Þórir Friðriksson fæddist 13. apríl 1937 á Höfða á Höfðaströnd í Skagafirði. Hann lést 22. september 2023 á hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Foreldrar Þóris voru Friðrik V. Guðmundsson, f. 13.10. 1898, d. 26.6. 1974, og Þóra Jónsdóttir, f. 18.9. 1908, d. 13.4. 1937, Þóra dó af barnsförum þegar Þórir fæddist.

Þórir fór í fóstur til móðurforeldra sinna, Jóns Sigurðssonar, f. 26.9. 1870, d. 13.2. 1944, smiðs og bónda, og Níelsínu Kristjánsdóttur, f. 13.9. 1881, d. 19.4. 1959 í Stóragerði í Óslandshlíð.

Friðrik faðir Þóris gerðist tollvörður í Reykjavík og kvæntist Guðríði B. Hjaltested (Gógó), f. 8.9. 1914, d. 1.10. 2014. Þau eignuðust tvo syni, Þórleif prentara, f. 1948, og Friðrik Þór kvikmyndaleikstjóra, f. 1954.

Þórir flutti til Reykjavíkur til föður síns um fermingu. Hann gekk í Lindargötuskólann og seinna Iðnskólann, þar sem hann lærði húsasmíði og varð meistari í því fagi, og starfaði við það alla tíð.

Þórir kvæntist hinn 1. júlí 1967 Þórdísi Þorbergsdóttur, f. 24.6. 1938, d. 18.2. 2004. Dóttir hennar er Rósa Sólrún Jónsdóttir, f. 1960. Maður hennar var Guðni Guðnason, f. 14.2. 1960, d. 20.4. 2020. Þeirra synir eru Þórir Már, f. 1992, sambýliskona Elísa Arnarsdóttir, f. 1993, dóttir þeirra Vaka Rós, f. 2019, og Svavar Leó, f, 1994, eiginkona hans er Lotta Kaarina Nykänen, f. 1994, þeirra dóttir er Esja Kaarina, f. 2020.

Þórir og Þórdís byggðu sér hús í Réttarbakka 25, og fluttu í það sumarið 1972, og bjó Þórir þar allt þar til hann flutti á Skjól haustið 2017.

Útför hans fer fram frá Áskirkju í dag, 1. nóvember 2023, klukkan 13.

Mig langar að rifja upp nokkrar minningar um bróður minn, Þóri. Hann fór yfir móðuna miklu ásamt sir Bobby Charlton jafnaldra sínum fyrir nokkrum dögum. Þessir tveir höfðingjar áttu það sameiginlegt að báðir voru þeir miklir fagmenn í sinni atvinnu, miklir heiðursmenn og öðrum fyrirmyndir.

Fyrsta minning mín af Þóri er þegar hann labbaði niður Stórholtið með fótbolta vafinn í pappír og gaf mér í sex ára afmælisgjöf. Þegar ég tætti pappírinn utan af boltanum mátti vart sjá hvor væri glaðari, ég eða hann. Þórir var frá fyrstu stundu umhyggjusamur og ljúfur bróðir sem átti þó til að vera lúmskt stríðinn. Á þessum tíma kenndi Þórir mér skák og bridge, sem fjölskyldan spilaði öll vetrarkvöld.

Á sumrin fórum við í útilegur með tjald um allt land og var endastöðin fæðingarstaður Þóris, Höfði í Skagafirði. Faðir okkar tók aldrei bílpróf svo að Þórir keyrði Fíat 1400B um fjöll og firnindi. Bíllinn var ávallt drekkhlaðinn svo að mér er það ráðgáta hvernig hann komst á alla helstu ferðamannastaðina eftir holóttum malarvegum. Móðir mín eldaði á prímus, sat á trékubbi í miðju tjaldinu og skammtaði matinn eins og japanskur samúræi. Þórir hafði ótrúlega þolinmæði gagnvart skrautlegu fjölskyldulífi og taldi ekki eftir sér að spila fótbolta við 17 árum yngri strákpjakk.

17. júní 1963 fluttum við í Karfavog 52 og fljótlega eftir það varð Þórir ástfanginn af Þórdísi Þorbergsdóttur frá Neðra-Núpi í Miðfirði í Húnavatnssýslu. Hún átti dóttur fyrir, Rósu Sólrúnu Jónsdóttur. Þórir og Dísa hófu svo búskap, fyrst í Barðavogi en síðar byggðu þau raðhús í Réttarbakka 25, þar sem þau bjuggu sitt framtíðarheimili með Rósu. Við sem áttum rætur að rekja til Höfða héldum hressileg þorrablót þar sem söngurinn var í fyrirrúmi, eins og Skagfirðinga er siður. Dísa og Þórir áttu eitt númer er þau sungu tvísöng í Fiskimannaljóði frá Kaprí. Þetta var stórkostlegur flutningur sem yljar manni enn.

Dísa lést í febrúar 2004 og varð það Þóri mikill missir. Síðan fór að bera á alzheimer-einkennum. Eitt sinn fór ég í kaffi til hans á Réttarbakkanum. Hann bauð upp á nýbökuð vínarbrauð með kaffinu og ég spurði hann hvort hann væri ekki til í að koma á tónleika með karlakórnum Heimi daginn eftir. Hann hélt nú það. Þegar ég mæti að sækja hann eins og umsamið var mundi hann ekkert eftir samtalinu en hann dreif sig í sitt fínasta púss og við brunuðum niður í Hörpu. Þegar þangað var komið lék hann við hvern sinn fingur og spjallaði við gamla kunningja úr Skagafirði eins og ekkert væri.

Síðustu árin var Þórir á Skjóli þar sem hann naut sín vel, sérstaklega meðan Hörður Felixson lifði því þeir tefldu mikið. Eftir að Hörður dó hrakaði Þóri enda lítið um hugarleikfimi. Þó kom ég eitt sinn að Þóri og nýjum vistmanni að tefla. Þórir var glaður í bragði og lék við hvern sinn fingur. Þá bendi ég Þóri á að andstæðingurinn hafi hrókerað tvisvar. „Það gerir ekkert til, ég er að mala hann.“

Hugur minn er hjá Rósu og sonum hennar, Svavari og Þóri Guðnasonum, og börnum þeirra.

Friðrik Þór
Friðriksson.

Hann Þórir frændi er dáinn. Enn einn af þeirri kynslóð er horfinn yfir móðuna miklu og eftir stöndum við, næsta kynslóð, og erum að verða elsta kynslóðin. Þórir frændi var aldrei kallaður annað en Þórir frændi í minni fjölskyldu. Hann og mamma ólust upp á sama heimili og það voru bara nokkrir mánuðir á milli þeirra. Þau voru alla tíð mjög náin og höfðu náið samband síðustu árin meðan heilsan leyfði.

Móðir Þóris dó þegar hann fæddist, og hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu, en mest hjá ömmu sinni eftir að afi hans dó. Þau bjuggu á sama heimili og afi minn og amma, svo mamma og hann voru mikið saman. Á þessum árum fannst engin áfallahjálp eða sálfræðimeðferð. Trúin hjálpaði mörgum, en örugglega alls ekki alltaf. Það var án efa skelfilegt áfall fyrir fjölskyldu og vini þegar Þóra frænka mín, ung móðir og eiginkona, lést af barnsförum. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir ungan dreng að alast upp hjá gamalli ömmu sem átti erfitt með að hemja beiskju sína gagnvart örlögunum.

Mér er í barnsminni þegar Þórir frændi ungur og ógiftur kom í heimsókn í Ósland og dvaldi nokkra daga. Við systkinin kölluðum hann „kallinn“, og þau frændsystkinin hlógu mikið að því saman. Þau héldu líka áfram að tala um sig sem „krakkana“ alveg fram á síðasta dag, þegar þau rifjuðu upp æskuárin. Síðan fór Dísa að koma með honum, en ég held að hann hafi verið „kallinn“ áfram.

Þórir frændi eignaðist ekki eigin börn, en Dísa átti dóttur fyrir. Honum þótti afskaplega vænt um Rósu og það kom ákveðinn glampi yfir „kallinn“ þegar hann talaði um afadrengina sína. Þau hafa sannarlega reynst honum vel og hugsað um hann fram á síðasta dag.

Ég er ekki trúuð á framhaldslíf, en í huganum sé ég fyrir mér þegar mamma heilsar honum hinum megin. Mamma dó snemma á þessu ári. Ég sé fyrir mér að hún taki á móti honum áður en hann hittir ömmu þeirra og þau hlæi saman og byrji samræðurnar „ja hún amma myndi segja …“, „eitthvað myndi ömmu finnast …“, „hvað heldurðu að amma segi núna“ o.s.frv. Ég sé frænda fyrir mér þar sem hann hlær og bumban hristist.

Þórir frændi var góður „kall“. Blessuð sé minning hans.

Aðstandendum öllum votta ég innilega samúð.

Ingibjörg K. Jónsdóttir.

Ég tók strax eftir Þóri þegar við byrjuðum í námi í húsasmíði haustið 1957. Þórir var glaðlyndur og gott andrúmsloft í kringum hann. Við urðum strax vinir og alla tíð upp frá því. Það er stutt síðan ég heimsótti hann á Skjól. Þá var líkaminn orðinn lúinn en hann var jafn hress í bragði.

Það var gott að vinna með Þóri og hann var duglegur til vinnu og drífandi. Við byrjuðum á svipuðum tíma að læra hjá Tómasi Vigfússyni húsasmíðameistara sem byggði Verkamannabústaðina. Við unnum við allar fjórar blokkirnar í Stigahlíð, blokkir í Bólstaðahlíð og síðar blokkir í Keldulandi.

Ég man eftir því að komið var að reisugilli í Bólstaðarhlíð. Þá ákváðum við Þórir að kaupa sína flöskuna hvor og bjóða verkamönnunum í veislu uppi á þaki. Ég fékk mér ekkert af þessu sjálfur en þetta var eftirminnilegt og virkilega ánægjulegt.

Við tókum sveinsstykki á sama tíma í desember 1961. Ég átti taka próf í að teikna sveinsstykki sama dag og við Dísa giftum okkur. Ég sagðist vera forfallaður og fékk að taka teikniprófið á mánudeginum á skrifstofu Iðnaðarsambandsins. Þórir smíðaði stiga með þremur þrepum sem sitt sveinsstykki. Mitt sveinsstykki var skápur með einni skúffu, allt gert í höndunum og skúffa geirnegld.

Strax eftir sveinsstykkið fór Þórir og keypti smurbrauð handa okkur. Tvær risasneiðar handa hvorum okkar með rækjum og nautakjöti og öllu meðlæti. Drukkum síðan hvor sína gosflöskuna með. Við borðuðum þetta svo saman til að halda upp á að hafa lokið sveinsstykkinu.

Við unnum áfram saman í nokkur ár en síðan fór Þórir að byggja Menntaskólann við Hamrahlíð og síðan að endurbyggja og innrétta Höfða við Borgartún.

Við Þórir fórum báðir til Vestmannaeyja í eldgosinu að negla fyrir glugga og stífa undir sperrur á þökunum. Við vorum fyrstu lærðu smiðirnir sem skráðu sig og vorum við báðir gerðir að verkstjórum. Við vildum hjálpa til í Vestmannaeyjum og við fórum báðar leiðir með varðskipi. Það var gist í sal í svefnpokum. Vinnan var launalaus en okkur var boðið á virkilega skemmtilega leiksýningu á Seltjarnarnesi sem umbun.

Við Þórir fórum margar ferðir saman út á land, eins og tvisvar í Þórsmörk og á Þingvelli. Hann átti fyrst Fíat og svo rússajeppa. Þá gat hann allt farið. Það var skuggalegt að fara yfir árnar inn í Þórsmörk, sérstaklega þegar mikið var í þeim. Við fórum líka á skíði bæði í Bláfjöllum og á gönguskíði á Hellisheiðinni.

Eftir að við höfðum kynnst konum okkar, fóru þær að fara með okkur. Við Skíðaskálann voru fínar brekkur og skíðalyftur og sömuleiðis í Jósefsdal. Okkur fannst virkilega mannbætandi að fara út úr bænum og vera í sólskini og fersku lofti.

Við kynntumst konum okkur um svipað leyti og það var mikill samgangur á milli okkar. Þau Dísa voru sérstaklega samhent og glaðvær.

Þórir var góður vinnufélagi og góður félagi. Líka traustur vinur. Hann gat verið stríðinn en hann var einstaklega glaðsinna og hláturmildur.

Ég sendi samúðarkveðjur til Rósu dóttur hans og fjölskyldu þeirra. Ég vil þakka Þóri fyrir góða vináttu á langri ævi.

Bogi Helgason.