Skínandi Elsta sagan í smásagnasafninu sem nú er komið út á vegum JPV útgáfu er tíu ára gömul en þá yngstu skrifaði Ólafur í nóvember í fyrra.
Skínandi Elsta sagan í smásagnasafninu sem nú er komið út á vegum JPV útgáfu er tíu ára gömul en þá yngstu skrifaði Ólafur í nóvember í fyrra. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ólafur Gunnarsson er einn af þessum stóru höfundum. Svo stór að manni finnst eiginlega að öll viðtöl við Ólaf verði að byrja á þeim nótum. Ólafur er auðvitað kominn á þann stall – fyrlr löngu kannski – og höfundarverkið ber þess vitni

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Ólafur Gunnarsson er einn af þessum stóru höfundum. Svo stór að manni finnst eiginlega að öll viðtöl við Ólaf verði að byrja á þeim nótum. Ólafur er auðvitað kominn á þann stall – fyrlr löngu kannski – og höfundarverkið ber þess vitni. Þar með talið það nýjasta sem út er komið hjá JPV útgáfu, 12 smásögur í safni sem ber titilinn Herörin og fleiri sögur.

Aðspurður segir Ólafur að smásögurnar eigi fátt sameiginlegt annað en að vera eftir hann sjálfan.

„Þetta eru sögur sem koma til mín á löngum tíma. Elstu sögurnar eru líklega tíu ára gamlar en sú yngsta var að mig minnir skrifuð í nóvember á síðasta ári. Til mín kemur ein og ein saga. Svo eftir einhvern tíma sé ég að það hillir undir bók og þá fer ég kannski að einbeita mér að því að safna þeim saman svo úr verði sæmileg heild.“

Niðurstaða fengin á nokkrum blaðsíðum

Ólafur segist yfirleitt verða mjög snemma var við hvort hann hafi í höndunum sögu sem vert er að klára.

„Yfirleitt er það þannig að ef ég er kominn með hugmynd þá þarf ég að flýta mér eins mikið og ég get við að vélrita til að halda í við söguna sem er að fæðast.“

Já, gerist það svona hratt?

„Já, ef það er eitthvað í gangi. En ef það kemur hik eða töf þá yfirleitt verður ekkert úr sögunni.“

Kemurðu þá aldrei aftur að henni síðar?

„Jú, jú, það kemur fyrir að ég reyni aftur við grunnhugmyndina en þá reyni ég að byrja frá nýjum vinkli. Hugmyndir eiga það til að gerjast í kollinum á mér lengi, stundum í mörg ár og svo allt í einu þá ríður það yfir mig að þarna sé komin smásaga og þá gerast hlutirnir oft hratt. Ein sagan í bókinni „Gagnrýnandinn“ er til dæmis skrifuð í einni striklotu.

Hvað er það við smásöguna sem heillar þig?

Það er formið fyrst og fremst. Maður getur komið skilaboðum mjög hratt til skila. „Gagnrýnandinn“ er dæmi um sögu þar sem margir þræðir eru dregnir saman og niðurstaða fengin á aðeins nokkrum blaðsíðum.

Tröllakirkja í einni setningu

Ólafur segist ekki hafa neinar skýrar fyrirmyndir þegar kemur að smásagnahöfundum. Enda eigi hann sér aðeins tvo uppáhaldshöfunda.

„Annars vegar er það Dostojevskí og hins vegar bandaríski höfundurinn Thomas Wolfe sem ekki má rugla saman við Tom Wolfe. Thomas Wolfe var uppi nokkru fyrr, lést aðeins 37 ára gamall árið 1938 og skrifaði stórmerkilegar fjölskyldusögur. Hann var einn af þessum stóru höfundum og oft nefndur í sömu andrá og Fitzgerald og Hemingway. Alveg stórkostlegur og ég öfunda alla sem eiga hann eftir. Alveg ótrúlegt hvað honum tókst að koma miklu efni frá sér. Margra manna ævistarf.“

Átt þú sjálfur margar sögur óskrifaðar?

„Maður heldur oft að maður sé þurrausinn og ólíklegt að það komi meira frá manni en síðan fær maður skyndilega hugmynd og er þá farinn aftur af stað. Skáldsagan Tröllakirkja er til dæmis byggð á þeirri einföldu hugmynd eða spurningu hvað kemur fyrir þann mann sem hefur ekki hugrekki til að viðurkenna að hann sé kristinn? Það er skáldsagan í einni setningu má segja. Þannig að þegar mér dettur eitthvað svona í hug þá byggi ég skáldsögu eða smásögu utan um hugmyndina.“

Talandi um Tröllakirkju. Sú bók kom út á þýsku á sínum tíma og seldist vel. Þig hefur ekki langað til að reyna þig frekar við þann markað?

„Það er ekki einfalt mál. Hún var keypt af þessu forlagi árið 1997 og svo tóku þeir sér sjö ár til að koma henni út. Þannig að það er erfitt að fylgja því eftir eða hafa þolinmæði fyrir þannig útgáfu. En hún gekk ágætlega í Þýskalandi. Þjóðverjar hafa verið áhugasamir um íslenska höfunda.“

Allur tilfinningaskalinn

Sestu niður á hverju degi og skrifar?

„Ef ég er með eitthvað í gangi þá geri ég það. Get oft setið mjög langa daga. Lengsti dagurinn er held ég 21 klukkustund. En ef ekkert er að ganga gengur lítið að rembast.“

Hvað gerirðu þá?

„Þá stend ég upp og fæ mér kaffi. Eða fer í göngutúr.“

Ertu hamingjusamur þegar þú ert að skrifa eða er þetta eintóm kvöl og pína?

„Ef ég veit hvað ég er að gera þá er ég hamingjusamur. Eins og sagan „Kennitalan“ þá valt hún upp úr mér, mér til mikillar ánægju. Maður getur haft gaman af þessu en þetta getur líka verið mjög erfitt og maður verður stundum reiður og frústreraður og allur skalinn.“

Finnst þér þú vera orðinn öruggari rithöfundur en þú varst? Veistu hvað virkar?

„Maður veit aldrei hvað virkar. Það sem virkar fyrir höfundinn virkar kannski ekki fyrir neinn annan.“

Höf.: Höskuldur Ólafsson