Slagkraftur Flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford sést hér við eldsneytistöku en skipið er nú við eftirlitsstörf ásamt fleirum við strendur Ísraels.
Slagkraftur Flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford sést hér við eldsneytistöku en skipið er nú við eftirlitsstörf ásamt fleirum við strendur Ísraels.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í brennidepli Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Þegar fregnir bárust af grimmdarverkum palestínsku hryðjuverkasamtakanna Hamas innan landamæra Ísraels var eitt fyrsta verk Bandaríkjaforseta að óska eftir upplýsingum um staðsetningu flugmóðurskipa og senda án tafar flotadeild upp að ströndum landsins. Er þetta í fullu samræmi við verklag Bandaríkjanna þegar kemur að óvæntri krísustjórnun. En þrátt fyrir ný vopnakerfi sem ógnað geta tilvist þessara skipa er fátt ef nokkuð sem jafnast á við þann mikla hernaðarmátt sem fylgir flugmóðurskipi. Og það er af þeim sökum sem margir af helstu herjum heims leggja aukna áherslu á þróun og smíði slíkra skipa.

Nick Childs, sérfræðingur hjá Alþjóðahermálastofnuninni í Lundúnum (International Institute for Strategic Studies, IISS), gerir viðbragð Bandaríkjanna við ódæðum Hamas 7. október sl. að umfjöllunarefni sínu, en hann sérhæfir sig í málefnum sjóherja og siglingaverndar.

Segir Childs ljóst að aðgerðir Hamas séu til þess fallnar að hleypa stöðugleika svæðisins í algert uppnám. Þannig sé raunveruleg hætta á að önnur vígasamtök, einkum Hezbollah í Líbanon, og ríki á borð við Íran dragist inn í átökin með beinum hætti. Og til að minnka líkur á því ákvað Bandaríkjaforseti að tefla fram tveimur flotadeildum sem leiddar eru af flugmóðurskipunum USS Gerald R. Ford og USS Dwight D. Eisenhower – einhver stærstu herskip heims og í hópi þeirra ellefu flugmóðurskipa sem Bandaríkin eiga í vopnabúri sínu. Á sama tíma tilkynnti Bandaríkjaforseti og varnarmálaráðuneytið Pentagon aukinn viðbúnað bandaríska heraflans í Mið-Austurlöndum, en þær aðgerðir vöktu þó ekki nærri því jafn mikla athygli og koma flugmóðurskipana – sem sögð er skýr skilaboð til allra þeirra sem kunna að hafa í hyggju að kasta olíu á þann eld sem nú brennur.

Nútíminn ógnar risunum

Á sama tíma og flugmóðurskip táknar hernaðarmátt tiltekins ríkis eru þau efst á lista óvinar yfir skotmörk. Ör þróun í vopnakerfum á borð við skipaeldflaugar og árásardróna ógnar nú mjög tilvist þessara miklu risa sem flugmóðurskip eru. Eitt þeirra ríkja sem nú leggja höfuðáherslu á flugmóðurskipabana er útþenslustefnuríkið Kína.

Rifjar Nick Childs upp að árið 1996 hafi Bandaríkin sent tvær flotadeildir leiddar af flugmóðurskipum til stuðnings Taívan í mikilli deilu þeirra við Kína á Suður-Kínahafi. Þetta útspil hafi, að sögn margra hernaðarsérfræðinga, sannfært stjórnvöld í Beijing um mikilvægi þess að búa yfir vopnakerfi sem grandað getur kjarnorkuknúnu flugmóðurskipi með eins fáum höggum og kostur er. Hófst þá af alvöru hönnun á öflugum skipaeldflaugum og ofurhljóðfráum vopnakerfum.

Childs veltir því upp hvort kafbátar muni með tímanum leysa flugmóðurskip af þegar senda þarf hugsanlegum andstæðingum skýr hernaðarleg skilaboð. Bendir hann á að árið 2017 hafi þáverandi Bandaríkjaforseti, Donald J. Trump, lagt mikla áherslu á að hann hafi gefið skipun um að senda eldflaugakafbát (SSBN) af Ohio-gerð upp að ströndum Kóreuskaga, en Ohio-bátar hafa það hlutverk sérstaklega að flytja kjarnavopn af gerðinni Trident. Á sama tíma sendi forsetinn þó einnig flugmóðurskip á sömu slóðir.

Alls eiga níu ríki heims skip sem kalla mætti flugmóðurskip. Vert er þó að hafa í huga að skip þessi eru afar ólík og kemst ekkert ríki nálægt stöðu Bandaríkjanna þegar kemur að fjölda flugmóðurskipa, stærð þeirra og slagkrafti. Eru Bandaríkin algerlega sér á báti og með yfirburðastöðu á heimsvísu.

Flugmóðurskip Bandaríkjanna eru sem fyrr segir ellefu talsins, öll kjarnorkuknúin og hönnuð til að bera mikið magn af flugvélum, þyrlum, skotfærum, vistum og landgönguliðum. Um fimm þúsund manns eru um borð hverju sinni.

Jafn ólík og þau eru mörg

Japanir eiga fjögur þyrluflugmóðurskip og er verið að breyta tveimur þeirra þannig að þau geti einnig hýst nokkrar orrustuþotur. Taívanar eiga eitt þyrluflugmóðurskip og Ítalir tvö þyrluþjónustuskip. Annað þessara skipa getur einnig hýst fáeinar orrustuþotur. Þá eiga Kína, Indland og Bretland tvö flugmóðurskip hvert og Frakkland og Rússland hvort sitt skip. Flugmóðurskip Rússlands er, líkt og annað tveggja flugmóðurskipa Kína, arfleifð Sovétríkjanna sálugu og þekkt fyrir bæði bilanir og óáreiðanleika.

Flugmóðurskipakostur Bretlands er nýr af nálinni og til marks um breyttar áherslur þeirra í hernaði. Svipað er uppi hjá Indverjum sem vilja sitt þriðja flugmóðurskip sem fyrst og segjast Frakkar stefna að því að leggja núverandi skipi og byggja annað stærra. Hið sama á við um Kína sem hefur í hyggju að þróa enn stærri og öflugri skip. Þá hafa önnur ríki, m.a. Suður-Kórea, sagst vilja þróa flugmóðurskip á komandi árum.

Það er því ljóst, þrátt fyrir hraða þróun skipabana, að flugmóðurskip munu fylgja herveldum heims inn í framtíðina og mun fjöldi þeirra og stærð halda áfram að endurspegla hernaðarmátt viðkomandi ríkis.

Höf.: Kristján H. Johannessen