Umfang löggjafar á fjármálamarkaði sem Ísland þarf að innleiða vegna EES-samningsins hefur aukist gífurlega á undanförnum árum, að sögn skrifstofustjóra á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Umfang löggjafar á fjármálamarkaði sem Ísland þarf að innleiða vegna EES-samningsins hefur aukist gífurlega á undanförnum árum, að sögn skrifstofustjóra á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umfang löggjafar á fjármálamarkaði sem Ísland þarf að innleiða vegna EES-samningins hefur aukist gífurlega á undanförnum árum. Miklar breytingar hafi átt sér stað frá árinu 1994 þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu

Umfang löggjafar á fjármálamarkaði sem Ísland þarf að innleiða vegna EES-samningins hefur aukist gífurlega á undanförnum árum. Miklar breytingar hafi átt sér stað frá árinu 1994 þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta segir Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, í samtali við ViðskiptaMoggann en hún var ein þeirra sem sátu í pallborði á málstofu á Lagadeginum sem haldinn var á dögunum.

Þar fór fram málstofa sem bar heitið: Er löggjöf á fjármálamarkaði orðin of flókin? Dr. Andri Fannar Bergþórsson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hélt erindi og að erindinu loknu fóru fram pallborðsumræður um málefnið en í pallborði sátu, til viðbótar við Guðrúnu, þau Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Arion banka, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands (HÍ) og Ólafur Arinbjörn Sigurðarson, lögmaður hjá LOGOS. Málstofustjóri var Arnaldur Hjartarson, héraðsdómari og aðjunkt við HÍ.

Breytt heimsmynd

Mikil breyting hefur orðið á regluverki fjármaálafyrirtækja á liðnum 15 árum. Guðrún segir að Evrópugerðirnar séu ekki aðeins orðnar fleiri heldur líka mun flóknari. Mikilvægt sé að skoða þessa fjölgun.

„Það voru um 45 Evrópugerðir í níunda viðauka við samninginn sem fjallar um fjármálaþjónustu árið 1994. Síðan hafa verið teknar inn vel yfir 800 Evrópugerðir í samninginn bara í þann kafla. Sem dæmi þá voru 196 gerðir teknar upp í samninginn á árunum 1994-2018. En frá 2018 til dagsins í dag eru þær 669. Þær eru ekki bara fleiri heldur líka flóknari,“ segir Guðrún og bætir við að fjölgunin skýrist meðal annars af breyttri heimsmynd.

„Evrópusambandið og heimurinn sér ástæðu til að bregðast við loftslagsbreytingum en einnig hefur fjölgunin orðið vegna aukinnar áherslu á stafvæðingu. ESB er búið að setja saman stafrænan pakka fyrir fjármálakerfið. Síðan má ekki gleyma því að löggjöfin var endurskoðuð í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Það má segja að sú endurskoðun hafi verið ákveðið áfallsviðbragð.“

Andri Fannar segir að staðreyndin sé sú að regluverk á fjármálamarkaði sé afar flókið.

„Heiti málstofunnar var: Er löggjöf á fjármálamarkaði orðin of flókin? og það vissu allir sem voru að starfa á þessum markaði að hún væri mjög flókin. Hvort hún sé of flókin er aftur á móti álit hvers og eins,“ segir hann spurður nánar um málið.

Hann segir meginvandamálið felast í því að oft á tíðum sé ekki skýrt hvaða reglur gildi hverju sinni vegna tíðra breytinga á löggjöfinni hjá Evrópusambandinu (ESB) og upptöku þessara breytinga í EES-samninginn sem Ísland á sem kunngt er aðild að.

„Mikið af regluverkinu í dag á fjármálamarkaði er í formi reglugerða frá ESB. Reglugerðirnar eru innleiddar með íslenskum lögum og reglugerðirnar sjálfar í íslenskri þýðingu gilda sem lög. Það er hins vegar ekki nóg að lesa reglugerðina heldur þarf að sjá hvort textinn sem kemur beint frá ESB hafi verið aðlagaður EES-samningnum því það er ekki búið að setja aðlögunartextann inn í reglugerðina okkar sem gerir þetta flókið,“ segir Andri.

Einfalda þarf aðgengið

Andri segir að í erindi sínu á Lagadeginum hafi hann varpað þeirri tillögu fram að Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES taki sig saman og færi öll skjölin í samþjappað skjal.

„Það er hægt að gera það en setja fyrirvara um að það geti orðið hugsanlegar breytingar. En þetta myndi klárlega auðvelda aðgengið. Ég veit til þess að þessi mál séu í skoðun,“ segir Andri.

Guðrún segir að ljóst sé að mikilvægt sé að ráðast í það verkefni að einfalda aðgengi að regluverkinu. Hún telur mikilvægt að nýta stafræna tækni til þess.

„Á Lagadeginum sagði ég að tækifærin til að takast á við þetta verkefni lægju fyrst og fremst í því að nýta stafræna tækni til að auðvelda aðgengi og yfirsýn. Að mínu mati væri heppilegast ef Seðlabankinn sem nú er með fjármálaeftirlitið innanborðs myndi ráðast í það verkefni að útbúa aðgengilegt svæði fyrir stjórnvaldsfyrirmæli í þessum geira. Í rauninni ekki ólíkt og vefur Alþingis er fyrir lagasafnið,“ segir Guðrún og bendir á að vefur Alþingis hafi í sjálfu sér ekki lögformlegt gildi heldur sé hann eingöngu þjónusta sem Alþingi veiti.

„Það er ekki um það að ræða að við getum einfaldað regluverkið upp á okkar eindæmi nema að litlu leyti meðan við erum aðili að EES-samningnum en við getum hins vegar vel einfaldað aðgengið að upplýsingum og bætt okkur í gerð leiðbeininga. Við leggjum okkur fram við það í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að skrifa vönduð lagafrumvörp með skýringum og skrifa vönduð áformaskjöl sem við birtum í samráðsgáttinni þar sem við leiðum fólk í gegnum það hvers konar fyrirbæri er verið að innleiða og hvað regluverkið inniheldur.“

Hún bætir við að í þessari málstofu á Lagadeginum hafi komið fram skýrt ákall eftir betra aðgengi.

„Við vorum þarna sex sem sátum í pallborðinu og það komu fram mismunandi sjónarhorn en það var skýr samhljómur um mikilvægi þess að bæta aðgengið.“