Sé leikurinn í gærkvöld borinn saman við fyrri viðureign liðanna í Bochum í lok september þá var frammistaða íslenska liðsins allt önnur og betri. Þjóðverjar réðu vissulega ferðinni mestallan tímann en Ísland átti samt betri spilkafla, hélt boltanum betur, náði af og til að spila sig vel út úr pressunni og það var meira sjálfstraust í aðgerðum liðsins.
Núna unnu miðjumennirnir mörg návígi og komu sér af og til ágætar stöður, í stað þess að vera alltaf skrefinu á eftir eins og í Bochum. Litlu munaði að falleg sókn seint í leiknum skilaði jöfnunarmarki, sem hefði verið sætt. Sanngjarnt eða ekki, að því hefði enginn spurt.
Íslenska liðinu gekk illa að koma í veg fyrir að Þjóðverjar dældu fyrirgjöfum inn í vítateiginn og þeirra hættulegustu færi komu flest þannig. Vítaspyrnan sem færði þeim fyrra markið kom einmitt eftir fyrirgjöf.
Telma Ívarsdóttir átti góðan leik í markinu og hennar einu mistök komu í vítaspyrnunni. Hún var þó ekki nógu örugg í að spila boltanum frá markinu. Glódís Perla Viggósdóttir stýrði varnarleiknum vel að vanda og steig varla feilspor en hefði eflaust viljað ná að loka á Klöru Bühl samherja sinn hjá Bayern þegar hún skoraði seinna markið.
Sædís Rún Heiðarsdóttir kemur mjög öflug inn sem vinstri bakvörður, eftir að hafa verið fyrirliði U19 ára landsliðsins fyrr á árinu. Hún ætti að gera tilkall til stöðunnar í næstu 100 landsleikjum eða svo.