Bragi Guðbrandsson
Bragi Guðbrandsson
Í skýrslu Evrópuráðsins segir að barnahús megi nú finna í 28 aðildarríkjum ráðsins og tíu ríki til viðbótar áforma að koma slíkum úrræðum á fót.

Bragi Guðbrandsson

Barnahúsið á Íslandi á aldarfjórðungs afmæli í dag. Lætur nærri að frá opnun hafi um sex þúsund börn notið þjónustu þess undir handleiðslu sérþjálfaðs fagfólks. Starfsemin gjörbreytti rannsókn og meðferð kynferðisbrota gagnvart börnum, tryggði þeim faglega læknisskoðun og áfallameðferð ásamt ráðgjöf fyrir foreldra barnanna. Barnahúsið var innblásið af fyrirkomulagi skyldra stofnana í Vesturheimi og færði sér í nyt sérþekkingu þeirra og reynslu. Á hinn bóginn höfðu stoðir hins norræna velferðarsamfélags sem og meginreglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna afgerandi áhrif á uppbyggingu og starfsemi Barnahúss. Þar munar mestu að frá upphafi var áhersla lögð á að réttarvörslukerfið gegndi lykilhlutverki í framkvæmdinni. Í Barnahúsi eru hlutverk barnaverndar, heilbrigðisþjónustu og réttarvörslukerfisins samþætt með bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi og þar sem rödd barnsins er lögð til grundvallar öllum aðgerðum. Það fyrirkomulag sem felst í skýrslutöku af börnum fyrir dómi á rannsóknarstigi þótti nýstárlegt en þannig er komist hjá því að barnið þurfi að þola íþyngjandi bið og samprófun við meðferð máls fyrir dómi löngu eftir að barnið hefur fyrst sagt frá ofbeldinu.

Fljótlega eftir opnun vakti starfsemi Barnahúss athygli erlendis og hugtakið „barnahus“ öðlaðist alþjóðlega merkingu. Strax árið 2002 hlaut það útnefningu sem framúrskarandi fyrirkomulag í rannsóknarskýrslu Save the Children um viðbrögð við kynferðisofbeldi gegn börnum í Evrópu. Árið 2006 veittu ISPCAN, alþjóðasamtök fagfólks í barnavernd, Barnahúsi svonefnd „Multidisciplinary Award“. Um þær mundir hófst síðan útrás Barnahúss á Norðurlöndum, fyrst í Svíþjóð 2005, þá í Noregi 2007 og í Danmörku 2013, en Danir voru fyrstir til að festa starfsemi barnahúss í löggjöf. Þessi ríki einskorðuðu starfsemi barnahúsa ekki við kynferðislegt ofbeldi heldur var öllum ofbeldismálum þar sem börn voru þolendur og vitni vísað þangað. Fylgdum við Íslendingar því fordæmi nokkrum árum síðar.

Útbreiðsla barnahúsa á meginlandi Evrópu hófst í kjölfarið, um Eystrasaltsríkin, til landa í Mið-Evrópu svo sem Slóveníu, Ungverjalands, Þýskalands og suður til Spánar og Kýpur. Þá hafa England, Írland og Skotland opnað barnahús og fjölmörg lönd í Austur-Evrópu eru að undirbúa starfsemi barnahúsa. Á vegum Eystrasaltsráðsins hefur verið komið á fót sérstöku verkefni með stuðningi Evrópusambandsins til að veita ríkjum Evrópu tæknilega aðstoð við að koma á fót barnahúsum, svonefnt „Promise project“ sem hefur kynnt til sögunnar gæðastaðla fyrir barnahús.

Í skýrslu Evrópuráðsins, „Barnahus, a European journey“, sem gefin var út í síðasta mánuði, kom m.a. fram að barnahús eða hliðstæðar stofnanir megi nú finna í 28 aðildarríkjum ráðsins og tíu ríki til viðbótar áforma slík úrræði. Evrópuráðið hefur stutt mörg ríki við uppbyggingu barnahúsa enda endurspeglast hugmyndafræði þess í samþykktum ráðsins. Þetta get ég borið vitni um en ég var þátttakandi í að semja „Tilmæli Evrópuráðsins um barnvænlegt réttarkerfi“ sem og hinn bindandi samning um vernd barna gegn kynferðisofbeldi og kynferðislegri misneytingu, svonefndan „Lanzarote-samning“, sem hvor tveggja tóku gildi árið 2010. Eftirlit með framkvæmd hins síðarnefnda var á vegum Lanzarote-nefndarinnar, en ég var fulltrúi Íslands í þeirri nefnd um árabil og kjörinn formaður árin 2014 til 2016. Sú staða bauð upp á tækifæri til að tala fyrir Barnahúsi í fjölmörgum ríkjum í umboði nefndarinnar.

Samþykktir Evrópuráðsins, bæði Lanzarote-samningurinn og Tilmælin um barnvænleg réttarkerfi, hafa haft áhrif á þróun löggjafar í mörgum Evrópuríkjum. Bæði hefur það gerst með beinum hætti en jafnframt óbeint, í gegnum dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Einkum hafa nýlegir úrskurðir dómstólsins beinlínis kveðið á um að ríkjum sé skylt að beita ákvæðum Lanzarote-samningsins sem og Tilmæla Evrópuráðsins um barnvænlegt réttarkerfi við dómsúrlausn þessara mála með það fyrir augum að tryggja réttindi og reisn barna í viðkvæmri stöðu.

Einn stærsti sigur barnahúsa er fólginn í ákvörðunum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á síðustu árum. Tilmæli nefndarinnar til aðildarríkja í kjölfar skýrslugjafar um framkvæmd Barnasáttmálans er varðar kynferðisofbeldi gegn börnum hafa nær undantekningarlaust verið fólgin í að mæla með barnahúsum eða í það minnsta viðbragðskerfi þar sem börn njóti hliðstæðra lausna með þverfaglegri og barnvænlegri nálgun, að börn geti gefið vitnisburð sinn án tafar á rannsóknarstigi máls sem hafi sönnunargildi fyrir dómi og að börnin og fjölskyldur þeirra fái viðeigandi meðferð. Reikna má með að afstaða nefndarinnar skili sér í útbreiðslu barnahúsa til fleiri heimsálfa í komandi framtíð.

Ég óska þeim sem komið hafa að starfi Barnahúss á Íslandi fyrr og síðar, barnaverndarstarfsmönnum, læknum, hjúkrunarfræðingum, lögreglu, saksóknurum og dómurum, að ógleymdu frábæru starfsfólki hússins, til hamingju með þessi tímamót. Störf þeirra hafa verið fyrirmynd sem þúsundir barna njóta nú í öðrum löndum.

Höfundur er varaformaður Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Höf.: Bragi Guðbrandsson