Alþingi setur mikið af lögum og stundum er eins og þingmenn og ráðherrar telji árangur mælast í setningu sem flestra laga og reglna. Vissulega þarf oft að setja ný lög og reglur, en örugglega ekki eins oft og gert er og ekki eins íþyngjandi og raun ber vitni. En vandinn við lagasetningu er líka sá að lög sem einu sinni hafa verið sett eru of sjaldan felld úr gildi. Þar ríkir óþarfa tregðulögmál og full ástæða er til að hreinsa til í lagasafninu endrum og sinnum í það minnsta.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um brottfall laga um gæðamat á æðardúni. Flutningsmenn eru Óli Björn Kárason og nokkrir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gæðavottun laga um gæðamat á æðardúni sé „í stórum dráttum sniðin að 40-50 ára gömlum viðskiptaháttum sem setur starfseminni óeðlilegar skorður“. Þá segir að atvinnugreinin hafi verið í sókn undanfarin ár og hafi áhugi á að taka þátt í fullvinnslu æðardúns farið vaxandi enda hafi æ fleiri gert sér grein fyrir mikilvægi dúntekju fyrir náttúruvernd, ferðaþjónustu og þjóðlífið almennt.
Þá segir í greinargerðinni að með breytingunum sem frumvarpið felur í sér verði „mat dúnmatsmanna aflagt en Matvælastofnun mun hins vegar áfram annast útgáfu heilbrigðisvottorða, sbr. lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim“. Enn fremur að breytingarnar séu gerðar „í því skyni að auka skilvirkni í stjórnsýslu í þágu atvinnulífs og almennings. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun ábyrgð á gæðum æðardúns verða í höndum framleiðenda sjálfra líkt og almennt viðgengst í atvinnulífinu.“
Víða í atvinnulífinu er haldið uppi óþörfu opinberu eftirliti sem er í senn íþyngjandi fyrir skattgreiðendur og dregur þrótt úr fyrirtækjum í landinu. Afnám laga um gæðamat á æðardúni er ekki stórt innlegg í þessu efni, en mögulega nægilega smátt til að þingið treysti sér í þessa lagahreinsun.