þetta er ágætt fyrirkomulag nema hvað veiðibann þessa tvo daga í miðri viku er óþarft. Í dag er viðtekið að gæta hófs og ef veiða mætti alla daga vikunnar myndi slíkt jafna álagið betur,“ segir Dúi. Síðustu daga segir hann marga veiðimenn hafa farið til dæmis á Kjöl til veiða, einhverjir hafi líka verið nærri Skjaldbreið og á Hrunamannaafrétti. Alltaf sé rjúpna von í öllum landshlutum, mestu skipti að vera á réttum stað og réttum tíma, fylgjast með veðri og vindum.