Lyf Á þriðja tug umsagna hafa borist um lyfjafrumvarpið.
Lyf Á þriðja tug umsagna hafa borist um lyfjafrumvarpið. — Morgunblaðið/Friðriks
Hörð gagnrýni kemur fram í umsögnum um frumvarpsdrög heilbrigðisráðherra um breytingu á lyfjalögum í samráðsgátt. Áform um að veita fleiri heilbrigðisstéttum réttindi til að ávísa lyfjum vekja viðbrögð, m.a. hjá Læknafélagi Íslands (LÍ) sem mótmælir þessu harðlega og segir frumvarpsdrögin „alvarlega atlögu að öryggi sjúklinga“ í umsögn félagsins.

Hörð gagnrýni kemur fram í umsögnum um frumvarpsdrög heilbrigðisráðherra um breytingu á lyfjalögum í samráðsgátt. Áform um að veita fleiri heilbrigðisstéttum réttindi til að ávísa lyfjum vekja viðbrögð, m.a. hjá Læknafélagi Íslands (LÍ) sem mótmælir þessu harðlega og segir frumvarpsdrögin „alvarlega atlögu að öryggi sjúklinga“ í umsögn félagsins.

Hvergi sé útskýrt eða rökstutt hvernig öryggi sjúklinga verði betur tryggt með því að rýmka ávísanaréttindi annarra heilbrigðisstétta. „LÍ fullyrðir að öryggi sjúklinga verði beinlínis ógnað með þeim áformum [...],“ segir í umsögn LÍ.

Ávísanaréttindi í reglugerð

Meðal fjölmargra breytinga sem lagðar eru til í drögunum er tillaga um að heilbrigðisráðherra verði veitt heimild til að setja reglugerð um ávísanaréttindi heilbrigðisstétta, þar sem ráðherra fái heimild til að skoða frekari útvíkkun á ávísanaréttindum sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa í dag, þ.e. að rýmka skilyrðin og bæta við fleiri lyfjum og enn fremur að þessi heimild nái til fleiri heilbrigðisstétta svo sem lyfjafræðinga. Einnig er m.a. lagt bann við því að læknar eða aðrir sem hafi heimild til að ávísa lyfjum geti ávísað lyfjum til sjálfsnotkunar.

Krefst víðtækrar þekkingar

„Nánari skoðun á frumvarpsdrögunum sýnir að þau fela einnig í sér alvarlega atlögu að heimildum lækna til að ávísa lyfjum, án þess að þær takmarkanir sem drögin gera ráð fyrir séu rökstuddar. Þessar breytingar eru lagðar til án samráðs við LÍ, aðildarfélög LÍ eða sérgreinafélög lækna. Það vekur furðu að á sama tíma og þessi alvarlega atlaga er gerð að heimildum lækna til að ávísa lyfjum og þar með að draga úr réttindum lækna hvað þetta varðar er í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir að rýmka ávísanaréttindi annarra heilbrigðisstétta og færa ákvörðun um þessi efni úr hendi löggjafans í hendur heilbrigðisráðherra hverju sinni, með einfaldri breytingu á reglugerð,“ segir í ítarlegri umsögn læknafélagsins.

Bendir félagið enn fremur á að ávísun lyfja krefjist m.a. víðtækrar þekkingar í sjúkdómafræði, klínísku mati og reynslu og þekkingu á sjúkrasögu. Ávísun til lyfjameðferðar kalli á menntun sem fæstar ef nokkrar heilbrigðisstéttir hafi, aðrar en læknar.

LÍ gagnrýnir einnig það nýmæli að lagt er til að lyfjaávísanaréttindi verði takmörkuð við heilbrigðisstarfsmenn sem starfa á heilbrigðisstofnun eða starfsstöð þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt. LÍ telur að þessi takmörkun geti aldrei náð til lækna og útilokað sé að takmarka fortakslausan rétt lækna til að ávísa lyfjum skv. lyfjalögum.

Gerir félagið líka alvarlegar athugasemdir við tillögu um fortakslaust bann við að ávísa lyfjum til sjálfsnotkunar og segir dylgjur felast í skýringum með þessu ákvæði. Lyfjaávísanir lækna sæti ströngu eftirliti landlæknis. „LÍ er ókunnugt um það að lyfjaávísanir lækna á sjálfa sig hafi verið svo afbrigðilegar eða óeðlilegar að þær réttlæti dylgjur af því tagi sem hér koma fram.“

Lýsir félagið sig „þó tilbúið til samtals um að mögulega verði einhverjar skorður settar við sjálfsávísunum lækna á eftirritunarskyld og ávanabindandi lyf, líkt og gert hefur verið í sumum nágrannalöndum“.

Heimilislæknar lýsa áhyggjum

Félag íslenskra heimilislækna gagnrýnir einnig ýmis ákvæði draganna og lýsir áhyggjum af mögulegri útvíkkun ávísanaréttinda lyfja á fleiri starfsstéttir. Óttast félagið einnig að mögulega verði farið frjálslega með viðkvæmar persónuupplýsingar ef heimilt verður að tengja lyfjagagnagrunn og ýmis önnur kerfi við miðlægan gagnagrunn lyfjakorta og lýst er þungum áhyggjum af ákvæði um skerðingu sjálfsávísanaréttar lækna á lyfjum.

„Margítrekað hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að heilsa lækna er lakari en annarra með svipaða menntun og er það meðal annars vegna tregðu þeirra til að leita sér aðstoðar til kollega. Það setur stétt okkar í sérstaklega viðkvæma stöðu í litlu landi,“ segir í umsögn félagsins sem segir þó að sjálfsagt sé að banna sjálfsávísanir ávanabindandi lyfja.

Landlæknir gegn útvíkkun

Landlæknir hefur einnig sent inn umsögn með ítarlegum ábendingum og athugasemdum. Landlæknir segir m.a. um útvíkkun ávísanaheimilda lyfja til heilbrigðisstétta að engin rökstuðningur um mögulegan ávinning og áhættu af þessu fylgi frumvarpinu. „Embætti landlæknis leggst gegn þessu. Í því felst ekki að embætti landlæknis hafni því með öllu að ávísanaheimildir t.d. hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lyfjafræðinga verði teknar til skoðunar. Embættið telur hins vegar skynsamlegra að kanna vaðið áður en lagt er út í ána.“ omfr@mbl.is